Til baka

Grein

Sjálfbær uppbygging ferðamannastaða

Hönnun skiptir miklu fyrir uppbyggingu ferðamála á Íslandi. Í þessari grein sumarblaðsins frá Hönnunarmiðstöð eru birt nokkur myndræn dæmi og vísað í tvo yfirgripsmikla vefi.

1_03_Brimketill_JuliaBrekkan.jpg
Mynd: Júlía Brekkan
1_05_Langisjor_ArkísArchitects
Langisjór, þjónustubygging, Vatnajökulsþjóðgarður. Arkís arkitektar.
Mynd: Júlía Brekkan

Góðar leiðir er bræðingur verkefna á sviði hönnunar innviða ferðamannastaða sem byggir á víðtæku samtali milli stofnana, sveitarfélaga, fagfólks og ferðaþjónustuaðila.

Verkefnið felur í sér kortlagningu, stefnumótun og þróun hönnunarferla við uppbyggingu, innleiðingu og viðhald innviða, með það að markmiði að vernda viðkvæma náttúru en um leið greiða aðgengi gesta að sterkri náttúrupplifun.

Fegurð, virðing og öryggi eru leiðarstef Góðra leiða sem Miðstöð hönnunar og arkitektúrs vann í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og hófst árið 2018.

1_06_Fjadrargljufur_JuliaBrekkan.jpg
Fjaðrárgljúfur, útsýnispallur. Arkís, arkitektar.
Mynd: Júlía Brekkan
1_07_Saxholl_LandslagArchitects
Saxhóll, Snæfellsjökulsþjóðgarður. Landslag.
Mynd: Júlía Brekkan

Með þróun Góðra leiða fléttar Miðstöð hönnunar og arkitektúrs saman ólíka þræði opinberra verkefna á sviði sjálfbærrar ferðaþjónustu. Annars vegar í gegnum verkefnið Hönnun í norrænni náttúru sem er verkefni sem var hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, Gagnvegir góðir, og unnið með styrk þaðan. Hins vegar verkefni unnin fyrir samstarfshóp um aukna fagþekkingu, bætta hönnun og samræmingu merkinga á ferðamannastöðum sem tengjast Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum. Úr því kom meðal annars samræmda merkingarkerfið Vegrún, merk­inga- og leiða­kerfi sem er opið öllum til notk­unar og sérstak­lega hannað til að falla vel að náttúru Íslands. Hönnunarstofan Kolofon hannaði Vegrúnu í samstarfi við valinn hóp sérfræðinga en kerfið hefur verið tekið í notkun víðs vegar um landið. Á síðunni godarleidir.is má kynna sér öll þessi verkefni og fleiri sem tengjast sjálfbærri uppbyggingu ferðamannastaða.

Verkefnið Hönnun í norrænni náttúru var leitt af Önnu Maríu Bogadóttur arkitekt fyrir hönd Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, í samstarfi við norrænar systurstofnanir og sérfræðinga. Í því er leitað svara við brýnum spurningum; Er hægt að hanna samband okkar við náttúruna? Hvernig ýtir hönnun undir og styrkir tengsl okkar við náttúruna? Með völdum verkefnum er varpað ljósi á fjölbreyttar hönnunarlausnir sem ýta undir verndun náttúrunnar og hvetja til ábyrgrar umgengni við hana. Verkefnin voru valin með því að rýna söguna, staðbundnar lausnir og hefðir í hönnun og reynt að sjá fyrir möguleika framtíðarinnar sem liggja í nýrri tækni, samstarfi og nýsköpun.

Á vefsíðunni designinnature.is má finna innblástur og kortlagningu í myndum, kortum og texta á dæmum frá öllum Norðurlöndunum um góða uppbyggingu ferðamannastaða og friðlýstra svæða.

1_03_Svarfaðardalur_IngólfurEldjárn
Svarfaðardalur, Dalvíkurbyggð. Hjörleifur Hjartarson, Hjörleifur Stefánsson, Baldvin Einarsson og Kristján Eldjárn Hjartarson.
Mynd: Júlía Brekkan
1_04_Hafnarholmi_JuliaBrekkan
Hafnarhólmi, útsýnipallur. Anderson & Sigurdsson arkitektar fyrir tilstuðlan Magnúsar Þorsteinssonar.
Mynd: Júlía Brekkan

Næsta grein