Enginn deilir um að efnahags- og atvinnumál séu hagsmunamál okkar allra. Það er erfiðara að vera sammála um að hægur hagrænn vöxtur sé góður valkostur fyrir samfélagið. Þá eru skiptar skoðanir um hvaða atvinnugreinar uppfylli kröfur um gott jafnvægi í samfélaginu, styðji við bætt lífskjör, öflugt velferðarkerfi og gæti meðalhófs í auðlindanýtingu. Um þessar mundir er það ferðaþjónusta sem atvinnugrein sem er áberandi í samfélagsumræðunni.
Vöxtur ferðaþjónustunnar kom á heppilegum tíma fyrir íslenskt samfélag. Ýmsar ástæður liggja þar að baki en af innlendum toga skiptir efnahagslægð í kjölfar fjármálahrunsins í október 2008 mestu, hún skapaði svigrúm fyrir nýjan vöxt. Atvinnuleysi var mikið, halli var á viðskiptum við útlönd, gengið var sögulega lágt með tilheyrandi verðbólgu og háum vöxtum og þá ríkti almennt ójafnvægi á atvinnu- og húsnæðismarkaði. Innlendir innviðir voru vannýttir, vegakerfið réð við fleiri bíla og vinsælir ferðamannstaðir gátu stækkað. Smám saman fyllti þó alþjóðleg eftirspurn ferðamanna eftir vöru og þjónustu, upp í ónýtta framleiðslugetu.