Til baka

Leiðari

Samhengi í hagstjórn – stefnur, líkön og árangur

Hér er stuttlega brugðist við greinum Gylfa Zoega og meðhöfunda hans, Axels Hall annars vegar og Más Wolfgang Mixa hins vegar.

forsidur

Húsnæðismál eru eitt mikilvægasta efnahagsmálið nú um stundir. Það er húsnæðiskrísa sem skapar stæstan hluta verðbólgunnar þrátt fyrir breytta útreikningsaðferð. Í síðustu viku fjölluðum við í haustþremablaði Vísbendingar um marga mismunandi þætti krísuástandsins. Kjarabætur brenna upp með auknum húsnæðiskostnaði hjá þeim sem skulda eða leigja.

Séreignasparnaður og notkun hans er eitt hagstjórnartækið sem hjálpað getur við lausn hluta vandans í húsnæðismálum. Á það bentu Már Wolfgang Mixa og Gylfi Zoega með grein hér í Vísbendingu í sumarlok. Nánari útfærslu er haldið áfram að þróa í annarri grein Gylfa Zoega um efnið nú ásamt meðhöfundinum Axel Hall hér framar í blaði vikunnar. Áður hefur Ásgeir Daníelsson fjallað um þátttöku í viðbótar- eða séreignalífeyrissparnaði í Vísbendingargrein fyrir rúmu ári.

Þingmenn sem starfa nú í fjárlaganefnd segjast vinna að lausn sem feli í sér áframhald á nýtingu séreignasparnaði til niðurgreiðslu húsnæðislána, en fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp geri ráð fyrir að úrræðinu ljúki nú um áramótin. Það sem greinar Gylfa Zoega og meðhöfunda hans gera ráð fyrir er að úrræðið nýtist tekjulægstu hópunum einnig. Sem er fallegt í líkönum, en eins og komið hefur fram í úttektum Vörðu rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins og umfjöllunum í Heimildinni nú í sumar og haust, þá er í raunveruleikanum önnur mynd sem birtist en í líkönum. Erfitt að sjá hvernig heimilisbókhald sem þolir ekki óvænt einskiptis útgjöld uppá 80 þkr. eigi að geta aukið sparnað sinn og niðurgreiðslu húsnæðislána um 250 þkr. úr 500 þkr. í 750 þkr. jafnvel þó því fylgi hvatar í formi skattalegs hagræðis.

Ekki er nokkur vafi á að hvatar til sparnaðar og sérstaklega þeir sem nýtast til að lækka vaxtabyrði eru gagnlegt hagstjórnartæki. Stóra samhengi vandans á húsnæðismarkaði má þó ekki gleymast. Bútasaumur er aldrei góð hagstjórnaraðferð en bútur sem tekinn er úr bútasaumsteppi getur skapað óheppilegt gat.

Ekki er heldur gott að hleypa af stað kosningaloforðum um skyndilausnir á húsnæðismarkaði nú í nóvember. Það var reynt fyrir tæpum tveimur áratugum og mun það taka næsta áratug eða tvo að greiða kostnaðinn af gjaldþroti ÍL-sjóðs sem af hlaust – eins og kom fram í leiðara húsnæðisblaðs Vísbendingar í síðustu viku.

Næsta grein