Nú við árslok 2023 eru blikur á lofti í íslensku efnahagslífi. Verðbólgan hefur reynst þrálát og það ætti að vera löngu ljóst að háir stýrivextir geta aldrei einir og sér kveðið hana niður. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur dregist verulega saman í fyrsta sinn í ellefu ár og forsendur gildandi kjarasamninga eru brostnar.
Verkalýðshreyfingin er að sumu leyti komin á kunnuglegar slóðir. Ákall um einhvers konar þjóðarsátt, samhliða því byggja hús og tryggja kaupmáttinn, eru gamalkunn stef. Vissulega er mikilvægt að koma böndum á verðbólguna og húsnæðismál skipta þar einna mestu. En meðulin þurfa að vera fleiri ef markmiðið er að byggja upp gott og fjölskylduvænt samfélag þar sem almenn lífsgæði eru mikil. Þar eru velferðarmál lykilþáttur.
Mælikvarðar á styrk velferðarkerfisins
Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld óx þeirri skoðun ásmegin víða um heim að eitt af megin hlutverkum ríkisins væri að byggja upp almenna heilbrigðisþjónustu og sterkt, almennt velferðarkerfi. Þessi hugsun hefur farið halloka; hún fór illa út úr nýfrjálshyggjutímanum og niðurskurðartímanum eftir efnahagshrunið árið 2008. Þess í stað er nú litið á heilbrigðisþjónustu og velferðarmál öðru fremur sem kostnaðarliði sem þurfi að lækka. Heilbrigðis- og velferðarkerfin séu í raun uppfull af „tækifærum til hagræðingar“ og þar sem …