
Hann var kallaður faðir evrunnar og hét Robert Mundell, kanadískur hagfræðingur, og var prófessor í Columbia-háskólanum í New York og lengi með annan fótinn á Ítalíu. Hann taldi eina mynt handa heiminum öllum, eina heimsmynt, vera eina vitið. Þá yrði gengið aldrei of hátt skráð og aldrei of lágt heldur, hvergi nokkurs staðar, þar eð gjaldmiðlar eru eins og tangó: það þarf tvo til að tjútta. Ef gjaldmiðillinn er einn og aðeins einn, þá vaknar hún aldrei spurningin um gengi milli þessa gjaldmiðils og annarra gjaldmiðla því þeir eru ekki til. Það er galdurinn.
Eina vitið? Nei, varla
Kannski verður þessi draumsýn Mundells einhvern tímann að veruleika, en heldur virðist mér það ólíklegt. Það stafar af því að fastgengi hefur bæði kosti og galla og flotgengi líka. Þess vegna kjósa sumar þjóðir að búa við fast gengi og aðrar við flotgengi. Og stundum kýs sama þjóð fast gengi gagnvart sumum gjaldmiðlum og fljótandi gagnvart öðrum eins og evruþjóðirnar gera.
Og til eru þjóðir sem kjósa sér ýmist fast gengi eða fljótandi gagnvart öllum gjaldmiðlum í einu gegnum tíðina eins og Íslendingar hafa gert vitandi vits allan lýðveldistímann. Það var skiljanleg skipan. Svo kom evran og þá breyttist allt. Meira um Ísland á eftir.
Miðflótti, miðsókn
En fyrst þetta.
Þegar þjóðir taka sér sjálfstæði stofna þær yfirleitt eigin gjaldmiðil (og setja sér nýja stjórnarskrá) til að ítreka aðskilnaðinn frá erlendum yfirboðurum fyrri tíðar. Það var gert til dæmis í Nígeríu þegar fólkið þar tók sér sjálfstæði 1960. Iðulega fellur nýja myntin í verði gagnvart móðurmyntinni. Nígeríska naíran hefur frá 1960 fallið um 99,5% gagnvart brezka pundinu. Til samanburðar hefur íslenzka krónan fallið um 99,95% gagnvart dönsku krónunni frá 1939 þegar Íslendingar sneru baki við skráningu fasts gengis í hlutfallinu ein íslenzk króna á móti einni danskri, 1:1. Hvað sem því líður, þá hlaut gjaldmiðlum heimsins að fjölga þegar margar nýfrjálsar þjóðir tóku að hasla sér völl árin eftir 1960. Miðflóttaaflið náði yfirhöndinni. Markmiðið var að uppskera hagræði af sjálfstæði í peningamálum, oft en þó ekki alltaf á kostnað stöðugs gengis.
Síðan gerðist það að ESB-þjóðunum þótti verðbólgan heima hjá sér vera orðin of mikil og þá afréðu þær að leggja eigin þjóðmyntir til hliðar og sameinast heldur um eina mynt, evruna, til að girða fyrir gengisfellingar einstakra landa í eigin þágu. Miðsóknaraflið náði undirtökunum. Fyrirmyndin var skýr: Bandaríkin. Kalifornía fellir ekki gengið til að styrkja stöðu sína gagnvart Texas eða öfugt, enda búa bæði ríkin við einn og sama gjaldmiðil, dollarann. Markmiðið er að njóta hagræðisins af stöðugu gengi á kostnað sjálfstæðis í peningamálum.
Einmitt þetta er hugsunin á bak við evruna: ein og sama mynt í öllum ESB-löndum þýðir að spurningin um gengi gjaldmiðla innan sambandsins kemur aldrei upp, ekki frekar en spurningin um gengisbreytingar innan Bandaríkjanna. Hnattvæðing undangenginna ára hefur styrkt miðsóknaraflið gegn miðflóttaaflinu. Þess vegna hefur Ísland frá upptöku evrunnar 1999 staðið í fyrsta sinn frammi fyrir skýru og raunhæfu vali milli óbreytts ástands, sem þýðir fljótandi gengi í raun til langs tíma litið, og upptöku evrunnar, sem þýðir fast gengi í eitt skipti fyrir öll eða þannig þar til annað verður ákveðið. Ekkert evruland hefur enn sem komið er snúið baki við evrunni.
Norðurlöndin
Nú eru aðildarríki ESB 27 talsins og þar af nota 20 aðildarríki evruna, hin bíða. Bíða? Já, þau bíða þar eð aðild að ESB felur yfirleitt í sér lagalega skuldbindingu til að taka upp evruna. Sum ný aðildarríki fá þó frest til að laga sig að aðild og til að taka upp evruna. Finnar þurftu engan slíkan frest heldur tóku upp evruna strax við inngönguna í ESB 1995. Svíar báðu um frest og fengu hann, héldu þjóðaratkvæðagreiðslu 2003 þar sem upptöku evrunnar var hafnað, en þeir eru eigi að síður skuldbundnir til að taka upp evruna í fyllingu tímans.
Danir tóku upp evruna í reynd frá byrjun 1999 þótt þeir notist enn við dönsku krónuna, en það gera þeir aðeins að nafninu til. Danska krónan hefur verið negld blýföst við evruna frá upphafi án nokkurra frávika sem orð er á gerandi. Þetta þýðir að Færeyjar og Grænland eru einnig evrulönd í reynd því gjaldmiðlar þeirra eru bundnir við danska krónu í hlutfallinu 1:1 eins og íslenzka krónan var árin fyrir 1939. Fróðlegt verður að sjá hvort Færeyingar og Grænlendingar halda þeirri fastgengisskipan sinna gjaldeyrismála þegar að því kemur að þeir taka sér sjálfstæði frá Dönum eða hvort þeir stofna eigin gjaldmiðla eins og Íslendingar gerðu líkt og flestar aðrar nýfrjálsar þjóðir.
Kostir og gallar
Rökin með og á móti aðild að …








