Donald Trump hefur skrifað sig í sögubækurnar með því að verða annar forseti Bandaríkjanna til að gegna embættinu á tveimur aðskildum kjörtímabilum. Hið fyrra var sannarlega afdrifaríkt fyrir margra hluta sakir. Brotthvarf Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu var vissulega skammlíft, en gæti orðið endurtekið. Spenna jókst á milli Kína og Bandaríkjanna og hún minnkaði ekki sérlega mikið á valdatíma Bidens. Trump hefur haldið því fram að Rússland hefði ekki ráðist inn í Úkraínu ef hann hefði verið forseti, og telur sig geta bundið enda á stríðið. Hann státar líka af svokölluðum Abrahams-samningum, sem áttu að undirbyggja frið og farsæld í Mið-Austurlöndum, en kunna að hafa kynt undir því eldfima ástandi sem nú ríkir þar.
Trump hefur tilnefnt Marco Rubio sem utanríkisráðherra. Rubio hefur látið til sín taka í utanríkismálum og er talinn vera svokallaður „haukur“ í þeim efnum, sérstaklega hvað varðar Kína, Kúbu (þangað sem hann á ættir að rekja), Íran og Venesúela. Trump hefur sterka tilhneigingu til einangrunarhyggju sem Rubio endurspeglar að miklu leyti. En þessi einangrunarhyggja nær ekki til Rómönsku Ameríku, en þar hefur Trump viljað sporna gegn ásókn annarra ríkja. Hann sækir styrk í svokallaða Monroe-kennisetningu sem Bandaríkjaforsetar seinni tíma hafa frekar viljað fjarlægjast, en markmið hennar er að takmarka afskipti annarra ríkja í Vesturheimi. Um leið er kennisetningin notuð til að réttlæta afskipti Bandaríkjanna á svæðinu, bæði í hernaðarlegu og diplómatísku samhengi. Þegar kennisetningin kom fram sneri hún fyrst og fremst að afskiptum Evrópuríkja, en nú vill Trump beita henni gegn Kína.
Kína og Mið-Austurlönd
Spenna milli Kína og Bandaríkjanna jókst á fyrra valdatímabili Trumps. Ekki er líklegt að dragi úr henni á því næsta. Þverpólitísk nefnd lagði nýlega fram tillögur sem eiga að tryggja Bandaríkjunum forskot í samkeppni við Kína og þær fela m.a. í sér að afturkalla fríðindi á grundvelli tvíhliða viðskiptasamninga, takmarka innflutning á tilteknum tæknibúnaði, og setja á fót eins konar Manhattan-verkefni á sviði gervigreindar. Með þessum og ýmsum öðrum leiðum telur nefndin (US-China Economic and Security Review Commission) að hægt sé að undirbyggja sigur í átökum sem víst þykir að Xi Jinping muni efna til og stigmagna.
Trump tekur að auki við erfiðu búi frá Biden á sviði hernaðarmála varðandi ástandið í Mið-Austurlöndum. Á sínu fyrra kjörtímabili nýtti hann tengdason sinn til að venjuvæða samband Ísraels við nokkur nágrannalönd, sem hingað til hafa alltaf gert kröfu um aukinn rétti til handa Palestínu í samskiptum sínum við Ísrael. Í Abrahams-samningunum fer lítið sem ekkert fyrir því. Samningarnir áttu að skapa forsendur fyrir friði og velsæld á svæðinu, en ýmsir greinendur telja að þeir hafi í raun kynt undir ófriðarbáli. Hvort sem sú er raunin eða ekki, þá er ljóst að spenna hefur sjaldan verið meiri milli Ísraels og Íran, og ástandið á Gasa hefur aldrei verið verra. Trump hefur verið eindreginn stuðningsmaður bæði Netanjahús og Ísraelsríkis og engin ástæða er til að ætla að það breytist þótt hann hafi sagst ætla að stöðva stríðið þar. Netanjahú hefur engan vilja sýnt …








