Í desember síðastliðnum hlutu þrír hagfræðingar Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir sínar um samfélagslegar stofnanir og efnahagsleg áhrif þeirra á velsæld. Tveir þeirra, Daron Acemoglu og Simon Johnson, gáfu út bókina Power and Progress: Our Thousand-Year Struggle Over Technology and Prosperity árið 2023. Bókin er sögulegt yfirlit um tækniþróun síðasta árþúsunds og efnahagsleg áhrif þeirra, góð og slæm, á almenning.
Eitt meginhugtak bókarinnar er tæknibjartsýni (e. techno-optimism), hugmyndin um að tækniframfarir muni alltaf hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Jafnvel þótt tæknin reynist ekki fullkomin í byrjun, og geti jafnvel skaðað suma, þá sé þróunarbraut tækninnar óhjákvæmileg og því óþarfi að fetta fingur út í einstaka neikvæðar afleiðingar hennar. Í gegnum söguna hefur þetta viðhorf oft orðið ofaná, einkum þegar einstaklingar með sterkan sannfæringarkraft hafa greiðan aðgang að valdamiklum einstaklingum. Í bókinni er meðal annars reifuð saga eins slíks bjartsýnismanns, en við lesturinn má greina sláandi líkindi milli hans og annars samtímamanns okkar.
Sigur í Súes og plága í Panama
Ferdinand de Lesseps (1805-1894), sem greint er frá í bókinni, var franskur erindreki sem átti glæstan feril í frönsku utanríkisþjónustunni. Um árabil bjó hann í Egyptalandi, hvar hann komst í kynni við áform Napóleons um að tengja Miðjarðarhafið við Rauðahafið í gegnum skurð í Súeseiðinu. Takmarkaður vilji var af hálfu nýlenduríkjanna að byggja slíkan skurð. Tæknilegar ástæður spiluðu einnig inn í. Í flestum skipaskurðum eru skipastigar, sem gera skipum kleift að klífa hæðir. Verkfræðingar þess tíma höfðu talið nauðsynlegt að þörf væri á stigum í Súes, sem myndi aftur á móti lengja ferðalagið …