Íslenskt tónlistarlíf hefur blómstrað á síðustu áratugum, þar sem tónlistarfólk úr ólíkum stefnum hefur skapað sér sterka stöðu bæði heima og erlendis. Til að viðhalda þessum krafti og grósku er nauðsynlegt að styðja markvisst við tónlistargeirann og mæta þörfum hans. Á síðustu árum hafa átt sér stað umfangsmiklar breytingar á stuðningsumhverfi tónlistar, knúnar áfram af tónlistargeiranum sjálfum. Mikilvægt er að slíkar breytingar séu á forsendum listafólksins og tónlistarinnar, fremur en hins opinbera. Jafnframt þarf að tryggja að uppbygging innviða og þróun tónlistargeirans verði ekki á kostnað listræns gildis.
Þegar Covid-faraldurinn braust út árið 2020 hafði hann mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf. Greinarhöfundur var annar tveggja höfunda skýrslunnar Áhrif Covid á íslenskan tónlistariðnað, sem unnin var af Félagi íslenskra hljómlistarmanna, STEF, Samtökum flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Tónlistarborginni Reykjavík og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Í skýrslunni voru rýnd áhrif faraldursins á tónlistarfólk, verkefni og rekstraraðila, svo sem tónlistarhátíðir og tónleikastaði, og lagðar fram tillögur að aðgerðum.
Í skýrslunni var einnig horft heildrænt á stuðningskerfi tónlistar hér á landi og meðal annars lögð til heildarendurskoðun sjóða til að veita hærri styrki til tónlistarfólks og opna á möguleika tónlistartengdra fyrirtækja til að sækja styrki. Þannig mætti tryggja vettvang fyrir tónlistarflutning með fjölbreyttri flóru tónlistarhátíða og lítilla og miðlungsstórra tónleikastaða til móts við þá stóru sem njóta jafnan öflugs stuðnings hins opinbera. Jafnframt væri hægt að treysta rekstrargrundvöll lítilla fyrirtækja sem vinna með og fyrir tónlistarfólk og stuðla þannig að öflugu vistkerfi tónlistar hér á landi. Skýrslan benti á að íslenski tónlistargeirinn mætti skipuleggja sig betur …