Hann var kallaður faðir evrunnar og hét Robert Mundell, kanadískur hagfræðingur, og var prófessor í Columbia-háskólanum í New York og lengi með annan fótinn á Ítalíu. Hann taldi eina mynt handa heiminum öllum, eina heimsmynt, vera eina vitið. Þá yrði gengið aldrei of hátt skráð og aldrei of lágt heldur, hvergi nokkurs staðar, þar eð gjaldmiðlar eru eins og tangó: það þarf tvo til að tjútta. Ef gjaldmiðillinn er einn og aðeins einn, þá vaknar hún aldrei spurningin um gengi milli þessa gjaldmiðils og annarra gjaldmiðla því þeir eru ekki til. Það er galdurinn.
Eina vitið? Nei, varla
Kannski verður þessi draumsýn Mundells einhvern tímann að veruleika, en heldur virðist mér það ólíklegt. Það stafar af því að fastgengi hefur bæði kosti og galla og flotgengi líka. Þess vegna kjósa sumar þjóðir að búa við fast gengi og aðrar við flotgengi. Og stundum kýs sama þjóð fast gengi gagnvart sumum gjaldmiðlum og fljótandi gagnvart öðrum eins og evruþjóðirnar gera.
Og til eru þjóðir sem kjósa sér ýmist fast gengi eða fljótandi gagnvart öllum gjaldmiðlum í einu gegnum tíðina eins og Íslendingar hafa gert vitandi vits allan lýðveldistímann. Það var skiljanleg skipan. Svo kom evran og þá breyttist allt. Meira um Ísland á eftir.
Miðflótti, miðsókn
En fyrst þetta.
Þegar þjóðir taka sér sjálfstæði stofna þær yfirleitt eigin gjaldmiðil (og setja sér nýja stjórnarskrá) til að ítreka aðskilnaðinn frá erlendum yfirboðurum fyrri tíðar. Það var gert til dæmis í Nígeríu þegar fólkið þar tók sér sjálfstæði 1960. Iðulega fellur nýja myntin …