Nú liggja niðurstöður kosninga fyrir og þegar ríkisstjórn hefur verið mynduð þarf að takast á við efnahagsstjórn þjóðarbúsins. Einn mikilvægur þáttur er að afla tekna í ríkissjóð til þess að forðast niðurskurðarstefnu og viðvarandi hallarekstur.
Ekki bar mikið á hagfræðingum í fjölmiðlum, til að skýra efnahagsleg úrlausnarefni í aðdraganda kosninga. Fyrir utan einn, leiðtoga stjórnmálaflokks, sem – kannski fyrir vikið – sigraði. Hagfræðingurinn Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands er því komin með umboð frá Höllu Tómasdóttur forseta Íslands til stjórnarmyndunar.
Eitt verkefni nýrrar stjórnar verður að afla tekna af auðlindum. Í blaði vikunnar birtist svargrein höfunda skýrslu sem unnin var fyrir hagsmunasamtök handhafa aflaheimilda á Íslandsmiðum. Skýrsla þeirra var gagnrýnd harðlega af kollega þeirra úr Háskóla Íslands hér í Vísbendingu fyrr í haust.
Það er ánægjulegt að Adam Smith liggi til grundvallar þegar ritdeila milli emerítus prófessora úr hagfræðideildinni í Háskólanum nær flugi. Í því sambandi má benda lesendum á fjögurra ára gamla grein í Vísbendingu um frelsið frá rentusókn og mikilvægi grandvarra skoðana í samhengi við auðlegð þjóða.
Forsíðugrein vikunnar gagnrýnir sömu skýrslu með einfaldri útleiðslu og varpar ljósi á hvernig skringileg forsenda um skatta á heimili sem innri stærð, sem liggur til grundvallar ályktunar höfundanna um að hærri skattar á fyrirtæki leiði til lægri VLF, leiðir í raun til lægri skatta og samneyslu. Sú niðurstaða er í samræmi við keynesískar niðurstöður nóbelsverðlaunahafans norska, Haavelmo, um að lækkun skatta og samneyslu leiði til lægri VLF. Þá er bent á að sömu villu og leiðrétt er í greininni sé einnig að finna í annarri eldri skýrslu annars sama höfundar. Sú var skrifuð fyrir samtökin sem hétu þá LÍÚ en liggja SFS að baki og gegna sömu hagsmunagæslu.
Hlutverk stjórnmálanna er að gæta hagsmuna almennings, gegn sérhagsmunum. Sérstaklega auðugra áhrifaafla. Tækifæri nýrrar stjórnar er að taka valdið frá hagsmunaöflunum og láta almannahag stýra.