
Áramótin eru móðir allra frídaga í Rússlandi. Þá fagna Rússar nýju ári og njóta vikulangrar fríviku, fram að jólum rétttrúnaðarkirkjunnar, 7. janúar. En um leið og Rússar búa sig undir að hafa það náðugt og splæsa í notalegt áramótafrí eru blikur á lofti í efnahag landsins og afkomu fjölskyldna. Rúblan er í frjálsu falli og þar með snarhækkar verð á innfluttum vörum og innlent matvælaverð hefur einnig hækkað, knúið áfram af verðbólgu, truflunum á aðfangakeðjum og lamandi áhrifum refsiaðgerða á framleiðslu. Landið stendur frammi fyrir hruni í efnahagslegu tilliti nú þegar stríðsreksturinn í Úkraínu er að komast inn á sitt fjórða ár.
Viðvörunarljósin blikka víða og venjulegir Rússar þurfa að herða ólarnar við undirleik óðaverðbólgu, svimandi hárra stýrivaxta og hríðfallandi gengis rúblunnar. Er nú svo komið að stjórnvöld í Kreml velta því fyrir sér að taka upp sérstök matarkort fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins.
Síhækkandi stýrivextir
Hlutverk Seðlabanka Rússlands er ekki öfundsvert við þessar aðstæður sem keppist við að koma á stöðugleika í hagkerfinu með vaxtahækkunum og gjaldeyrisinngripum. Seðlabankastjórinn, Elvíra Nabíúllína, hefur stýrt Rússlandi í gegnum nokkrar efnahagskreppur síðan hún tók við því hlutverki árið 2013 og hún nýtur almennt mikils trausts og álits meðal valdhafa í Moskvu og víðar. Reyndar voru sögusagnir um að hún hefði óskað eftir lausn frá embætti í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar 2022 en að Pútín forseti hafi synjað þeirri beiðni – og þar við situr.
Frá því í júlí 2024 hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti þrisvar sinnum – úr 16% í lok júlí í 21% í október. Nabíúllína hefur sagt að vextir gætu hækkað enn frekar og raunar var sterkur orðrómur á kreiki nú fyrir jól að vextir myndu þá hækka í 23% en svo varð þó ekki – sennilega vegna pólitísks þrýstings. Þá hefur gengi rússnesku rúblunnar gagnvart Bandaríkjadal fallið um nær fjórðung frá miðju ári og til ársloka 2024.
Um leið hefur seðlabankastjóri mátt þola mikla gagnrýni frá ólígörkum og ýmsum embættismönnum sem telja að tilraunir hennar til að hemja verðbólgu séu að kæfa viðskiptalífið. Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi hækkað vexti ítrekað virðist það ekki duga til að ná niður verðbólgu. Að sögn rússneskra kaupsýslumanna og hagfræðinga sýnir þetta að það er nánast ómögulegt að halda jafnvægi milli ólíkra sjónarmiða og hagsmuna í rússneska stríðshagkerfinu. Þannig sé til dæmis ekki hægt að samræma stöðugt gengi og markaðshagkerfi annars vegar og gegndarlaus útgjöld í stríðsrekstur hins vegar, annað hvort verði undan að láta! German Gref, stjórnarformaður Sberbank stærsta banka Rússlands og fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra, lýsti því til dæmis yfir í byrjun desember að vaxtastefnan kæmi í veg fyrir að Rússland kæmist inn á braut hagvaxtar á nýjan leik og að nú væru sjáanleg veruleg merki um samdrátt í efnahagslífinu, sérstaklega í húsnæðisbyggingum og fjárfestingum. Til fróðleiks má geta þess að Nabíúllína tók við embætti efnahags- og viðskiptaráðherra af Gref árið 2007 og þau hafa bæði lengi verið talin meðal allra frjálslyndustu forystumanna í rússnesku efnahags- og stjórnmálalífi og andstaða þeirra við innrásina í Úkraínu er þekkt – en í Rússlandi Pútíns fylgir þú annað hvort foringjanum eða fellur út um glugga ella!
Því er nærtæk spurning hvort Rússland sé að nálgast hrunpunkt eins varð Sovétríkjunum að falli árið 1991
Stríðshagkerfið
Sannleikurinn er sá að Vladimír Pútín forseti hefur dælt peningum inn í rússnesku stríðsvélina síðan Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022. Honum er að sjálfsögðu vel ljóst hvaða afleiðingar þessi stefna hefur fyrir efnahag landsins og á árlegum blaðamannafundi sínum nú nýverið viðurkenndi Pútín vandamál bæði með „verðbólgu“ og „einhverja ofhitnun hagkerfisins“ en sagði að „ríkisstjórninni og Seðlabankanum hafi þegar verið falið að hægja á sér.“ Með því móti freista Kremlverjar þess að hafa stjórn á þróun efnahagsmála en reynslan ætti þó að kenna að hagkerfið stjórnast ekki af stjórnvaldsfyrirmælum heldur beinum aðgerðum eða aðgerðaleysi í ríkisfjármálum og peningamálum. Mikil verðbólga og hækkandi vextir hafa augljóslega skapað mikinn vanda fyrir rússneska hagkerfið. Jafnvel vopnaframleiðendur eiga nú erfitt með að ná endum saman. Á áðurnefndum blaðamannafundi sagði Pútín: „Við verjum 6,3 prósentum af vergri landsframleiðslu í að bæta og styrkja varnir okkar [...] Við getum ekki leyft þessum útgjöldum að aukast endalaust.“ Þannig má segja að forsetinn geri sér grein fyrir vandanum og viðurkenni að rússneska hagkerfið leyfir honum ekki að heyja …








