Bráðnun Norðurskautsins hefur lengi skapað alvarlegar áskoranir fyrir íbúa þess, en nú nær þessi krísa langt út fyrir heimskautsbauginn. Á ráðstefnu Hringborðs norðurslóða í Hörpu í síðustu viku voru ný viðskiptatækifæri og félagsleg áhrif hopandi íss rædd ítarlega. Tryggingatap á heimsvísu vegna loftslagsbreytinga gæti numið 145 milljörðum dollara árið 2025 og hagsmunir jarðarbúa hafa aldrei verið meiri.
Árið 2017 stofnuðu þær Sally Anne Ranney og Inge Relph samtökin Global Choices til að vekja athygli á hnattrænum afleiðingum hraðrar rýrnunar hafíss á norðurslóðum. Markmið þeirra er að breyta viðhorfi heimsins frá nýtingu Mið-norðuríshafsins yfir í verndun þess. Svæðið liggur utan lögsögu ríkja og er talið alheimssameign, líkt og Suðurskautslandið sem nýtur sérstakrar sáttmálaverndar síðan 1959. „Ef við glötum Norðurskautinu, glötum við heiminum“ sagði réttilega Sauli Niinistö, fyrrverandi forseti Finnlands. Þessi hugsun liggur að baki starfi Global Choices, sem krefjast að minnsta kosti tíu ára framkvæmdastöðvunar á allri viðskiptastarfsemi á Mið-norðuríshafinu. Hléið myndi ná yfir skipaumferð, námuvinnslu á hafsbotni, hljóðbylgjumælingar, olíu- og gasrannsóknir, losun kjarnorkuúrgangs og kjarnorkutilraunir. Markmiðið með hléinu er að vinna tíma til að bæta vísindalíkön og skapa trausta lagaumgjörð til ábyrgðarstjórnunar.
Frá byrjun hefur Global Choices byggt á þátttöku og eflt leiðtogahæfni yfir 70 ungra kvenna frá 38 löndum sem „Arctic Angels“ – talskonum sem vekja athygli á brýnni þörf verndunar Norðurskautshafsins. Þær hafa talað á alþjóðlegum ráðstefnum og sýnt fram á hvernig hlýnun loftslags og bráðnun íssins hefur nú þegar áhrif í heimalöndum þeirra, meðal annars í formi öfgaveðurs, flóða, hafhitabylgna og hækkandi sjávarstöðu. Samtökin hafa einnig skipulagt …


