
Nú við árslok 2023 eru blikur á lofti í íslensku efnahagslífi. Verðbólgan hefur reynst þrálát og það ætti að vera löngu ljóst að háir stýrivextir geta aldrei einir og sér kveðið hana niður. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur dregist verulega saman í fyrsta sinn í ellefu ár og forsendur gildandi kjarasamninga eru brostnar.
Verkalýðshreyfingin er að sumu leyti komin á kunnuglegar slóðir. Ákall um einhvers konar þjóðarsátt, samhliða því byggja hús og tryggja kaupmáttinn, eru gamalkunn stef. Vissulega er mikilvægt að koma böndum á verðbólguna og húsnæðismál skipta þar einna mestu. En meðulin þurfa að vera fleiri ef markmiðið er að byggja upp gott og fjölskylduvænt samfélag þar sem almenn lífsgæði eru mikil. Þar eru velferðarmál lykilþáttur.
Mælikvarðar á styrk velferðarkerfisins
Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld óx þeirri skoðun ásmegin víða um heim að eitt af megin hlutverkum ríkisins væri að byggja upp almenna heilbrigðisþjónustu og sterkt, almennt velferðarkerfi. Þessi hugsun hefur farið halloka; hún fór illa út úr nýfrjálshyggjutímanum og niðurskurðartímanum eftir efnahagshrunið árið 2008. Þess í stað er nú litið á heilbrigðisþjónustu og velferðarmál öðru fremur sem kostnaðarliði sem þurfi að lækka. Heilbrigðis- og velferðarkerfin séu í raun uppfull af „tækifærum til hagræðingar“ og þar sem þeim sleppi þá sé nauðsynlegt að tryggja að enginn sem á krónu með gati fái þjónustu nema láta krónuna með gatinu á móti. Þessa gætir í athugasemdum á borð við „ég hef efni á að borga fyrir að fara til heimilislæknis og ætti því ekki að fá þá þjónustu ókeypis“ og „auðvitað eiga foreldrar að greiða meira fyrir leikskóladvöl barna sinna, greiðsluþátttaka þeirra hefur farið minnkandi“.
Undirliggjandi er sá áróður nýfrjálshyggjunnar að greiði fólk meira fyllist það „kostnaðarvitund“ og nýti þjónustuna með réttari hætti. Aukin gjaldheimta rati jafnframt sjálfkrafa inn í hina félagslegu innviði. Þessi röksemdafærsla er hins vegar studd óskhyggju, fremur en gögnum. Komugjöld til heimilislækna geta fækkað komum vegna kostnaðar, sem er ekki jákvætt, og þau hafa ekki áhrif á innlagnir á sjúkrahús eða umfangsmeiri heilbrigðisþjónustu.
Frá vöggu til grafar
Styrkleika velferðarkerfis má mæla í því hvernig það mætir einstaklingum og fjölskyldum á viðkvæmum tímum lífsins, eins og á fyrstu æviárunum og eftir starfslok. Á þennan mælikvarða má segja að íslenskt velferðarkerfi – sem þó hefur mikla burði í alþjóðlegu samhengi – sé ekki sérlega burðugt.
Þegar nýtt barn kemur í heiminn sæta foreldrar þeirra tekjuskerðingu sem nemur milljónum króna.
Hvort sem litið er til leikskóla eða hjúkrunarheimila þá hefur þörfin fyrir pláss verið ljós lengi. Óskhyggja stjórnmálamanna á hverjum tíma virðist vera að vandamálið leysist af sjálfu sér. Börn geti verið lengur í umsjá ættingja og aldraðir dvalið lengur heima án þjónustu. En það er ekki þannig. Birtingarmyndirnar eru örvæntingarfullir og blankir foreldrar annars vegar og hins vegar sá stóri hópur aldraðra sem liggur inni á Landspítala á hverjum degi en ætti með réttu að búa á góðu og öruggu hjúkrunarheimili. Margfeldisáhrifin ná inn á fjölda vinnustaða, leiða til aukins ójöfnuðar og birtast á bráðamóttöku Landspítala þar sem ekki er hægt að koma fólki áfram inn á legudeildir því þar liggur fólk í öllum rúmum. Áhrifanna gætir líka inni á heimilum og í fjölskyldulífi fólks, þar sem þau draga úr heilsu, jafnrétti og hamingju.
Reyndin er sú að tekjutengingar eru yfirleitt svo harkalegar að aðeins langtekjulægsta fólk samfélagsins rúmast …








