Stýrivextir voru lækkaðir um 25 punkta á fundi peningastefnunefndar í október sl. og markaði það fyrstu vaxtalækkunina í fjögur ár. Í nóvember fylgdi önnur vaxtalækkun, að þessu sinni um 50 punkta. Eftir þessar breytingar standa stýrivextir Seðlabankans nú í 8,50%.
Jákvæð þróun, en enn undirliggjandi þrýstingur
Undanfarin misseri hefur dregið úr verðbólgu og hefur hjöðnunin undanfarið verið á nokkuð breiðum grunni. Við ákvörðun peningastefnunefndar í nóvember síðastliðnum mældist ársverðbólga 5,1% og verðbólga án húsnæðis 2,8%. Mælingar frá síðasta fundi nefndarinnar hafa verið í takt við væntingar og er ársverðbólgan nú komin niður í 4,8% en verðbólga án húsnæðis er óbreytt. Verðbólguhorfur næstu mánuði hafa batnað en það skýrist þó að hluta til af áhrifum einskiptisaðgerða stjórnvalda. Undirliggjandi þrýstingur í hagkerfinu hefur því ekki gefið jafnmikið eftir og virðist í fyrstu. Verðbólguvæntingar hafa jafnframt lækkað á flesta mælikvarða. Samkvæmt könnun sem Gallup framkvæmdi í nóvember og desember búast heimili nú við að verðbólga verði 4,0% eftir tvö ár og stjórnendur fyrirtækja vænta þess að hún verði þá 3,5%. Könnun meðal markaðsaðila sem birt var í nóvember leiddi einnig í ljós að verðbólguvæntingar höfðu lækkað og vænta þeir þess nú að verðbólga verði að meðaltali 3,3% á næstu fimm árum og 3,0% á næstu tíu árum.
Húsnæðisverð hefur hækkað um 10,6% á síðustu 12 mánuðum. Þó framlag húsnæðisliðarins í verðbólgunni hafi minnkað vegur hann því enn þungt. Framboð íbúða til sölu hefur aukist að undanförnu og er nú svipað og fyrir faraldur. Meðalsölutíminn hefur einnig lengst aftur. Þessi þróun gefur vísbendingar um …