Ný ritstjórn mun taka við Vísbendingu á næstu vikum. Fráfarandi ritstjóri, Emil Dagsson, hefur hafið rannsóknardvöl í Bandaríkjunum og segir þar með skilið við ritstjórn Vísbendingar eftir að hafa stýrt blaðinu í rúmt ár.
Síðastliðið ár hefur verið viðburðaríkt hjá Vísbendingu. Í sumar var 40 ára stórafmæli Vísbendingar haldið hátíðlegt með sérstakri afmælisútgáfu og viðburði í húsakynnum Háskóla Íslands. Á viðburðinum voru líflegar pallborðsumræður m.a. um þróun íslensks efnahags. Afmælisútgáfan var samansafn greina sem fjölluðu um efnahag Íslands yfir þau fjörutíu ár sem blaðið hefur komið út. Viðburðinum lauk með kynningu á nýjum Vísbendingarverðlaunum sem eru veitt fyrir framúrskarandi lokaritgerð á sviði viðskipta- og hagfræði. Verðlaunin eru hvatning til nemenda til að stuðla að uppbyggilegri umræðu og umfjöllun um efnahagsmál á Íslandi.
Á árinu var eining kynnt nýtt útlit og heimasíða Vísbendingar ásamt því að útgáfan fluttist um set við eigendaskipti. Með þeim breytingum gefst útgáfunni tækifæri til þess að vaxa og dafna í nýju umhverfi og höfða til fjölbreyttari og stærri hóps lesenda. Vísbending mun samt sem áður halda sinni sérstöðu með að bjóða upp á vandaða umfjöllun sérfræðinga og fræðimanna á málefnum líðandi stundar.
Vísbending er nefnilega mikilvægur vettvangur fyrir upplýsta og óháða efnahagslega umfjöllun, eins í dag og áður. Af mörgu verður að taka næstu misseri. Með faglegri og óháðri umfjöllun – sem er þó ekki hrædd við að synda á móti straumnum – mun blaðið halda ótrautt áfram á þeirri áralangri vegferð sem hefur verið ómissandi í þá fjóra áratugi sem blaðið hefur verið gefið út.