Donald Trump hefur skrifað sig í sögubækurnar með því að verða annar forseti Bandaríkjanna til að gegna embættinu á tveimur aðskildum kjörtímabilum. Hið fyrra var sannarlega afdrifaríkt fyrir margra hluta sakir. Brotthvarf Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu var vissulega skammlíft, en gæti orðið endurtekið. Spenna jókst á milli Kína og Bandaríkjanna og hún minnkaði ekki sérlega mikið á valdatíma Bidens. Trump hefur haldið því fram að Rússland hefði ekki ráðist inn í Úkraínu ef hann hefði verið forseti, og telur sig geta bundið enda á stríðið. Hann státar líka af svokölluðum Abrahams-samningum, sem áttu að undirbyggja frið og farsæld í Mið-Austurlöndum, en kunna að hafa kynt undir því eldfima ástandi sem nú ríkir þar.
Trump hefur tilnefnt Marco Rubio sem utanríkisráðherra. Rubio hefur látið til sín taka í utanríkismálum og er talinn vera svokallaður „haukur“ í þeim efnum, sérstaklega hvað varðar Kína, Kúbu (þangað sem hann á ættir að rekja), Íran og Venesúela. Trump hefur sterka tilhneigingu til einangrunarhyggju sem Rubio endurspeglar að miklu leyti. En þessi einangrunarhyggja nær ekki til Rómönsku Ameríku, en þar hefur Trump viljað sporna gegn ásókn annarra ríkja. Hann sækir styrk í svokallaða Monroe-kennisetningu sem Bandaríkjaforsetar seinni tíma hafa frekar viljað fjarlægjast, en markmið hennar er að takmarka afskipti annarra ríkja í Vesturheimi. Um leið er kennisetningin notuð til að réttlæta afskipti Bandaríkjanna á svæðinu, bæði í hernaðarlegu og diplómatísku samhengi. Þegar kennisetningin kom fram sneri hún fyrst og fremst að afskiptum Evrópuríkja, en nú …