Nokkrum stofnunum er ætlað að vera sjálfstæðar til að veita stjórnvöldum aðhald, auk fjölmiðla. Ríkisendurskoðun og fjármálaráð hafa eftirlitshlutverk með fjárreiðum ríkisins og stjórnsýslu annars vegar og stefnumörkun og áætlanagerð varðandi opinber fjármál hins vegar. Þriðja embættið sem heyrir ekki undir stjórnarráðið heldur Alþingi er umboðsmaður þess sem hefur sjálfstæðu eftirlitshlutverki að gegna gagnvart þinginu. Hann hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir vaxandi veikleika í stjórnun og stjórnsýslu. Í blaði vikunnar eru birtir hlutar úr nýjustu skýrslu umboðsmanns til Alþingis. Seðlabanka er einnig ætlað sjálfstæði, frá pólitískum afskiptum af framkvæmd peningastefnunnar. Í forsíðugrein vikunnar birtist ákveðin gagnrýni á tiltekin orð seðlabankastjóra. Því orð skipta máli.
Seðlabankastjóri Evrópu, Christine Lagarde, hélt fyrirlestur kenndan við Michel Camdessus um seðlabanka hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og átti svo samtal við stjórnanda sjóðsins, Kristalinu Georgievu. Mæla má með öllum 80 mínútunum hér en einnig var skemmtilegt styttra viðtal við Lagarde í Daily Show dægurmálaþætti Jon Stewart í sömu viku.
Skilaboðin í erindi seðlabankastjórans voru að mikilvægt væri að dýpka greiningar á þeim breytingum sem eru að verða á samfélaginu og að útvíkka sjóndeildarhring stjórnenda seðlabanka til að taka eftir þeim breytingum og skilja hver áhrifin muni verða á stjórnun peningamála. Hlusta þarf eftir ólíkum röddum og beita þverfaglegum aðferðum af mismunandi fræðasviðum út fyrir hagfræðina, en Lagarde er lögfræðingur sjálf. Óvissan í heiminum mun halda áfram og umgjörð peningastefnunnar er þá lykilatriði. Sagan kennir að kerfisbreytingar í samfélaginu skipta máli fyrir peningamál vegna afleiddra breytinga sem verða á því hvernig miðlun peningastefnunnar fer fram.
Markmið peningastefnunnar, um verðstöðugleika, er óbreytt – hélt Lagarde fram. En framkvæma þarf stefnuna með nýjum hætti, sérstaklega vegna þess að miðlun peningastefnunnar hefur tekið breytingum. Annars mun stífni vinna á móti stöðugleikanum.