Ritstjóri Vísbendingar sest niður með Sigurði Hannessyni á skrifstofu Samtaka iðnaðarins í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni til viðtals fyrir haustþemablað Vísbendingar um húsnæðismál.
Það er húsnæðisskortur og húsnæðiskrísa á Íslandi í dag. Hver er ástæðan að þínu mati?
Of fáar íbúðir hafa verið byggðar á undanförnum 15 árum, sérstaklega árin 2010-2016. Það er einfaldlega of lítið byggt miðað við þarfir samfélagsins.
Er þetta ástand þá tengt hruninu 2008?
Þetta tengist því en það eru fleiri kraftar að verki eins og hröð fólksfjölgun. Þegar hagkerfið tekur aftur við sér á síðasta áratug og eftirspurnin eykst þá fara af stað verðhækkanir. Þó að takturinn í uppbyggingunni hafi aukist og við höfum séð kringum 3000 íbúðir koma inn á markaðinn á ári síðustu árin þá hefur það samt ekki dugað til. Það birtist síðan í miklum verðhækkunum, sem eru meiri hér en í öðrum löndum. Meira að segja núna, þrátt fyrir hátt vaxtastig, þá hafa verðhækkanir íbúðarhúsnæðis verið umfram verðbólgu.
Eru þá háir raunvextir að drífa upp verð húsnæðis hér enn meira en í löndunum í kring?
Nei, maður hefði haldið að það myndi dempa frekar en hitt. En þörfin fyrir húsnæði er einfaldlega það mikil að skorturinn myndast. Fólki hefur fjölgað mikið á Íslandi á stuttum tíma, langt umfram spár. Því til viðbótar eru lýðfræðilegar breytingar, öldrun þjóðar og breytt fjölskyldumynstur með færri íbúum í hverri íbúð. Þá hefur kaupmáttur aukist og þannig hefur þetta saman drifið áfram hækkanir á húsnæði.
Besti mælikvarðinn eru verðhækkanir íbúðarhúsnæðis sem eru langt umfram verðlagsþróun. Verðhækkanir …