Á samráðsgátt stjórnvalda liggja fyrir áform um lagasetningu er varðar breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í stuttu máli er ætlunin að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðum til útleigu með því að rýmka heimildir sjóðanna til fjárfestinga í leigufélögum.
Málefnið er brýnt og vonandi að úr verði sem fyrst. Aðkoma stærri fjárfesta að leigumörkuðum er eðlilegur hluti náttúrulegrar þróunar sem á sér stað þegar borgir og samfélög stækka. Þá er algengt að sjá lífeyrissjóði í mörgum öðrum þróuðum löndum fjárfesta í sjóðum og félögum hvers meginstarfsemi er að byggja, reka og leigja út íbúðir. Í Sviss, þar sem höfundur þessarar greinar starfar sem fasteignahagfræðingur, fjárfesta sumir lífeyrissjóðir 20-25% af eignasafninu í fasteignum ýmis konar. Íbúðir í Sviss er stór hluti af þeim fjárfestingum.
En hver yrðu áhrif þess að íslenskir lífeyrissjóðir fjárfestu á íslenskum leigumarkaði í gegnum óskráða sjóði og félög sem eiga og reka leiguíbúðirnar? Hér verður farið yfir nokkur atriði sem koma upp í hugann.
Stærri verkefni – fleiri íbúðir
Fyrst er rétt að átta sig á hvers konar eignir fagfasteignafjárfestingasjóðir (FFF, eða Real Estate Investment Trust, REIT, á ensku) vilja eiga. Þessir fjárfestar, í yfirgnæfandi hluta tilvika, eru ekki í samkeppni við einstaklinga þegar kemur að íbúðakaupum. Eitthvað er um að stórir fjárfestar reyni að kaupa ein- og fábýlishús í Bandaríkjunum en þegar kemur að markaðinum í Evrópu er langalgengast að sjá fjölbýlishús með 20-200 íbúðum ganga kaupum og sölum í heild sinni. Oft eru fjölbýlishúsin nokkur, þ.e. t.d. 200 íbúðir …