Samskipti aðila vinnumarkaðarins hér á landi byggir á margræðishyggjunni (e. pluralism) en sú nálgun gengur m.a. út á lögmæti átaka og ágreinings. Í samskiptum aðila er eðlilegt að ágreiningur skapist en mikilvægt er að koma böndum á þennan ágreining og það er gert með stofnanabindingu átaka (e. institutionalization of conflict) þar sem sérstök löggjöf, vinnulöggjöf myndar sérstakan ramma utan um samskipti aðila. Þessi rammi ákvarðar leikreglur aðila vinnumarkaðarins. Einstaklingar hafi rétt til að vera í stéttarfélögum og þau eru lögmæltur hagsmunagæsluaðili, samningsrétturinn hvílir hjá félagsmanninum sjálfum en stéttarfélög gera kjarasamninga í umboði félagsmanna sinna og það eru félagsmenn sem samþykkja eða fella kjarasamninga í atkvæðagreiðslu. Réttur til að efna til vinnustöðvunar, verkfalls eða verkbanns er tryggður og sáttaumleitanir eru í föstum skorðum þar sem embætti Ríkissáttasemjara gegnir lykilhlutverki.
Lagagrunnur
Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 (vinnulöggjöfin), var lögtekin árið 1938. Helsta markmið vinnulöggjafarinnar er að tryggja vinnufrið í landinu og þau eiga að tryggja að vegna árekstra sem kunna að skapast á milli aðila vinnumarkaðarins hljótist sem minnst tjón fyrir atvinnulífið í landinu. Vinnulöggjöfin skapar því ramma fyrir samskipta- og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði. Frá því að vinnulöggjöfin tók gildi hefur íslenskur vinnumarkaður breyst mikið. Á hinum opinbera vinnumarkaði gilda lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Að stofni til eru það þessi tvö lög sem móta samskipti á íslenskum vinnumarkaði, vinnulöggjöfin mótar aðallega samskipti á hinum almenna vinnumarkaði og lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna móta samskiptareglur á hinum opinbera vinnumarkaði. Nokkur munur er á þessum tveimur lögum en …