Til baka

Aðrir sálmar

Tekjur hins opinbera

Trump og ólígarkarnir ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og majónesframleiðendum er, að því er best verður séð, öllum umhugað um að tekjur hins opinbera séu sem minnstar.

Hið opinbera þarf að afla tekna, með sköttum, einnig opinberum gjöldum og jafnvel tollum. Forsíðugrein vikunnar fjallar um mikilvægi opinberra fjármála og samspilið við peningastefnu. Þess er beðið að ný ríkisstjórn leggi fram fjármálastefnu sem þingsályktun áður en tillaga um fjármálaáætlun til næstu fimm ára liggur fyrir, eigi síðar en í lok mars.

Undanfarið hefur staðið yfir ritdeila hér á síðum Vísbendingar um auðlindagjöld í sjávarútvegi, sem eru ein tekjuöflun ríkissjóðs. Í deilunni hefur annars vegar verið tekist á um hvort að hægt sé að innheimta skatta og gjöld af auðlindarentu. Hins vegar, er tekist á um hvort hægt sé að reikna út að hærri álögur á fyrirtæki í sjávarútvegi valdi minni landsframleiðslu.

Í síðustu viku var röksemdum höfunda skýrslunnar fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi svarað hér í Öðrum sálmum. Lesi þeir stutta seinni grein Ásgeirs Daníelssonar hér í blaði vikunnar skerpist ritdeilan enn. Auk þess sem þeir hafa möguleika á að svara annarri gagnrýnisgrein Þórólfs Matthíassonar frá því í síðustu viku.

Þá má einnig benda þeim og lesendum á tvo nýlega þætti Þetta helst Ríkisútvarpsins í þessari og síðustu viku þar sem fjallað er um miklar fjárfestingar fólks í sjávarútvegi, í meðal annars majónesi – enda vinsælt meðlæti með fiski nú sem fyrr.

Trump er líka kominn aftur. Erfitt er að vita hvað gerist, á þeim 1457 dögum sem eftir eru af seinni valdatíma hans, í stærsta efnahagsveldi heims. Af innsetningarathöfninni mátti þó skýrt greina umbreytingar. Þar birtist það sem Biden kallaði hið nýja auðræði (e. oligarchy) sem sjá mátti á þeim milljarðamæringum sem voru viðstaddir. Einn þeirra kemur við sögu í grein hér í blaðinu um nýlega bók tveggja Nóbelsverðlaunhafa síðasta árs og Panamaskurðurinn einnig sem Trump gæti ákveðið að eignast líkt og Grænland. „Skringilegt bull“ kallaði Bush ræðu Trumps fyrir átta árum, en nú þykir ekkert skrítið og allt getur gerst.