FX error None
Stýrivextir 7,2%
Verðbólga 3,7%
Mannfjöldi 393.160
FX error None
Stýrivextir 7,2%
Verðbólga 3,7%
Mannfjöldi 393.160
Til baka

Grein

Braut­ryðj­end­ur berj­ast fyr­ir vernd­un Mið-norð­ur­ís­hafs­ins

Frumkvæði tveggja kvenna knýr fram framkvæmdastöðvun til að vernda ísskjöld Norðurheimskautsins

Arctic circle 2025
Mynd: Arctic Circle

Bráðnun Norðurskautsins hefur lengi skapað alvarlegar áskoranir fyrir íbúa þess, en nú nær þessi krísa langt út fyrir heimskautsbauginn. Á ráðstefnu Hringborðs norðurslóða í Hörpu í síðustu viku voru ný viðskiptatækifæri og félagsleg áhrif hopandi íss rædd ítarlega. Tryggingatap á heimsvísu vegna loftslagsbreytinga gæti numið 145 milljörðum dollara árið 2025 og hagsmunir jarðarbúa hafa aldrei verið meiri.

Árið 2017 stofnuðu þær Sally Anne Ranney og Inge Relph samtökin Global Choices til að vekja athygli á hnattrænum afleiðingum hraðrar rýrnunar hafíss á norðurslóðum. Markmið þeirra er að breyta viðhorfi heimsins frá nýtingu Mið-norðuríshafsins yfir í verndun þess. Svæðið liggur utan lögsögu ríkja og er talið alheimssameign, líkt og Suðurskautslandið sem nýtur sérstakrar sáttmálaverndar síðan 1959. „Ef við glötum Norðurskautinu, glötum við heiminum“ sagði réttilega Sauli Niinistö, fyrrverandi forseti Finnlands. Þessi hugsun liggur að baki starfi Global Choices, sem krefjast að minnsta kosti tíu ára framkvæmdastöðvunar á allri viðskiptastarfsemi á Mið-norðuríshafinu. Hléið myndi ná yfir skipaumferð, námuvinnslu á hafsbotni, hljóðbylgjumælingar, olíu- og gasrannsóknir, losun kjarnorkuúrgangs og kjarnorkutilraunir. Markmiðið með hléinu er að vinna tíma til að bæta vísindalíkön og skapa trausta lagaumgjörð til ábyrgðarstjórnunar.

Frá byrjun hefur Global Choices byggt á þátttöku og eflt leiðtogahæfni yfir 70 ungra kvenna frá 38 löndum sem „Arctic Angels“ – talskonum sem vekja athygli á brýnni þörf verndunar Norðurskautshafsins. Þær hafa talað á alþjóðlegum ráðstefnum og sýnt fram á hvernig hlýnun loftslags og bráðnun íssins hefur nú þegar áhrif í heimalöndum þeirra, meðal annars í formi öfgaveðurs, flóða, hafhitabylgna og hækkandi sjávarstöðu. Samtökin hafa einnig skipulagt alþjóðlega samræðu við vettvanga eins og Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið og Hringborð norðurslóða. Í Hörpu kynnti Global Choices árið 2021 drög að fjölþjóðlegri framkvæmdastöðvun sem tekur mið af sjónarmiðum frumbyggja, komandi kynslóða og réttinda náttúrunnar.

IMG_2999
Mynd: Globalchoices.org

Sem ráðgjafi Global Choices hef ég sjálf orðið vitni að miklum framförum í gegnum uppbyggileg samtöl við leiðtoga og þátttöku á Hringborði norðurslóða. Það sem hófst sem djörf hugmynd hefur öðlast aukinn trúverðugleika með framförum í loftslagsvísindum og vaxandi skilningi á lykilhlutverki Norðurskautsíssins í stöðugleika loftslags á heimsvísu.

Til að efla samvinnu boðaði Global Choices saman fjölmörg frjáls félagasamtök á hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nice síðastliðið sumar til að samræma aðgerðir og styrkja boðskapinn. Vonin er að þessi sameinaði kraftur muni tryggja langtímavernd Mið-norðuríshafsins. Og umræðan fær nú stöðugt meiri hljómgrunn. Fleiri samtök og áhrifamiklir aðilar, þar á meðal sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna fyrir málefni hafsins sem og háttsettir diplómatar, studdu varúðarhlé á nýtingu svæðisins á Hringborði norðurslóða í síðustu viku. En brautryðjendastarf kvennanna í Global Choices hefur fengið of litla viðurkenningu, þótt samtökin hafi verið lykilaðilar í að móta umræðuna síðustu átta ár.

Mannkynsagan gleymir oft framlagi kvenna og frumbyggja, en nýjar hugsanir og starfshættir sem þau færa fram eru lykillinn að framtíðinni. „Hinn kvenlegi þáttur er stýrikerfi 21. aldarinnar“[1] og sú hugsjón endurspeglast í starfi Global Choices. Um hundsun framlaga kvenna er fjallað nánar í bók[2] sem kemur út í apríl 2026.

Þessi grein er tileinkuð frumkvöðlunum Inge Relph og Sally Anne Ranney. Þær hafa með framtíðarsýn sinni og staðfestu kveikt alþjóðlega hreyfingu til verndar Mið-norðuríshafsins. Starf þeirra minnir okkur á að andspænis vá fyrir plánetuna þá verður vernd að koma á undan gróða.

Tilvísanir

  1. J. Gerzema & M. D´Antonio (2013), The Athena Doctrine. Hoboken, NJ: Jossey-Bash.

  2. K. V. Ragnarsdóttir & A. B. Torfason (2026), The Elgar Companion to Creating a Renerative Economy for Wellbeing. Cheltenham, UK: Edward Elgar Publisning

    https://www.e-elgar.com/shop/gbp/the-elgar-companion-to-creating-a-regenerative-economy-for-wellbeing-9781800884960.html

Næsta grein