Íslensk ferðaþjónusta hefur vaxið mjög hratt á undanförum einum og hálfum áratug. Því vill oft gleymast hversu veikburða hún var og hversu mjög hún var yfirskyggð af hagsmunum annarra atvinnugreina. Það er nú gerbreytt.
Ferðaþjónustan er nú orðin stærsta útflutningsgreinin. Áhrif hennar og umfang eru öllum ljós. Hlutdeild ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu (VLF) nálgast 9 prósent, en þegar útreikningur á þessu hlutfalli hófst, árið 2009, var það hlutfall 3,5 prósent. Það hélst í upphafi svipað (sjá mynd 1) en árið 2016, fimm árum síðar, var það komið í 8,2 prósent og hélst stöðugt á þeim slóðum allt til ársins 2019. Þegar Covid-faraldurinn skall á af öllum sínum þunga hrapaði þessi hlutdeild, eðli máls samkvæmt, en í fyrra gerðust þau tíðindi að hún hefur aldrei verið metin hærri, eða 8,8 prósent af landsframleiðslu.
Á síðasta ári var fólk í ferðaþjónustu 13,3 prósent starfandi á vinnumarkaði og hlutfall útflutningstekna af erlendum ferðamönnum nálgast þriðjung, eða 32,2 prósent (sjá mynd 2).
Mikilvægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar fyrir íslenskt samfélag er þannig ótvírætt. Það er þó ekki sjálfgefið að það haldist.
Dæmi af vexti
Akstursmælir er sjálfsagt ekki nákvæmasta mælistikan þegar kemur að talnagreiningu um kraft íslenskrar ferðaþjónustu en eftir rúmlega tvö hundruð kílómetra frá Reykjavík nemur bíllinn staðar á Hólmavík við Steingrímsfjörð. Hvalaskoðunarskip er í þann mund að leggja úr höfn; einn yngsti vert landsins, Guðrún á Café Riis, stendur vaktina í elsta húsi bæjarins; forvitnir ferðamenn virða fyrir sér nábrækur og setstokka á Galdrasýningunni á meðan ögn jarðbundnari þjóðararfur nýtur sín á Sauðfjársetrinu; …