Þegar litið er til efnahagsástands í Evrópu stendur Þýskaland upp úr. Þýskaland er langstærsta hagkerfi Evrópusambandsins og skiptir miklu máli í viðskiptum innan sambandsins. Þýsk fyrirtæki hafa einnig fjárfest mikið í öðrum ríkjum Evrópu, einkum í Austur-Evrópu og Þýskaland greiðir háar fjárhæðir í sameiginlega sjóði ESB. Það er því mikilvægt að vel gangi í efnahagslífi þar í landi. Þau vandamál sem stjórnvöld í Þýskalandi standa frammi fyrir eru svipuð og þau sem stjórnvöld í mörgum öðrum ríkjum ESB þurfa að leysa á næstu árum.
Þýska efnahagsundrið í sögulegu samhengi
Á myndinni hér að neðan er sýnd þróun vergrar landsframleiðslu (VLF) og einnig framleiðslu á mann í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi frá miðri nítjándu öld. Efri hluti myndarinnar sýnir VLF á mann. Þar sést að Bretland var leiðandi fram á 20. öldina en þá tóku Bandaríkin fram úr. Vegna hærri íbúafjölda varð VLF, sýnd á hægri helming myndarinnar, mun hærri í Bandaríkjunum en í nokkru öðru ríki á 20. öldinni.
Þýska efnahagsundrið varð eftir síðari heimsstyrjöld, VLF á mann óx hratt áratug eftir áratug. VLF varð hærri í Vestur-Þýskalandi en á Bretlandi á sjötta áratug síðustu aldar og Þýskaland þá leiðandi ríki í Evrópu. Á uppgangsárum Vestur-Þýskalands frá byrjun sjötta áratugarins fram til sameiningar Þýskalands þróaðist hagkerfi sem einkenndist af samráði fyrirtækja, launafólks, fjármagnsstofnana og ríkisvalds. Launafólk tók sæti í stjórnum fyrirtækja og er svo enn. Mikill hagvöxtur byggðist einkum á því að fyrirtæki tileinkuðu sér þá tækni sem fram hafði komið í Bandaríkjunum en einnig á samvinnu fjármagnseigenda og launafólks. Samráðið fólst í því að launafólk stillti launakröfum sínum í hóf og í staðinn lofuðu stjórnendur fyrirtækja að fjárfesta hagnaði innan lands. Þannig varð til jákvæð hringrás sem fólst í tækniframförum, mikilli fjárfestingu og batnandi lífskjörum en friður á vinnumarkaði tryggði hærra fjárfestingastig.
Hægir á framleiðnivexti
Í Þýskalandi, eins og í öðrum Evrópuríkjum, fór hagvöxtur smám saman lækkandi á sjöunda og áttunda áratuginum. Þetta má skýra með því að auðveldast var að tileinka sér tækni Bandaríkjanna í upphafi hagvaxtarskeiðs um 1950 þegar Bandaríkin voru langt á undan í allri tækni en eftir því sem bilið minnkaði gátu önnur lönd lært minna af forysturíkinu.
Í töflunni hér að neðan er sýndur hagvöxtur í G7 ríkjunum frá miðbiki 20. aldar. Takið eftir feitletruðu tölunum. Þetta er gullöld hagvaxtar í Evrópu. Hagvöxtur minnkaði síðan eftir 1970 í Bandaríkjunum og eftir 1980 í Evrópu. Þessi lönd höfðu þá ná að brúa bilið á milli sín og Bandaríkjanna. Við tekur tímabil lágs hagvaxtar.
Ítalía lítur verst út í töflunni en svo til enginn hagvöxtur hefur orðið þar í landi síðustu rúm tuttugu árin og framleiðni og lífskjör hafa staðnað.
Erfiðleikar í lok aldar og endurbætur á vinnumarkaði
Í lok síðustu aldar var atvinnuleysi mikið í Þýskalandi. Regluverk og bótakerfi bjó til atvinnuleysi og kostnaður við sameiningu ríkisins reyndist mikill. Fyrirtæki fluttu starfsemi sína til annarra landa þar sem launakostnaður var minni. Gerhard Schröder kanslari hafði síðan forgöngu í upphafi aldarinnar um endurbætur á vinnumarkaði sem fólust fyrst og fremst í því að gera það eftirsóknarverðara fyrir fólk að vera í vinnu en að vera atvinnulaus. Þá jókst framboð vinnuafls til muna. Upptaka evru hafði einnig jákvæð áhrif á samkeppnishæfni útflutningsgreina. Útflutningur jókst og hagkerfið dafnaði vel.
Þetta hagstjórnarlíkan hafði þó sína ókosti. Jákvæður viðskiptajöfnuður kallaði á neikvæðan fjármagnsjöfnuð, þ.e.a.s. erlendar fjárfestingar þýskra aðila. Þær fólust í fjárfestingu fyrirtækja í verksmiðjum, einkum í Austur-Evrópuríkjum en einnig í lánveitingum þýskra banka til Íslands, Írlands og Spánar og til gríska ríkisins. Lánin bjuggu til efnahagslega upsveiflu – bóluhagkerfi – í þessum ríkjum. Enn mikilvægari voru kaup þýskra banka á bandarískum fasteignavafningum sem fjármögnuðu að töluverðu leyti bandarísku fasteignabóluna sem síðan sprakk árin 2006 og 2007.
Þannig má segja að þessi mikli viðskiptaafgangur hafi hjálpað til við að búa til þann hvell sem varð á fjármálamörkuðum í lok árs 2008 og jafnframt valdið því að Ísland og önnur lönd sem fóru illa út úr fjármálakreppunni í Evrópu voru berskjölduð. Það afsakar …








