Til baka

Grein

Leggjast veiðigjöld á sjávarútvegsbyggðir?

Um „Samantekt gagna vegna umsagnar um frumvarp um breytingar á lögum um veiðigjöld“, sem unnin er af ráðgjafarsviði KPMG fyrir Samtök sjávarútvegsveitarfélaga.

Verð á þorski og ýsu á fiskmörkuðum er 20-33% hærra en það er í svokallaðri beinni sölu innan samþætts sjávarútvegsfyrirtækis. Erfitt er að skýra þennan mikla verðmun með málefnalegum rökum. Lágt verð í beinum viðskiptum lækkar hlut sjómanna, greiðslur til hafna fyrir löndun afla og greiðslu veiðigjalda til ríkissjóðs. Þessu vill ríkisstjórnin breyta með því að færa verðlagningu í beinum viðskiptum nær verðlagningu á mörkuðum milli óskyldra aðila. Breytingin hefur ekki áhrif á magn úthlutaðs kvóta eða útflutningsverð.

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga fengu KPMG til að leggja fram gögn um möguleg áhrif leiðréttingarinnar á fjárhag sinn.

Þessi grein byggir á glærukynningu frá KPMG dagsettri 16. maí 2025. Kynningin samanstendur af 13 glærum ef allt er talið, forsíðuglæra, fyrirvaraglæra og viðaukaupplýsingar. Efnislegar upplýsingar eru á 9 glærum, mest í formi línurita. Einnig eru birtar tölur í mikilli leturstærð sem sýna valdar staðreyndir (t.d. á glæru 4 um að 15,3% af fasteignagjöldum sveitarfélags séu vegna eins sjávarútvegsfyrirtækis).

Á glæru sem ber fyrirsögnina Fyrirvari er tekið fram að hlutverk KPMG sé að taka saman gögn og upplýsingar sem nýtist verkbeiðanda við gerð umsagnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld. Tekið er fram að KPMG hafi ekki aðkomu að gerð umsagnarinnar að öðru leyti. Efnistök og framsetning efnis er þó ekki í samræmi við lýsingu á Fyrirvaraglæru. Þegar hefur verið nefnt að tölulegar upplýsingar eru settar fram með ýktum hætti svipað og stjórnmálaflokkar gera gjarnan í áróðursefni fyrir kosningar. Þá byggja ályktanir KPMG um áhrif hækkunar veiðigjalda á fjárhag sveitarfélaga á ókynntum forsendum um fjármögnun fjárfestinga sjávarútvegsfyrirtækja sem eru vægast sagt vafasamar.

KPMG fullyrðir, kannski með réttu en þó án sannfærandi rökstuðnings, að ekki sé nóg að skoða heimilisfesti sjávarútvegsfyrirtækja til að átta sig á áhrifum stjórnvaldsaðgerða á fjárhag sveitarfélaga. Þannig er dregið fram á glæru 5 að Brim hf (með heimilisfesti í Reykjavík) sé með starfsemi á Vopnafirði. Þar í bæ starfi 105 manns við fiskvinnslu og fiskveiðar (ekki kemur fram hve margir þeirra starfi hjá Brim). Sagt er að fjárfesting Brims í Vopnafirði sé í hættu verði veiðigjaldið hækkað og að það myndi hafa áhrif á fjárfestingu sveitarfélagsins í hafnarmannvirkjum. Þá er tilgreint að 36,5% af staðgreiðsluskyldum launagreiðslum séu vegna fiskveiða og vinnslu. Í ljósi fyrirvaraglæru KPMG er ekki ljóst hvort fullyrðingar á glæru 5 séu á ábyrgð fyrirtækisins KPMG eða sveitarfélagsins Vopnafjarðarhrepps[1]. Framsetning tölulegra staðreynda og annarra efnisatriða er til þess fallin að vekja þau hugrenningartengsl hjá lesandanum að veiðigjaldshækkun setji all marga þætti í sveitarfélaginu Vopnafjarðarhreppi í uppnám: a) 105 störf, b) 15,3% af fasteignagjöldum, c) 36,5% af útsvari, d) 8-12 millljón króna fjárfestingu Brims hf. og e) ótilgreina upphæð fjárfestingar Vopnafjarðarhafnar í hafnarmannvirkjum. Eins og fyrr segir firrir KPMG sig allri ábyrgð á að vekja þessi hugrenningartengsl. Spurning sem eftir stendur er þá hver ber ábyrgðina. En látum það liggja milli hluta. Á glæru 11 er sagt „Ýmsar vísbendingar (eru) um að hækkun veiðigjalda geti haft veruleg áhrif á fjárfestingar, umfang sjávarútvegs, fjölda starfa og þar með skatttekjur einstakra sveitarfélaga“. Þessu er fylgt eftir með ábendingum um að sé færri tonnum landað eða fækki störfum dragist útsvarstekjur saman. Þá er talað um að minna fjárstreymi til hafnarsjóða eða sveitarsjóða setji fjárfestingar í hafnarmannvirkjum og öðrum innviðum í biðstöðu. Síðustu fullyrðingarnar um tengsl útsvarstekna, hafnargjalda og innviðafjárfestinga má vel fallast á. En hvað með frumforsendurnar?

Grundvallarspurningum ekki svarað

Sjávarútvegssveitarfélögin vilja vita með hvaða hætti hækkun veiðigjalda hafa áhrif á fjárhag sveitarsjóðanna og hafnarsjóðanna. Svör KPMG virðast byggja á þeirri forsendu, sem þó kemur hvergi fram á glærunum að sjávarútvegsfyrirtækin munu draga úr fjárfestingu til að fjármagna veiðigjaldagreiðslur. Þetta er vægast sagt vafasöm forsenda. Þvert á það sem er sett fram á glærunum er líklegt að hærra reiknað aflaverðmæti muni hækka tekjur hafna. Þá má skilja gagnasamantektarskýrsluna þannig að hærri álagning veiðigjalds muni fækka lönduðum tonnum. Það er rangt eins og bent var á í upphafi. Hugsanlega flyst afli eitthvað milli hafna vegna veiðigjaldsins, en ekkert er gefið í þeim efnum.

Ráðgjafarsvið KPMG virðist ganga útfrá því að fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi séu nær einvörðungu hægt að fjármagna af hagnaði þeirra sömu fyrirtækja. Það er rangt. Svo dæmi sé nefnt þá fjármagnaði Samherji fiskeldi ehf, dótturfélag Samherja hf nýverið fyrsta áfanga nýrrar landeldisstöðvar við Reykjanesvirkjun með útgáfu nýs hlutafjár og sambankaláni. Samkvæmt fréttatilkynningu fyrirtækisins nam þessi fjármögnun 34 milljörðum króna. Til samanburðar má nefna að hagnaður Samherja árið 2023 var 8,1 milljarður króna eftir skatta skv. uppgjöri félagsins.[2] Þessa staðreynd um aðferðir við að fjármagna fjárfestingarverkefni þekkja allir endurskoðendur og fjármálaráðgjafar að sjálfsögðu og því íhugunarvert hví KPMG kjósi að þegja um þessa grunnforsendu greiningarinnar í greinargerð sinni.

Til að svara spurningu sjávarútvegssveitarfélaganna þarf að umorða rannsóknarspurninguna og spyrja: Er líklegt að sjávarútvegsfyrirtæki geti ekki fjármagnað fyrirhugaðar fjárfestingar ef hagnaður þeirra lækkar lítillega vegna aukinna veiðigjalda? Svarið við þeirri spurningu er skilyrt. Ef framkvæmdin er nægjanlega arðbær til að standa undir afborgunum og vöxtum af framkvæmdaláni þá er mjög ólíklegt að hún verði slegin af. Ef framkvæmdin er hins vegar óarðbær í þeim skilningi að hún standi ekki undir markaðsvöxtum horfir málið öðru vísi við. Þá er líklegt að framkvæmdin yrði slegin af. Þannig að arðbærar fjárfestingar verða fyrir litlum ef nokkrum áhrifum af hækkun veiðigjalds. Hækkun veiðigjalds gæti hins vegar dregið úr óarðbærum fjárfestingum ef þeim er til að dreifa. Með þessum hætti gæti hækkun veiðigjald ýtt undir betri framleiðsluþáttanotkun og þar með aukið framleiðni fjármagns í atvinnugreininni.

Sömu rök eiga við um umfang starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja. Fyrirtækin munu hafa hvata til að halda áfram starfsemi sem er arðbær þó svo veiðigjöld hækki vegna þess að veiðigjöld eru reiknuð sem hlutfall af hagnaði greinarinnar.

Öll röksemdafærsla í gagnasamantekt KPMG byggir á að nokkuð beint samhengi sé milli hagnaðar sjávarútvegsfyrirtækja og fjárfestinga þeirra. Dæmið sem nefnt var hér að ofan af fjárfestingu Samherja nýverið sýnir að það samhengi er ekki til staðar. Skýrslan eða glærukynningin með samantekt gagnanna fellur því að mestu um sjálfa sig. Því til viðbótar eru vafasamar fullyrðingar um áhrif veiðigjalda á afkomu hafna. Spurningum sjávarútvegssveitarfélaganna er því enn ósvarað.

Ríkisstjórnin telur áhrif hækkunar veiðigjalda á sveitarfélög lítil.  Gagnasöfnun KPMG og greinargerð sjávarútvegssveitarfélaganna fyrir álitsgerð samtaka sjávarútvegsfyrirtækja er tilraun til að hnekkja þeirri fullyrðingu.  Það tekst ekki.  Þvert á móti eykst trúverðugleiki fullyrðingar ríkisstjórnarinnar við lestur kynningar KPMG.

--

[1] Samkvæmt fundargerð Vopnafjararhrepps kemur KPMG að endurskoðun og gerð fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps, sjá t.d. https://vopnafjardarhreppur.is/stjornsysla/sveitarstjorn/fundargerdir/sveitarstjorn/317.

[2] Sjá: https://www.samherji.is/is/frettir/fjarmognun-lokid-a-nyrri-landeldisstod-samherja og https://www.samherji.is/is/frettir/rekstrarhagnadur-samherja-hf-naer-obreyttur-fra-fyrra-ari-og-efnahagur-stendur-sterkum-fotum. Þá er jafnframt fullyrt við mig að stórfelld endurnýjun togaraflotans á síðasta áratug hafi verið fjármögnuð með erlendum lánum á mjög lágum vöxtum. KPMG getur líklega staðreynt hvort þetta sé rétt í eigin gagnagrunnum.

Næsta grein