Heimurinn stendur frammi fyrir fjölþáttakrísu (e. polycrisis) sem að þróast hratt fyrir framan nefið á okkur, líkt og bent var á fyrir tveimur mánuðum. Afturhvarf til fyrri tíðar eða draumur um óbreytt ástand er tálsýn. Brýnna framsækinna lausna er nú krafist víða á alþjóðasviðinu þar sem loftslagsmál og öryggismál eru farin að tvinnast saman. Endurhugsun á hinu kapítalíska kerfi hefur nú um árabil verið til umræðu á alþjóðavísu, líkt og farið er yfir í forsíðugrein vikunnar, sem fjallar um tvær bækur um það efni út frá lýðræði og ójöfnuði.
Til þess að nýjar lausnir og endurskoðun eigi sér stað þarf bæði framsækið menntafólk og hugrakka stjórnmálaleiðtoga, í öllum löndum, til að efla hæfileika og samþætta lausnir svo takast megi á við margslungnar og flóknar spurningar. Draumsýnin um einfaldar lausnir eða vonin um að hlutirnir verði aftur eins og áður duga þar alls ekki.
Ófyrirsjáanleikinn er einkenni á þremur þáttum fjölþáttakrísunnnar sem við nú horfum fram á. Hann snýr í fyrsta lagi að efnahagslegum afleiðingum niðurstöðu kosninganna í Bandaríkjunum. Í annan stað eru afleiðingar loftslagshamfaranna nú orðnar það alvarlegar að ófyrirsjáanleikinn á því sviði er farin að gera tryggingarstarfsemi á sumum svæðum ómögulega. Þriðji ófyrirsjáanleikinn er síðan varðandi öryggis- og varnarmálin, í ljósi fjölþáttahernaðar sem nú smeygir sér inn á bæði Norður-Íshafið sem Eystrasaltið.
Við stöndum því berskjölduð. Gylfi Zoega prófessor í hagfræði hefur í áraraðir kallað eftir uppbyggingu á innlendu greiðslumiðlunarkerfi, í öryggisskyni. Seðlabankinn, sem ber ábyrgð á virkni greiðslumiðlunar, hefur enn ekki náð að bregðast við, sem er alvarlegt. Því að netkaplarnir til okkar gætu vel verið farnir í sundur – á morgun! En lausn virðist í augsýn og vonandi ekki of seint. Ógnin hefur legið fyrir í þrjú ár, eða síðan Rússland réðst inn í Úkraínu. Fjallað er um rússneskan efnahag í ljósi stríðsrekstrar í seinni grein vikunnar.