
Höfuðborgarsvæðið er ellefta stærsta þéttbýli Norðurlanda. Íbúar voru 239.733 nú í upphafi árs, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þeir eru 63% landsmanna. Af nýjum mannfjöldaspám Hagstofunnar fyrir allt landið má ætla að íbúar höfuðborgarsvæðisins verði um 324 þúsund árið 2040, plús mínus.
Vaxtamörk: Skýr skil þéttbýlis og dreifbýlis
Alþingi samþykkti í vor landskipulagsstefnu 2024-2038. Þar er meðal annars kveðið á um „skýr skil milli þéttbýlis og dreifbýlis“. Fram kemur að vaxtarmörk þéttbýlisstaða skuli „skilgreind með það fyrir augum að efla viðkomandi þéttbýlisstað og standa um leið vörð um landbúnaðarland og önnur verðmæt landgæði“. Ennfremur að „Skipulag byggðar stuðli að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða með þéttri, samfelldri byggð, endurskipulagningu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélags“.
Óhætt er að segja að þessi stefna sé í takt við tímann. Hún fellur vel að svæðisskipulagi og endurskoðuðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins – og þó lengra væri leitað. Vaxtamörk (e. urban growth boundaries, n. marka grensen) eiga býsna langa sögu víða um heim og er einkum ætlað tvennt: Í fyrsta lagi að vernda útivistarsvæði, vatnsverndarsvæði, náttúruminjar og í sumum tilvikum ræktunarland, við ytri mörk borga og bæja. Í öðru lagi er þeim ætlað að kom í veg fyrir of mikla dreifingu byggðarinnar því dreifingin leiðir til lélegrar landnýtingar, mikils innviðakostnaðar, sem leggst á allt samfélagið, og gerir alla þjónustu langsóttari og fábreyttari.
Gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins nefnist Höfuðborgarsvæðið 2040 og var samþykkt árið 2015. Það er sameiginleg stefna sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kjósarhrepps, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um náið samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins til ársins 2040. Höfuðborgarsvæðið er skilgreint sem eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður með sameiginlegu grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindum og náttúru.
Svæðisskipulagsnefnd, sem skipuð er fulltrúum allra sveitarfélaganna sjö, ályktaði einróma í upphafi kjörtímabilsins fyrir tveimur árum að unnið verði á grundvelli gildandi svæðisskipulags með áorðnum breytingum. Síðan segir „Ekki er að svo stöddu lagt til að ráðist verði í heildarendurskoðun svæðisskipulags á kjörtímabilinu en einstaka breytingar verða teknar til efnislegrar meðferðar þegar slík erindi berast frá aðildarsveitarfélögum.“
Ef þetta er haft í huga virkar umræða um að strax þurfi að ráðast í breytingar á svæðisskipulaginu, jafnvel taka það alveg upp, til að hægt sé byggja nægt íbúðarhúsnæði næstu árin, sérkennileg. Reyndar verður að hafa í huga að byggingarland Kópavogs og Seltjarnarness er svo gott sem þrotið. Hafnfirðingar þurfa líka að búa við það að þynningarsvæði álversins takmarkar uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og sama má segja um eldsumbrot á Reykjanesi. Samt leiðir úttekt á uppbyggingarmöguleikum í ljós að byggja má fimmtíu til sextíu þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu innan vaxtarmarka. Það ætti að nægja vel fram yfir miðja öldina. Mestir uppbyggingarmöguleikar eru í Reykjavík.
Fyrir fáeinum áratugum var stundum haft á orði að sjórinn tæki lengi við. Það virðist líka hafa verið nokkuð útbreidd skoðun að náttúran hefði óþrjótandi endurnýjunarkraft og þess vegna væri til að mynda óhætt að sækja stíft í helstu fiskistofna ár eftir ár. Svo kom svört skýrsla Hafrannsóknarstofnunar árið 1975, hrun blasti við, takmarka þurfti veiðarnar, níu árum síðar var kvótakerfinu komið á. Takmörkun aflans virðist hins vegar hafa leitt til vandaðri vinnslu, meiri gæða og stóraukinna verðmæta aflans. Hvernig ágóðinn af veiðunum, vinnslunni og sölunni dreifist er annað mál. Þetta er nefnt hér vegna þess að viðhorf til landnotkunar á höfuðborgarsvæðinu hefur frá sirka 1960 mótast af þeirri hugsun að gott byggingarland sé nánst óþrjótandi og þess vegna þurfi ekki að leggja áherslu á góða landnýtingu. Í skýringarmynd sem fylgir svæðisskipulaginu sést að á árabilinu 1985 til 2012 fjölgaði íbúum á höfuðborgarsvæðinu um 70.000 og undir þá fjölgun var lagt gríðarmikið land. Svo mikið raunar að það er augljóslega útilokað að leggja jafnmikið land undir næstu 70.000 manns. Myndin sýnir jafnframt að byggðin þynntist verulega á þessum árum.








