Til baka

Aðrir sálmar

Horfinn heimur

Öryggið minnkar þegar stuðlað er að vaxandi óvissu

Heimsmynd okkar breytist á hverjum degi nú um stundir. Blaðamenn eru skotnir til bana í tjöldum sínum fyrir utan spítala fyrir botni Miðjarðarhafsins, spítala sem fær hvorki orku né lyf og læknarnir þar fá ekki mat. Áður en ný innrás hefst – sem við fáum þá væntanlega herstjórnunarlega ritskoðaðar fréttir af þar sem blaðamann eru ekki til trafala.

Eftirlit með þeim sem fara með mikil völd er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr. Þess vegna kallar sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna eftir því að gripið verði til aðgerða á viðskiptalega sviðinu gagnvart landinu sem hún telur vera að fremja þjóðarmorð á Palestínu. Norski olíusjóðurinn er einn af fáum sem hefur brugðist við með sölu á öllum hlutabréfum í tilteknum fyrirtækjum eftir úttekt innra eftirlits sem stjórnvöld kölluðu eftir í framhaldi af vandaðri rannsóknarblaðamennsku.

Í þessu fyrsta blaði eftir sumarhlé og næstu tveimur birtist þriggja greina flokkur um eftirlit og innri endurskoðun hérlendis sem ákaflega mikilvægt er að færa til nútímahorfs og að verði í samræmi við evrópskar tilskipanir og alþjóðlega endurskoðunarstaðla, hið minnsta.

Þau sem setja reglur og hafa lagasetningarvald hafa fordæmishlutverk. Alþingi hefur því miður verið uppvíst að því að brjóta sínar eigin æðstu reglur, sjálfa stjórnarskrána í lagasetningu á þarsíðasta þingi um afurðastöðvar til dæmis eins og komið hefur fram í Héraðsdómi. Þá eru jafnvel til dæmi um að ráðherra leggi fram og þingið samþykki lagabreytingar sem eru til þess að reyna að gera lögleg fyrri brot sem Hæstiréttur hefur staðfest að standist ekki stjórnarskrá, ef marka má það sem fram kom í Morgunglugga Ríkisútvarpsins í síðustu viku um rekstur veiðifélaga.

Virðing þingsins er í húfi. En hún hefur síst aukist eftir endalok hinnar þinglegu umræðu um auðlindagjöld í þinglok. Upphaf nýs þings mun vonandi setja nýjan tón í því efni – því óþarfi er að auka enn á óvissuna heima við þegar heimurinn hristist af óvissu.

Næsta grein