
Ósjaldan hefur því verið haldið fram að kínverska hagkerfið og/eða stjórnmálakerfið riði til falls. Fyrir mótmælin á Tiananmen-torgi 1989 töldu margir að Kína myndi smám saman þróast úr einræðiskerfi í átt til lýðræðisfyrirkomulags að vestrænni fyrirmynd en í kjölfar mótmælanna spáðu enn fleiri því að kommúnistastjórnin myndi falla af sjálfu sér. Í kringum aldamótin fór í auknum mæli að bera á greiningum sem sögðu fyrir um hrun hagkerfisins. Þekktasta falsspáin af þeim toga frá þeim tíma er væntanlega The Coming Collapse of China eftir bandaríska lögfræðinginn Gordon G. Chang sem út kom árið 2001.
Dómsdagsspár um Kína skipta raunar tugum ef ekki hundruðum og má finna í víða, þá einkum í bandarískum tímaritum.
Sovétríkin og Kína
Áskoranirnar sem Kína stendur frammi fyrir eru vissulega margar og von er á fleirum í framtíðinni. Sumar þeirra á Kína að nokkru leyti sameiginlegar með öðrum ríkjum, m.a. ófyrirséðar afleiðingar loftslagsbreytinga og óhagkvæm aldursskipting samfélagsins. Aðrar snúa að sérstökum aðstæðum Kína sjálfs og mætti sumpart kenna við vaxtarverki en tengjast ekki síður ótta og vantrausti annarra ríkja gagnvart þessu nýja stórveldi í heimi sem einkennist af aukinni spennu og samkeppni um auðlindir, hnattræn ítök og völd yfir tilteknum land- og hafsvæðum jarðar. Óttinn við Kína er æði mikill og kemur ekki síst til af því að skilningi á Kína er enn mjög ábótavant, þá sér í lagi á Vesturlöndum, þar sem tilhneiging er til að leggja meiri áherslu á að dæma en skilja.
Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1990 og kalda stríðinu lauk dró eðlilega úr þörfinni á sérfræðingum um Sovétkerfið, enda kerfið ekki lengur til. Ýmsir Sovétsérfræðingar í Bandaríkjunum og víðar sem störfuðu fyrir hið opinbera söðluðu um og tóku að beina sjónum sínum að Kína. Bandarískur Kínafræðingur sem starfaði fyrir hið opinbera og ég hitti fyrir um tuttugu árum tjáði mér þá að í bandarísku stjórnkerfi úði og grúði af fyrrum Sovétsérfræðingum sem nú væru ábyrgir fyrir því að setja fram greiningar á Kína án teljandi reynslu af eða þekkingu á kínverskri …








