Þegar Emmanuel Macron tók við embætti forseta Frakklands árið 2017 kom það fáum á óvart þegar hann tilnefndi Philippe Martin, einn helsta arkitekt efnahagsstefnu forsetans, sem formann Efnahagsráðs ríkisstjórnarinnar (Conseil d'Analyse Économique). Gegndi hann formennsku í þessu mikilvæga stefnumótandi ráði, þar sem 20 af hæfustu hagfræðingum Frakklands eiga sæti, næstu fimm árin. Þá sneri hann aftur til síns gamla skóla, Sciences Po, þar sem hann starfaði þar til hann lést í desember síðastliðnum, aðeins 57 ára gamall.
Martin hóf námsferil sinn við Sciences Po í París á níunda áratug síðustu aldar og hélt seinna til Bandaríkjanna þar sem hann lauk doktorsprófi í hagfræði frá Georgetown University í Washington-borg. Árið 2002 hlaut hann – ásamt Thomas Piketty – Prix du Meilleur Jeune Économiste verðlaunin sem veitt eru efnilegasta hagfræðingi Frakklands á ári hverju. Síðan þá hafa hagfræðingar á borð við Esther Duflo, Emmanuel Saez og Gabriel Zucman hlotið verðlaunin. Árið 2007 sneri Martin aftur til Sciences Po, þá sem prófessor. Sciences Po hefur frá stofnun menntað franska embættis- og stjórnmálamenn – þar á meðal sex af átta forsetum fimmta lýðveldisins. Skólinn byggði nám sitt í upphafi aðallega á stjórnmálafræði og sögu, en hefur á undanförnum áratugum lagt aukna áherslu á hagfræði, lögfræði og félagsfræði. Martin varð fyrsti forseti hagfræðideildar skólans en árið 2022 tók hann við hlutverki rektors stjórnsýsluskóla Sciences Po (École d'affaires publiques).
Rannsóknir Martin beindust að alþjóðaviðskiptafræði og haglandafræði. Sýndi hann meðal annars fram á að þar sem efnahagsleg tengsl og viðskipti eru sterk, dregur það úr tilhneigingu til …