Helsti útflutningur íslenska þjóðarbúsins er ekki lengur fiskur heldur ferðaþjónusta. Það felur í sér mikla umbyltingu að mestar útflutningstekjur komi frá þjónustu- en ekki vöruútflutningi.
Ferðaþjónustan byggist á einstæðri náttúru, menningu og fegurð landsins okkar í stað auðlinda hafsins. Ofan við sjómenn og fiskvinnslufólk sem breyta lífmassa úr sjó í útflutningsvöru tróna nú hæst leiðsögumenn og ræstingafólkið sem skiptir um rúmföt á hótelunum og ryksugar herbergin.
Stærðarhagkvæmni á ekki endilega alveg eins mikið við þjónustu- eins og vöruútflutning. Þar af leiðandi hefur mikið vinnuafl, það er fólk, fluttst til landsins fyrir hina nýju stærstu útflutningsgrein.
Ef læra má af sögunni ættu Íslendingar nú að ná heimsforystu í þróun róbóta til að skipta um á rúmum, en það hefur hingað til reynst tæknilega erfitt verkefni á meðan að ryksuguróbótar ryðja sér nú mjög til rúms – að minnsta kosti inni á betri heimilum landsins. Fyrst við gátum með hugviti og nýsköpun búið til heimsins bestu flökunarvélar og rækjuvinnsluvélar þá hljótum við að nýta nú hugvitið til nýsköpunar í ferðaþjónustu, til þess að erfiðustu störfin geti verið tekin yfir af tækninni.
Á meðan að rúmfataróbótarnir verða þróaðir einhverstaðar á frumkvöðlasviðinu mitt á milli Össurar og Marels þá verðum við að hafa vinnuafl, sem er fólk, til þess að vinna verkin sem þarf fyrir verðmætasköpun útflutningstekna ferðaþjónustunnar. Séu laun þess vinnuafls of lág minnkar hvatinn til nýsköpunarinnar. Færa má rök fyrir því að hærri launakostnaður vegna ræstinga styrki þannig hvatann til tækniþróunar, við að gera þá erfiðisvinnu léttari og fljótlegri, líkt og okkur tókst í sjávarútvegi.
Það getur varla talist góð efnahags- og atvinnustefna að hafa útigangsfólk að störfum við að þrífa hótelin eða að láta fólkið sem skapar verðmætin í ferðaþjónustunni með því að skipta um rúmföt missa heimilin sín vegna ófyrirsjáanlegs og stöðugt hækkandi kostnaðar við húsnæði.