Til baka

Grein

Hnattrænar flekahreyfingar

Kringum samningaborðið og það sem er á matseðlinum

Í ár fagnar fólk í Evrópu því að áttatíu ár eru liðin frá lokum heimsstyrjaldar tvö. Í ágúst minnumst við þess að áttatíu ár eru síðan Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjum á tvær borgir í Japan. Í flekaskilahreyfingum í pólitíkinni og heimshagkerfinu núna er nauðsynlegt að horfa yfir þessa áratugi. Við að minnast sögulegra staðreynda birtist hvernig margt gerðist á árinu 1945 og að endalok seinna stríðs voru alls ekki afmarkaður atburður eða ákveðinn tímapunktur.

Þannig var sjálfstæðisyfirlýsing Austurríkis í lok apríl það ár mikill vendipunktur en þó var daginn eftir fjöldi svokallaðs andspyrnufólks þar sent í gasklefa útrýmingarbúðanna í Mauthausen. Eftir það, sömu maí-viku og Hitler framdi sjálfsmorð í Berlín þá drápu stormsveitahermenn hans 228 ungverska gyðinga í smábæ í Austurríki.

Lærdómar sögunnar

Hverfum lengra aftur, til München árið 1938, þegar að Mussolini, Daladier, Chamberlain og Hitler gerðu með sér samkomulag um skiptingu Tékkóslóvakíu, án aðkomu fulltrúa landsins. Þessi fundur er þekkt dæmi um mistök þess að veita ekki einræðisherrum mótspyrnu. Gideon Rachman bendir á í Financial Times að líklegt sé, ef þú situr ekki við samningaborðið, að þú sért þá á matseðlinum.

Merkileg grein sagnfræðingsins Timothy W. Ryback í tímaritinu Atlantic í júlí fer yfir sögu þess þegar að Hitler skipti um seðlabankastjóra í upphafi ferils síns sem kanslari árið 1933. En nokkrum klukkustundum eftir að Hitler tók við embætti í lok janúar 1933 var Hans Luther seðlabankastjóri mættur á skrifstofu hans. Fyrsta rimma þeirra snerist um fánaborða með hakakrossinum sem stormsveitir Hitlers höfðu hengt á bankann. Luther reyndi að verja lögbundið sjálfstæði stofnunarinnar en Hitler sagðist vera að gera byltingu. Luther sagðist ekki vera þátttakandi í henni. Stjórn bankans var þá skipuð hlutlausum fulltrúum, sumum erlendum. Næstu vikurnar hittust þeir ekki, en Hitler gerði Hjalmar Schacht, forvera Luthers í seðlabankanum, að sínum helsta efnahagsráðgjafa. Í þingkosningum í upphafi mars 1933 unnu þjóðernissósíalistar og samþykktu þá endurvopnunaráætlun Hitlers. Luther vildi ekki fjármagna vopnavæðinguna innan úr seðlabankanum nema að mjög takmörkuðu leyti en Schacht var tilbúin til að gera það og var þar með orðinn seðlabankastjóri, samdægurs.

Eftir þessa stuttu yfirferð um nokkra viðburði á árunum 1933-1945 þá skulum við nú hverfa aftur til dagsins í dag.

Trunta nútímans

Nútíminn virðist í mikilli upplausn nú þegar að heimurinn gengur í gegnum umbreytingaferli þar sem að sameiginlegar reglur heimsviðskiptanna eru hættar að virka og alþjóðasamningar eru ekki virtir lengur.

Hið pólitíska kerfi Evrópu og Bandaríkjanna er nú um stundir í óstöðugu, hvarfakenndu og rokkenndu fljótandi ástandi, þar sem gamlir virðulegir flokkar með langa og glæsta sögu hafa leystst upp í hrærigraut innri deilna. Á meðan geta lýðskrumarar mótað hinar stefnumarkandi leiðir til framtíðar, eins og kemur fram í grein í sumarblaði Foreign Policy. Þetta á jafnt við um breska íhaldsflokkinn og repúblikanaflokkinn bandaríska og hugsanlega aðra flokka enn nær – sem mörgum hefur löngum þótt vænt um. Veik og óljós miðja einkennir stjórnmálaástand margra nágrannalanda okkar þar sem óskýrt er hvaða hugmyndir eða baráttumál tilheyra hægrinu og vinstrinu.

Vika í pólitík

Nú í vikunni skipaði Trump einn sinn helsta efnahagsráðgjafa, Stephen Miran í stjórn seðlabankans bandaríska. En það mun þó líklegast ekki verða hann sem tekur við stjórnartaumunum af Jerome Powell, sem vænst er að muni sitja út skipunartíma sinn fram á næsta ár. Þess í stað, eins og John Authers bendir á í Bloomberg í vikunni, þá er Miran ætlað að hrista upp í stjórnkerfinu í seðlabankanum. Miran er hugmyndasmiður hinnar trumpísku tollastefnu og höfundur handbókarinnar sem kennd er við Mar-a-Lago sem liggur til grundvallar grautsins sem nú mallar í viðskiptakerfi heimsins.

Í þessari viku náðist líka nýtt samkomulag við Kínverja um að fresta tollunum sem leggja átti á þeirra vörur í Bandaríkjunum um aðra 90 daga. Nýjasta grein mín í Heimildinni rétt fyrir síðustu mánaðamót fjallaði um tolla Trumps, skrifuð áður en samkomulagið náðist við Evrópu um nýja tolla. Trump var sigri hrósandi með þá niðurstöðu og greinendur nokkuð samhljóða um að hún hafi verið mun hagstæðari bandarísku hliðinni. Nú þegar frá líður virðist líklegasta ástæðan fyrir því að Evrópa gaf svo mikið eftir í tollasamningum við Bandaríkin vera sú að það hafi verið nauðsynlegt til að fá þaðan áframhaldandi stuðning við varnir Úkraínu.

Það hvað kemur út úr samtali Pútíns og Trumps, verði af því nú í lok vikunnar í Alaska, getur bæði sett þann stuðning í nýtt uppnám og haft afgerandi áhrif á heimssöguna. Eða það samtal gæti líka engu breytt.

Flekahreyfingarnar fela í sér ólíka möguleika – líkt og í jarðsögunni. Á flekamótum þar sem tveir flekar mætast getur annar flekinn farið undir hinn, eða þeir mætast og krumpast upp í fjallgarð. Ef við stöndum hinsvegar á flekaskilum, sem færast í sundur, þá verðum við að búast við eldgosum og jarðhræringum.

Við sem smáþjóð, vön þess háttar gliðnun og hræringum, en áhugalítil um að setjast við samningaborðið í Brussel eigum á hættu að vera gerð að litlum millirétti á matseðli fyrir samningaborð annarra en Evrópusambandsins. Landa sem stjórnað er af gömlum körlum með stórveldisdrauma og sem brjóta alþjóðasamninga jafn oft og þeim þykir henta fyrir eigin hag en sæta engu eftirliti eða ábyrgð hvað það varðar.

Næsta grein