
Síðasta áratug hefur hlutfall innflytjenda hvergi vaxið hraðar meðal OECD-ríkja en á Íslandi. Árið 2013 voru 8% íbúa landsins innflytjendur, en sú tala var orðin hærri en 18% árið 2023. Þessi öra fjölgun á sér fáar hliðstæður og með henni vakna upp ýmsar spurningar um hvernig staðið er að því að innflytjendur geti fótað sig í íslensku samfélagi og hvernig samfélagið tekst á við það verkefni. Vegna þessa fól félags- og vinnumarkaðsráðuneytið OECD að gera úttekt á inngildingu innflytjenda að íslensku samfélagi, í samanburði við önnur OECD-ríki. Verða helstu niðurstöður úttektarinnar reifaðar í þessari grein.
Geta innflytjenda til að feta sig í nýju samfélagi er mismikil eftir hópum og hefur samsetning þeirra sem til landsins koma áhrif á hvernig skal staðið að stuðningi við inngildingu. Innflytjendur á Íslandi eru einsleitur hópur í alþjóðlegum samanburði. Fjórir af hverjum fimm erlendum ríkisborgurum koma frá EES-svæðinu, en það er hæsta hlutfall innan OECD-Evrópu. Hlutfall innflytjenda utan EES hefur þó hækkað á undanförnum árum, þá helst með mikilli fjölgun flóttafólks og hælisleitenda síðan 2022, þó sú fjölgun hafi hægt á sér síðan þá. Stjórnvöld hafa svarað þjónustuþörf þessa hóps með verkefninu samræmd móttaka flóttafólks, sem 14 sveitarfélög hafa tekið þátt í. Hins vegar má segja að inngildingarstefna Íslands hafi ekki nægilega tekið mið af fjölda EES-ríkisborgara ef hún er borin saman við önnur ríki OECD.
Þegar horft er til fjárfestinga í inngildingu innflytjenda er vert að horfa til þess annars vegar hversu mikinn stuðning viðkomandi hópur þarf; og hins vegar hversu líklegur viðkomandi hópur er til að festa rætur á Íslandi. Til dæmis þarf flóttafólk almennt á meiri þjónustu að halda en þau sem koma vegna vinnu, og eru einnig líklegri til að festa rætur í samfélaginu sem tekur á móti þeim. Má segja að þessar tvær forsendur útskýri hvers vegna hlutfallsleg útgjöld til stuðnings flóttafólks séu hærri en til annarra innflytjendahópa.
Það verður þó að teljast merkilegt að hátt hlutfall innflytjenda frá EES svæðinu sem koma til Íslands festa rætur hér á landi. Gögn um virkni einstaklinga í Þjóðskrá leiða í ljós að rúmlega helmingur innflytjenda frá EES svæðinu hafa ennþá búsetu í landinu eftir fimm ára dvöl. Er þetta hærra hlutfall en tíðkast í mörgum löndum vestur Evrópu, þar á meðal Hollandi, Belgíu og Austurríki, og er svipað hátt og í Noregi og Svíþjóð. Hingað til hafa þessar þjóðir þó lagt talsvert meiri áherslu á inngildingu innflytjenda en Ísland hefur gert.
Um fyrri punktinn, að meta hvaða hópar þurfa á stuðningi að halda, má horfa til margvíslegra mælinga á inngildingu innflytjenda. Þar ber helst að nefna i) hvernig innflytjendum gengur að fóta sig á vinnumarkaði, ii) hvernig þeim tekst að nýta menntun sína og hæfni, og iii) hvernig börnum þeirra gengur í skóla samanborið við innfædda nemendur.
i) Innflytjendur á íslenskum vinnumarkaði
Yfirleitt er horft til þriggja meginbreytna þegar inngilding innflytjenda á vinnumarkaði er metin, en það er atvinnuhlutfall, atvinnuþátttaka, og atvinnuleysi. Atvinnuhlutfall innflytjenda á Íslandi er það hæsta meðal OECD-ríkja, en 83% innflytjenda á vinnualdri eru í starfi, þó eilítið lægra en hlutfall innfæddra. Atvinnuþátttaka er sömuleiðis mjög há (89%) og er raunar hærri en þátttaka innfæddra. Þetta gildir bæði um þátttöku innflytjenda frá EES og utan þess, sem er óvenjulegt að því leyti að í öðrum löndum er seinni hópurinn yfirleitt heldur óvirkur á vinnumarkaði. Verða þetta að teljast góðar niðurstöður í alþjóðlegum samanburði.
Hvað atvinnuleysi varðar er staðan þó að versna. Fyrir áratugi síðan töldu innflytjendur um 15% af einstaklingum á atvinnuleysisskrá og tæp 10% af heildarfjölda í landinu. Nú telja þeir yfir helming þeirra en tæp 20% af heildarfjölda. Þessi hraða aukning verður að teljast áhyggjuefni og spurningar vakna hvort úrræði sem standa atvinnulausum til boða séu að taka nægilega mið af þessum stóra hópi sem þá skipa. Það úrræði sem sýnt hefur verið fram á að virki sérstaklega vel til að koma innflytjendum úr atvinnuleysi eru launa- og ráðningarstyrkir, en dæmi um slíkt er hlutabótaleiðin sem stjórnvöld buðu upp á í COVID-19 faraldrinum.
ii) Menntun og hæfni innflytjenda á Íslandi
Innflytjendur eru með eilítið lægra menntunarstig en innfæddir á Íslandi, en 30% þeirra eru háskólamenntaðir samanborið við 40% innfæddra. Menntunarstig innflytjenda á Íslandi er þó hærra en gengur og gerist annars staðar í Evrópu. Hins vegar eru hlutfallslega margir innflytjendur á Íslandi of hæfir fyrir störfin sem þeir sinna. Hlutfall ofhæfni meðal innflytjenda á Íslandi – þ.e.a.s. hlutfall háskólamenntaðra sem eru í starfi sem krefst ekki slíkrar menntunar – er 35%, samanborið við 10% hjá innfæddum. …








