Til baka

Aðrir sálmar

Væntingar og staðreyndir

Fyrsta tölublað ársins fjallar um væntingar og staðreyndir í ljósi nýafstaðinni kosninga hérlendis og alþjóðlega.

Nýtt ár ber með sér nýjar væntingar. Við lítum bæði um öxl og horfum fram á nýja sjónarrönd. Staðreyndin er sú að framtíðarhorfurnar hafa sjaldan verið uggvænlegri – í alþjóðlegu efnahagspólitísku samhengi – eftir eitt mesta kosningaár okkar tíma.

Í síðasta tölublaði, áramótablaði Vísbendingar, var farið yfir þær horfur og kom framtíðarsýnin einna skýrast fram í viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Síðan þá hefur ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Ingu Sæland verið mynduð sem einnig felur í sér væntingar og mikinn kvennakraft.

Einnig hefur fyrrum forsætis- og fjármála- og efnahagsráðherra síðasta rúma áratugar nú í vikunni sagt af sér sem formaður fyrrum stærsta stjórnmálaflokks landsins. Arfleifð hans mun síðar koma skýrar í ljós en vissulega markar húsnæðiskrísan, veiking tekjustofna ríkissjóðs og hin mikla verðbólga undanfarinna ára þar djúp spor.

Verðbólguvæntingar geta haft áhrif á raunverulega verðbólgu. Hérlendis virðast þau áhrif mikil og jafnvel í öfuga átt sé miðað við nágrannalöndin. Þar eru væntingar iðulega oftar til hjöðnunar en hér virðast þær viðvarandi vera bólguvaldandi. Í Evrópu er nú búist við aðeins vaxandi verðbólgu og það jafnvel álitið jákvætt.

Staðreyndirnar eiga síðan undir högg að sækja, sérstaklega undir armi alþjóðlegra stórfyrirtækja Bandaríkjanna sem mikil áhrif hafa á komandi valdaskipti þar.

Tölulegar staðreyndir sýna okkur að íbúðaskortur hefur ekki minnkað hérlendis þrátt fyrir vaxandi verðhækkanir íbúða, jafnvel vel umfram aðrar verðlagshækkanir. Þar birtist þverstæða sem ekki er svarað af þeim sem trúa einhliða á markaðslausnir. Í haustblaði Vísbendingar var fjallað um húsnæðiskrísuna og voru húsnæðismálin áberandi í kosningunum.

Blað vikunnar, sem er fyrsta blað ársins, tekur á þeim tveimur grundvallarþáttum vandans sem viðvarandi er við efnahagsstjórn á Íslandi: verðbólguvæntingum og íbúðauppbyggingu. Megi nýhafið ár færa okkur ferska vinda hugmynda og frelsis með framkvæmdum og aðgerðum til uppbyggingar samfélagsins, byggðu á staðreyndum frekar en sýndarmensku.