
Komandi vetur gæti reynst mörgum fjölskyldum erfiður. Ekki er ólíklegt að óánægja valdi deilum í stjórnmálum og á milli hagsmunasamtaka vinnuveitenda og launafólks. Orsökina má m.a. finna í verðbólgu og viðbrögðum hagstjórnar við henni, einkum í háum vöxtum Seðlabankans sem nú eru 9,25%, um 4-5% hærri en í nálægum löndum.
Stjórnvöld peningamála og ríkisfjármála hafa hvor kennt öðrum um að verðbólga hefur reynst þrálátari hér á landi en í nálægum ríkjum og vextir hærri. Seðlabankinn er gagnrýndur fyrir að hafa lækkað vexti of mikið á farsóttartímum og ríkissjórnin fyrir að hafa ekki nægan afgang á rekstri ríkissjóðs. Á meðan eru vextir Seðlabanka mjög háir.
Nokkur grundvallaratriði
Málið snýst einkum um það hver eigi að greiða fyrir lækkun raunvirðis skulda sem stafar af verðbólgu. Nafnvextir i eru jafnir summu verðbólgu π og raunvaxta r
i=r+π
og hækkun þeirra undanfarin misseri stafar bæði af hækkun verðbólgu og einnig af hækkun raunvaxta. Bankar og lífeyrissjóðir hefðu hækkað nafnvexti á óverðtryggðum lánum jafnvel þótt Seðlabankinn hefði ekki hækkað vexti sína. Hækkun vaxta Seðlabankans hefur hins vegar einnig hækkað raunvexti. Þannig má segja að hækkun vaxta á óverðtryggðum lánum úr 4,5% árið 2021 í 9,5% um þessar mundir stafi bæði af hækkun verðbólgu og peningastefnu Seðlabankans sem beitt er til að ná tökum á henni.
Þeir sem tóku óverðtryggð lán árið 2021 á 4,5% vöxtum hafa notið þess að raunvirði lána þeirra hefur lækkað ár frá ári á kostnað lánveitenda sem eru þá sparifjáreigendur í viðskiptabönkum og launþegar sem greiða í lífeyrissjóði. Meðaltal mánaðarverðbólgu á ársgrundvelli var 4,7% árið 2021, 7,6% árið 2022, 8,8% árið 2023 og 6,5% það sem af er ári 2024. Sá sem tók lán á föstum vöxtum 4,5% árið 2021 hefur því hagnast af því að hafa svo til núll raunvexti 2021 og neikvæða raunvexti árin 2022-2024. Óverðtryggða lánið frá 2021 hefur þá rýrnað um tæplega 10% á lánstímanum á kostnað lánveitanda. En nú þegar vöxtum er breytt árið 2024 þá hækka vextir í 9,5% hjá lífeyrissjóðnum og verða þá raunvextir jákvæðir um 3,2% (9,5-6,3%) miðað við núverandi verðbólgu og svo enn hærri næstu þrjú árin ef verðbólga fer lækkandi (lánþegi getur þó endurfjármagnað með því að taka nýtt lán á lægri vöxtum á lánstímanum). Breytingin felst í því að lánveitendur vilja ekki lengur greiða niður raunvirði skulda lánþega í gegnum verðbólgu og vilja einnig fá jákvæða raunvexti.
Lág raunávöxtun á verðtryggðum sparireikningum, sem stafar af því að verðbólga helst há og verðbæturnar eru skattlagðar, er svo ein orsök hás fasteignaverðs sem stafar af því að sparifjáreigendur kaupa fasteign í stað þess að hafa peninga í banka. Í hagfræði eru þetta kölluð „Mundell áhrifin“ eftir nóbelsverðlaunahagfræðingnum Robert Mundell. Aðflutningur erlends vinnuafls verður svo til þess að hækka húsnæðisverð enn meira.
Unga kynslóðin klemmist á milli með bæði háa vexti á húsnæðislánum og hátt húsnæðisverð. Er furða þótt heyra megi kurr meðal þjóðarinnar.
Hagstjórn, lífeyrissjóðir og fjármálastöðugleiki
Seðlabankinn hefur bent á að hin mikla aukning greiðslubyrði lánþega ógni ekki fjármálastöðugleika vegna þess að lánþegar geti breytt lánum sínum í verðtryggð lán sem fela í sér að verðbólgunni er bætt við höfuðstólinn og eykst þá greiðslubyrði lítið í hverjum mánuði þótt lánið verði mun dýrara þegar upp er staðið. En vandinn sem hagstjórn stendur þá frammi fyrir er sá að flótti heimila í verðtryggð lán felur í sér ráðstöfunartekjur heimila lækka minna en ella og hið sama á við um einkaneyslu og heildareftirspurn, sem að mati Seðlabankans er ein rót verðbólguvandans. Það er mikilvægt að finna lausnir sem bæði stuðla að minni eftirspurn og verðstöðugleika og valda ekki mikilli óánægju og ólgu í samfélaginu. Beiting séreignarsparnaðar gæti nýst í þessum tilgangi.
Á Íslandi er öflugt lífeyrissjóðakerfi og hluti af því felst í frjálsum framlögum í séreignarsjóði sem eru hluti af sparnaði þjóðarinnar. Um 60% launþega hafa greitt í séreign á síðustu árum. Með því að greiða 2-4% af launatekjum í séreignarsjóð njóta launþegar mótframlags launagreiðanda upp á 2%. Það er því töluverður hagur af því að spara með því að leggja í séreignarsjóð umfram annan frjálsan sparnað. Skattheimta frestast þangað til launþegi innleysir séreign sína sem hann getur gert frá og með 60 ára aldri.
Á undanförnum misserum hefur verið leyft að beina framlögum sem hefðu annars safnast í séreign í niðurgreiðslu á húsnæðislánum án …









