Þeir miklu umbrotatímar sem við nú lifum kalla á framsækni í menntakerfinu og þá er hressandi að hitta prófessora sem geisla af umbreytingarkrafti og vilja til að snúa á haus því sem hefur þótt viðtekið til þess að gera nemendur tilbúna fyrir hinn gjörbreytta heim sem er að verða til fyrir framan augun á okkur.
Þegar sá sem þetta ritar lauk MBA prófi í Ósló á hálfnuðu öðru ári þessarar aldar var sagt í útskriftarræðu yfir okkur útskriftarnemunum að hin nýja og alþjóðlega menntun okkar myndi úreldast á um 36 mánuðum. Eftir þrjú ár þyrftum við að vera farin að hefja símenntun okkar sjálfra. Prófessor Galdón segir mér í þessu viðtali að hún miði við að nám nemenda sinna sé þegar úrelt við útskrift. Hún menntar nemendur til þess að takast á við annars konar heim en hægt er að kenna um. Námið felst í því að geta lært á nýjan veruleika og þróast stöðugt með breytileika hans.
Dr. Concepción Galdón Sanz-Pastor, sem leiðir sjálfbærnistarf viðskiptaháskóla IE í Madríd, er prófessor í samfélagslegri nýsköpun og aðstoðarrektor fyrir tilgangsríkt viðskiptalíf (e. business purpose). Hún hélt yfirgripsmikið og afar fræðandi erindi um sjálfbærni í háskólum, bæði háskólastarfsemi og háskólamenntun, á málþingi sem viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík hélt í síðasta mánuði vegna 25 ára afmælis skólans. Vegferð IE háskólans í Madríd, þaðan sem Galdón kemur, í átt að aukinni sjálfbærni er afar áhugaverð. Því settist ritstjóri Vísbendingar niður eftir erindið í húsakynnum Háskólans í Reykjavík og átti áhugavert samtal við Galdón sem þessi grein byggir á.
Vinnumarkaðurinn sem nemendur fara út á eftir að námi lýkur mun snúast um sjálfbærni. Það er ekki bara umhverfisleg sjálfbærni heldur ekki síður efnahagsleg sjálfbærni og félagsleg sjálfbærni.
Sjálfbærni
Sjálfbærni skiptir máli í háskólamenntun og í starfsemi háskóla líkt og annarra stofnana og fyrirtækja. Vinnumarkaðurinn sem nemendur fara út á eftir að námi lýkur mun snúast um sjálfbærni. Það er ekki bara umhverfisleg sjálfbærni heldur ekki síður efnahagsleg sjálfbærni og félagsleg sjálfbærni. Þessa þrjá þætti sjálfbærninnar er ekki hægt að aðgreina og mikil mistök að einblína á einn af þeim einvörðungu. Þeir eru samþættir allir þrír, segir Galdón.
Háskólar undirbúa nemendur fyrir heiminn þar sem þörf er á að afla þekkingar og miðla þeirri þekkingu sem mun hafa áhrif og skipta máli fyrir heiminn. Þannig að ef háskólar vilja skipta máli í heiminum, þá þurfum við að tala um sjálfbærni. Alveg eins og fyrirtæki sem vilja skipta máli.
Sjálfbærni skiptir okkur máli því hún skiptir máli fyrir heiminn, segir Galdón, og þess vegna þarf að kenna og tala um sjálfbærni. Hún skiptir máli í háskólum því að háskólar undirbúa nemendur með aukinni þekkingu sem verður að skipta máli í heiminum.
Umbreytingar
IE hefur tekið sjálfbærni föstum tökum. Skólinn hefur meðal annars fengið viðurkenningu sem kolefnishlutlaus háskóli og fjarlægt nánast allan pappír úr starfsemi sinni. Galdón segir algjört lykilatriði að sjálfbærni sé höfð í huga í öllu starfi háskólans.
Sjálfbærni er hvorki átaksverkefni, né verkefni einnar deildar sem hefur það hlutverk að setja fram efni fyrir nokkrar síður í ársskýrslunni heldur þarf sjálfbærnin að vera rauður þráður í allri starfseminni og við þurfum að horfa á allt sem starfsmenn í fyrirtæki eða stofnun gera í gegnum sjálfbærnina.
Horfa þarf á hlutina í stærra samhengi í stað þess að skoða aðeins þetta einfalda sem er beint fyrir framan augun. Mikilvægt er að starfsmenn og nemendur nái að skilja hvernig hið smáa sem hver gerir fellur að hinu stóra samhengi og hvernig það passar inn í raunheiminn og ekki bara á pappír eða í líkönum. Þar þarf að læra að horfa til lengri tíma og skilja hvaða afleiðingar það sem gert er muni hafa, segir Galdón. Allir nemendur og starfsmenn innan IE háskólans eru þannig ábyrg fyrir sjálfbærni skólans.
Um IE skólann í Madríd
IE háskólinn er í fremstu röð í Evrópu og tekur virkan þátt í endurmótun æðri menntunar í álfunni. Háskólinn samanstendur af viðskiptaskóla, lagaskóla, hugvísindaskóla, og þremur skólum arkitektúrs og hönnunar; vísinda og tækni; og stjórnmála, hagfræði og alþjóðamála auk stofnunar sem heldur utan um kennslu ævimenntunar fyrir stjórnendur.
Lykilatriði í vegferð IE háskólans, sem er einkarekinn, er að stofnandi hans, Diego del Alcázar y Silvela, hefur ætíð verið opinn fyrir breytingum. Það er eitt grundvallargildi IE að vera háskóli sem er opinn fyrir því að þróast og breytast í takt við samfélagið og tímann.
Starfsfólk og nemendur IE eru ekki hrædd við breytingar og er lögð mikil áhersla á frumkvöðla, nýsköpun og nýjungar í þróun. Þegar ósvikin vitsmunaleg forvitni fær að blómstra og fólk er ekki hrætt við breytingar, þá gerist það sjálfkrafa að nemendur tileinka sér tilgang, markmið og aðferðir sjálfbærninnar.
Skólinn hóf starfsemi sína með áherslu á að vera opinn fyrir breytingum og að gera hluti sem hafa raunverulega þýðingu til umbóta í samfélaginu. Ekki þýðir að vera hrædd við breytingar, heldur verður miklu frekar að vinna að því að gera það sem raunverulega skiptir máli til að breyta heiminum, segir Galdón.
Hefur IE fengið viðurkenningu fyrir að vera kolefnishlutlaus háskóli. Aðspurð um hvað felist í því segir Galdón að skólinn sé kolefnishlutlaus þegar kemur að beinni losun frá starfsemi og jafnframt losun vegna orkunotkunar, bæði rafmagns og hita. Þriðji þáttur kolefnishlutleysisins er síðan sú losun sem verður hjá þriðja aðila vegna starfseminnar.
Galdón segir að það sé mjög skýrt hvernig háskólar geti orðið kolefnishlutlausir vegna fyrri tveggja þáttanna en það sé eilítið flóknara með þriðja þáttinn þar sem ekki séu til eins góð viðmið fyrir háskóla varðandi þann þátt. IE er því meðal annars að vinna að gerð slíkra viðmiða og leiðbeiningum fyrir háskóla um hvernig þeir geti orðið kolefnishlutlausir að öllu leyti.
Fræðaleiðangur
Ég spyr hana út í bakgrunn og menntun hennar sjálfrar sem á rætur í opinberri stjórnsýslu og alþjóðlegri hagfræði. Hún kemur þannig úr óvæntri átt inn í hlutverk sitt í dag sem prófessor í viðskiptaháskóla, út frá bakgrunni hennar í opinberri stjórnsýslu frá Harvard og doktorsprófi í þróunarhagfræði. Hvernig stóð á því að þessi menntun leiddi hana á þann stað sem hún er í dag á sínum starfsferli?
Allt mitt líf hef ég vitað að ég vil gera eitthvað sem skiptir máli - fyrir mig og heiminn - segir hún. Við erum ekki hér á jörðinni að eilífu - hver dagur skiptir því máli – og ég hef aldrei viljað vinna fyrst og verða svo hamingjusöm síðar meir. Hef frekar ávallt viljað vinna við það sem ég get verið stolt af og þá meina ég stolt í og af vinnu minni á hverjum einasta degi.
Henni þykir mikilvægt að gera hluti sem skipta máli, til dæmis að minnka fátækt í heiminum. Hlutir sem skipta máli í raun og veru aðeins fyrir okkur sjálf, ekki endilega fyrir aðra því það mun enginn muna eftir okkur eftir andlátið, segir hún, jafnvel þó að okkur hafi tekist að minnka fátækt einhverra. Þess verður ekki getið í neinum sögubókum. En börnin okkar og barnabörnin munu hins vegar muna eftir okkur og því sem við gerðum, eða fengum áorkað – en síðan gleymumst við.
Þess vegna tók hún þátt í sjálfboðastarfi allan sinn framhaldsskóla og vildi síðan vinna áfram að því að draga úr fátækt og gera eitthvað sem skiptir máli. Arfleifðin er henni mikilvæg, þó það sé jafnvel aðeins gagnvart nánustu afkomendum okkar.
Galdón endaði síðan á því að læra þróunarhagfræði en segist fyrst og fremst vera hagfræðingur frekar en kennari eða eitthvað annað. Hún skilgreinir sig sem hagfræðing innan félagsvísinda og fjallar þannig um hvernig við skipuleggjum líf okkar með það markmið að laða fram hagsæld.
Það leiddi hana út í að stúdera hinn mikla kraft einkageirans og viðskiptalífsins til þess að breyta heiminum
Hún vildi stunda alþjóðlega hagfræði og þróunarhagfræði sem leiddi til þess að hún bjó í nokkrum löndum til að öðlast alþjóðlega reynslu og vann fyrir Sameinuðu þjóðirnar auk þess að stofna almannaheillasamtök. En fann svo út að lokum að þar sem henni leið best var í raun og veru í einkageiranum og viðskiptalífinu. Þetta leiddi til sjálfsmyndarkrísu (e. identity crisis). Hvað er umbreytingarsinni eins og ég að fara að gera í lífinu ef að mér líður best í einkafyrirtæki, hugsaði hún með sjálfri sér. En það leiddi hana út í að stúdera hinn mikla kraft einkageirans og viðskiptalífsins til þess að breyta heiminum.
Þannig fór að hún flutti sig úr þróunarhagfræðinni yfir í samfélagslega nýsköpun (e. social entrepreneurship) þar sem hún hefur starfað síðan. Síðustu þrettán ár innan skólans IE í Madríd, sem er einkarekinn háskóli á nokkrum mismunandi afmörkuðum sviðum. Þar hefur hún verið í nokkrum ólíkum störfum innan skólans, líkt og hentar vel fyrir umbreytingarsinna eins og hana.
Bakgrunnur Concepción Galdón
Dr. Concepción Galdón Sanz-Pastor prófessor, hefur starfað við IE háskólann í Madríd frá árinu 2017 bæði sem prófessor í frumkvöðlafræði og nýsköpun með áherslu á sjálfbærni og jafnframt stjórnandi miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun auk þess að vera aðstoðadeildarforseti með áherslu á tilgang og stefnufesti viðskiptalífsins.
Hún hefur doktorspróf í alþjóðlegri þróunarhagfræði frá Complutense háskólanum í Madríd og lauk námi með láði árið 2016. Rannsóknin fjallaði um áhrif tækninýjunga á félagslega nýsköpun og var í henni beitt megindlegri aðferðafræði á raungögn frá Evrópusambandinu. Hlaut Concepción Galdón verðlaun fyrir bestu doktorsritgerðina það árið. Áður lauk hún meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu og alþjóðlegri þróun frá Kennedy School of Government í Harvard háskóla í Bandaríkjunum árið 2009.
Samfélagsleg nýsköpun
Sjálfbærni er frekar nýtt hugtak innan tungumáls okkar en sömu eða svipaðir hlutir og sjálfbærnin fæst við voru til staðar áður þó að hugtakanotkunin hafi verið önnur. Þarna sá Galdón strax að væri það sem hún vildi starfa við, og að sjálfbærni væri eitthvað miklu meira en það leit út fyrir í upphafi. Í gegnum IE skólann í Madríd hefur hún fundið réttu leiðina til að hafa áhrif á viðskiptalífið og kenna leiðtogum framtíðarinnar hvernig umbreyta má heiminum með því að nýta möguleika viðskiptanna á góðan og gagnlegan hátt.
Hugtökin sem við notum skipta máli og skilgreining þeirra. Þannig verður tungumálið að sterku afli. Sjálfbærni, hagvöxtur og framþróun eru lykilhugtök í öllu viðskipta- og efnahagslífi nútímans. Galdón fer stuttlega yfir söguna, hvernig á síðasta áratug síðustu aldar var talað um samfélagsleg áhrif (e. social impact) en í raun var það í grunninn sama hugsun og varðandi sjálfbærnina.
En þar skiptir máli hvernig við notum orðin. Sama á við um hugtökin velsældarhagkerfið eða það sem einnig er stundum kallað farsæld. Þau hugtök eru beintengd sjálfbærni segir Galdón. Mjög mikilvægt er að átta sig á því að sjálfbærni tengist ekki einvörðungu umhverfismálum. Sjálfbærni snýst um það að lifa af á jörðinni til lengri tíma og er þess vegna bæði hagfræðilegt hugtak og samfélagslegt hugtak. Sjálfbærnina verður að skoða út frá þessum þremur sjónarhornum, segir Galdón, náttúruleg eða umhverfisleg sjálfbærni, félagsleg eða samfélagsleg sjálfbærni og síðan efnahagsleg eða fjárhagsleg sjálfbærni. Velsældin er hugtakið sem nær utan um heildina á þessari þríliðu.
Samfélagsleg sjálfbærni er mikilvægur þáttur sem tengist hinum hagfræðilegu og umhverfislegu en þetta fjallar á endanum um hamingju okkar, bætir Galdón við og brosir breitt. Það að búa í landi og hagkerfi sem gerir okkur hamingjusöm hlýtur að vera markmiðið. Hagfræði sem vinnur gegn því er gagnslaus.
Veruleikinn sem við búum við núna er að við notum mælikvarða eins og verga landsframleiðslu sem eru gamalgrónir kvarðar sem mæla mikilvæga hluti. En það er vandkvæðum bundið þegar hugtakið framþróun er takmarkað við hagvöxt einvörðungu. Framfarir og þróun samfélagsins geta aldrei orðið jafngildar aukningu vergrar landsframleiðslu einvörðungu og þessi áhersla undanfarinna áratuga á hagvöxt hefur ekki fært okkur nægjanlega sjálfbæra framþróun samfélagsins.
Til dæmis nefnir Galdón að ef við aukum fjárfestingu í bættri lýðheilsu og forvörnum á heilbrigðissviði sem leiðir til aukins heilbrigðis, þá gæti það lækkað hagvöxt því heilbrigðisþjónusta myndi dragast saman vegna þess að íbúar landsins væru heilbrigðari. Hamingjan myndi vissulega aukast og samfélag landsins sem legði í slíka fjárfestingu væri meira virði og betra að búa í, en útgjöld ríkissjóðs gætu aukist tímabundið en myndu lækka til lengri tíma. Vegna þess hvernig hagvaxtar mælingar ganga út frá aukningu vergrar landsframleiðslu og takmörkunum við mælingar á heilbrigði og hamingju þá er uppbygging lýðheilsu aldrei metin jafngild og fjárfesting í hörðum innviðum, en við verðum að breyta mælingunum fyrir framþróun samfélagsins eða landsins til að auka hagsæld innan hagkerfisins og komast til betri sjálfbærni í víðum skilningi. Vegna þess hvernig hagvöxtur er mældur með vexti afmarkaðrar landsframleiðslu þá getur hagvöxtur aldrei orðið góður mælikvarði á framþróun samfélags okkar til framtíðar, segir Galdón.
Sjálfbærni tengist ekki einvörðungu umhverfismálum. Sjálfbærni snýst um það að lifa af á jörðinni til lengri tíma og er þess vegna bæði hagfræðilegt hugtak og samfélagslegt hugtak
Náttúran og auðlindir
Næst komum við í samtali okkar að náttúrunni og auðlindum hennar. Íslenskt þjóðfélag og vinnumarkaður hefur umbreyst á síðustu árum og sérstaklega undanfarna einn til tvo áratugi. Við höfum farið frá því að vera vöruútfytjandi á fiski og hráefni eins og áli, sem er raunverulegur útflutningur á orkunni úr iðrum jarðar og fallvötnunum okkar; yfir í að verða stærri útflytjandi á þjónustu við ferðamenn.
Það þykir Galdón áhugaverð umbreyting landsins. En bætir við að það er almennt séð lítill virðisauki og lítil álagning innan ferðamannaiðnaðar. Hún þekkir vel til þess frá heimalandi sínu, Spáni. IE hefur unnið í samstarfi við ferðaþjónustugeirann með að yfirfæra gömlu hugmyndina um ferðalanginn (e. traveller), frekar en massa-túrismann eða fjölda ferðaþjónustu (e. tourism). Þá er hugmyndin einnig að hafa eitthvað mikilvægt og verðmætt að kenna og selja ferðalangnum upplifun ferðlagsins.
Hugtakið um reikningsskil náttúrulegs auðmagns (e. accounting of natural capital) liggur þar til grundvallar og tengist sjálfbærninni einnig. Þá er ferðalangnum líka kennt hvernig umgangast á náttúruna á hverjum stað og þannig tekur hann þátt í varðveislu á náttúrugæðum í stað þess að ganga á þau. Samfélagsleg áhrif ferðaþjónustunnar verða þannig gagnleg en ekki ágeng. Hægt er að ná miklu samkeppnisforskoti með þess háttar áherslum og nýta sérstöðu staða og smærri fyrirtækja sem oft gefa mun meira af sér en hefðbundin skalahagkvæmni stórfyrirtækjanna.
Hugmyndin um ferðalanginn snýr að því að líta ekki lengur á eða að leggja áherslu á ferðamennsku sem fjöldaframleiðslu, með auknu magni og lítilli framlegð á einingu, sem leiðir af sér lítinn virðisauka en mikinn fjölda. Fjölda sem drepur á endanum niður ferðamannalandið og fælir fólk frá því sem verið er að selja, eins og í tilfelli Íslands, segir hún, hefur tapað kjarna sínum. Á völdum stöðum á Spáni er verið að hverfa aftur til hins gamalgróna ferðalangs og þjónustu við hann.
Ferðalangurinn er einhver sem er að njóta náttúrunnar og menningarverðmæta landsins, og það er kjarni þess sem verið er að selja; drauma ferðalangsins fyrir ferðalanginn. Þessi aðferðafræði stýrir því hvers konar ferðamenn laðast að stöðunum eða landinu. Það þarf að velja vel og vanda vinnuna og alla umgjörð þannig að upplifun ferðalanganna eða ferðafólksins verði sem best. Þar liggur til grundvallar menningararfleifð landsins og menningarsagan á hverjum stað, auk þess sem gæði þjónustunnar eru í fyrirrúmi.
Þegar ferðalangaþjónusta er framkvæmd á vandaðan hátt þá er hún mögulega sú atvinnugrein sem hefur mesta framtíðarmöguleika. En þá verður land eins og Ísland að forðast þau mistök sem lönd eins og til dæmis Spánn hafa gert, segir Galdón. Það er hægt að nýta náttúruna og vernda hana samtímis, en það krefst sérstakrar menningar, bæði menningarinnar sem er seld ferðalanginum en einnig viðskiptamenningarinnar sem liggur til grundvallar atvinnugreininni.
Tækniþróun og menntun
Undir lok samtalsins komum við að tæknibreytingum og menntakerfinu. Þar hafa átt sér stað miklar umbreytingar, bæði fyrir og eftir heimsfaraldurinn. Menntun í gegnum netið á alls ekki að fela í sér að nemandi sitji heima klukkustundum saman og hlusti á kennara halda fyrirlestur í gegnum upptöku eða streymi.
Fyrirlesarar eiga ekki að tala til þín heldur tala við þig sem nemanda. Það á bæði við í hefðbundinni kennslustofu og í netvæddri kennslu. Gervigreindin er síðan nýjasta umbreytingin í menntunargeiranum sem kallar á heilmikla endurhugsun. IE skólinn hefur gefið út stefnuyfirlýsingu varðandi gervigreind sem finna má á vef skólans, www.ie.edu.
Það er á ábyrgð skóla að meta nám öðru vísi og endurskoða námsmat í ljósi áhrifa gervigreindarinnar á það hvernig nemendur læra og hvaða tæki eða tól þeir nýta sér við námið. Lykilatriði hlýtur að vera að kenna nemendum að nota tæknina en ekki svindla með henni. Ábyrgð skólanna er að vera sá aðili sem stuðlar að því að umbreytingarkraftur tækninýjunganna verði jákvæður. Tilgangur skóla er alltaf að ýta undir jákvæðar breytingar og framþróun sem tækniþróunin og gervigreindin getur vel orðið. Það er líka hlutverk skóla að sjá til þess að nemendur læri að nota tæknina en með því að hunsa þá þróun sem nú á sér stað þá er hætta á að skólar verði til þess að tækninýjungarnar geti orðið til ills en ekki góðs.