Trump, Kína og tollarnir
Þess er beðið í ofvæni – og í sumum tilvikum milli vonar og ótta – hversu orðheldinn Donald J. Trump reynist þegar hann tekur aftur við sem forseti Bandaríkjanna í janúar á næsta ári. Meðal umdeildustu kosningaloforða hans eru þau sem snúast um himinháa innflutningstolla en margir hagfræðingar telja að afleiðingar þeirra hefðu neikvæð áhrif á heimshagkerfið og yrðu ekki einu sinni til hagsbóta fyrir bandarísku þjóðina.
Sjálfur hefur Trump fullyrt að Kínverjar taki hótunum hans alvarlega, því þeir viti að hann sé „klikkaður“ og líklegur til að fylgja þeim eftir.
Við þetta bætist að Elon Musk, stundum nefndur „ameríski ólígarkinn“ vegna fyrirséðrar valdastöðu sinnar í ríkisstjórn Trumps, tjáði vanþóknun sína þegar Joe Biden tilkynnti um fjórföldun innflutningstolla á kínverskar rafbifreiðar upp í 100% í maí sl.
Viðskiptastríð 2.0
Hvað sem því líður er ljóst að af fenginni reynslu gera yfirvöld í Beijing ráð fyrir hinu versta í uppfærðri útfærslu viðskiptastríðsins. Fyrstu aðgerðirnar sem túlka mætti sem viðbrögð við kosningasigri Trumps litu dagsins ljós 8. nóvember þegar kínversk yfirvöld tilkynntu fjárveitingu upp á 10 billjónir (10 þúsund milljarða) yuan (um 190 billjónir króna) til að draga úr opinberum skuldum héraða.
Á síðustu árum hafa ýmis alþjóðleg fyrirtæki flutt sig um set utan landamæra Kína, bæði vegna viðskiptastríðsins og óhagstæðra tolla en einnig vegna þess að framleiðslukostnaður í Kína hefur farið hækkandi á liðnum áratug. Öllu áhugaverðara er að kínversk framleiðslufyrirtæki hafa einnig tekið í auknum mæli að flytja hluta framleiðslu sinnar út fyrir Kína og nær sú saga lengra aftur í tímann. Mörg hinna kínversku hafa tekið sér bólstað í Suðaustur- og Suður-Asíu, í Mið- og Suður-Ameríku og í ríkjum Afríku. Þetta ferli á tvímælalaust eftir að færast í aukana í nánustu framtíð óháð þeim örlögum sem bíða samkeppnishæfni vörumerkisins „Made in China“.
Hvað má lesa út úr þessu? Eitt er að Kína er í óða önn að færa þungamiðju sína úr grunnframleiðslu yfir í hátækniiðnað og sérfræðiþjónustu, t.d. í fjármálageiranum.
Gallinn við að flytja sig frá Kína er þó sá að aðfangakeðjan er ekki alls staðar jafn skilvirk. Á meðan innviðir og flutningsleiðir í Kína eru orðin meðal þeirra bestu á heimsvísu gildir ekki hið sama um lönd víða um heim, t.d. í Suðaustur-Asíu, Suður-Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Það er þarna sem verkefnið „Belti og braut“ kemur til sögunnar.
Belti og braut í hnotskurn
Á Íslandi hefur lítið farið fyrir umræðu þetta verkefni sem þó hefur verið í virkni víða um heim í allmörg ár og angar þess í formi hugmynda og áætlana teygja sig jafnvel alla leið til Norður-Atlantshafs undir heitinu „Norðurslóðabelti og -braut“.








