Í Noregi kom nýlega út bókin um landið sem varð of ríkt (n. Landet som ble for rikt) eftir Martin Bech Holte. Pistill um bókina á viðskiptafréttavefnum E24 fer yfir hvernig auðlegðin er orðin 20 þúsund milljarðar norskra króna í olíusjóðnum. Þar af eru 500 milljarðar notaðir árlega í rekstur ríkissjóðs. Niðurstaðan er: „arðurinn af olíuauðlindinni hefur gert mikið fyrir okkur Norðmenn, en hann hefur einnig breytt okkur“.
Hérlendis var farin önnur leið en í Noregi, bæði varðandi fjármögnun á hallarekstrinum á ríkissjóði sem og varðandi eignarhaldið á auðlindaarðinum. Kanski verður einhverntíman skrifuð bók um landið sem gerði auðlindamæringana of ríka, en líklegra verður að telja að hún komi aldrei út.
Fjörug umræða um auðlindaarð hefur skapast hér á síðum Vísbendingar síðan snemma síðasta haust þegar Þórólfur Matthíasson skrifaði gagnrýna grein á skýrslu sem komið hafði út á vegum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi þá um sumarið. Höfundar þeirrar skýrslu, sem unnu hana fyrir hagsmunasamtökin gegnum sameignarfélag sitt Hagrannsóknir eru báðir háskólakennarar í hagfræðideild Háskóla Íslands. Annar þeirra nú prófessor emerítus líkt og Þórólfur. Emerítusa viðbótin þýðir að starfskyldum fyrir háskólastofnunina sé lokið vegna aldurs.
Það er markmið okkar á Vísbendingu að fagleg skoðanaskipti fari fram á síðum blaðsins héreftir sem hingað til og vonandi í auknum mæli. Talsvert hefur enda skort á heilbrigð skoðanskipti og gagnrýna umræðu um hagfræði hérlendis.
Raunheimurinn getur verið tilraunastofan fyrir kenningar úr hagfræðinni, en þær geta líka orðið dýrkeyptar tilraunirnar sem þannig fara fram. Ákvörðun um að gefa auðlegðina af auðlindum þjóðar er hvorki náttúrulögmál né óafturkræf. Hins vegar þarf afgerandi pólitíska ákvörðun til að breyta kerfi sem viðgengist hefur til áratuga. Hagsmunaaðilarnir berjast auðvitað gegn þess háttar breytingum. Geta jafnvel keypt sér fyrirtæki og rekið með tapi til að halda baráttunni fyrir sínum hag áfram gegnum hugveitu- og útgáfustarfsemi undir yfirskini fjölmiðlunar.
Athugasemd ritstjóra við eftirskrift höfunda
Ritstjóri fagnar faglegum ritdeilum á síðum blaðsins og heilbrigðum skoðanaskiptum um mikilvæg efnahagsmál sem falla undir efnistök blaðsins. Leiðaraskrif ritstjóra undir dálkinum sem kallast Aðrir sálmar eru einmitt, eins og skoðanapistlar almennt, stundum með afgerandi afstöðu eða dregur fram ólíkar skoðanir til að vekja lesendur til umhugsunar. Almennt er efni blaðsins eitthvað reifað í leiðaranum en misjafnlega mikið og einstaka sinnum tekin afstaða með öðrum hvorum málstaðnum þegar svo ber undir.
Staðreyndir málsins eru: Skýrsla Hagrannsókna þeirra Ragnars og Birgis sem birtist á vef SFS er dagsett í maí 2024 og var kynnt 9. september. Fyrri grein Þórólfs Matthíassonar um skýrsluna birtist í Vísbendingu 20. september 2024 á innsíðum. Fyrri svargrein Ragnars og Birgis sem birtist 6. desember, barst upphaflega til ritstjóra 30. október, eftir að ritstjóri hafði hvatt Ragnar til að bregðast við skrifum Þórólfs nokkrum vikum áður. Þann 12. nóvember höfðu Ragnar og Birgir brugðist við yfirlestri ritstjóra og breytingatillögum. Stuttu síðar barst ritstjóra önnur gagnrýni á SFS skýrslu þeirra félaga og voru þær greinar birtar saman í blaði þremur vikum síðar.
Sá biðtími var vegna fjölda annarra greina sem bárust blaðinu en var styttri en tíminn sem liðið hafði frá birtingu upphaflegu greinar Þórólfs þar til gagnrýni þeirra barst. Nú er seinni gagnrýni grein Ragnars og Birgis birt í öðru tölublaði frá því hún var send ritstjóra á Þorláksmessu 2024 og með annarri svargrein Þórólfs. Þess má geta til samanburðar að báðar greinar síðasta tölublaðs höfðu beðið birtingar fleiri vikur en áðurnefndar greinar.