Samkvæmt nýlegu mati Samtaka iðnaðarins (SI) og Félags ráðgjafarverkfræðinga (FRV) er uppsöfnuð skuld í innviðakerfinu metin á 680 milljarða króna. Hafði skuldin aukist um 260 milljarða frá því fjórum árum áður. Á skýringarmynd í umfjöllun Viðskiptablaðsins má grafast fyrir um eðli þeirra innviða sem hér er vísað til; um er að ræða flugvelli og lendingarstaði, hafnir, þjóðvegi, sveitarfélagavegi, fráveitur, hitaveitur, vatnsveitur, framleiðslu- og flutningskerfi raforku, fasteignir í eigu ríkisins, fasteignir í eigu sveitarfélaga og úrgangsinnviði.
Þessi mikla innviðaskuld er í takt við almenna þróun í nágrannalöndunum en um nokkurt skeið hafa hagfræðingar varað við því að innviðakerfi margra vestrænna velferðarríkja fylgi ekki vexti hagkerfis þeirra. Gjarnan er rætt um innviðakreppur í þessu samhengi og á síðasta ári sló New Statesman upp þeirri fyrirsögn að Bretaveldi væri að „molna í sundur“ — Crumbling Britain.
Angela Dimitrakaki, prófessor í listfræði við Edinborgarháskóla, greip árið 2016 til hugtaksins nýja Nýja Evrópa til þess að lýsa bágri stöðu velferðarríkja álfunnar í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar árið 2008.