Ritið Reimagining our futures together er viðamesta skýrsla sem fjölþjóðleg stofnun hefur lagt fram um menntakerfi (UNESCO, 2021), þar sem megin áherslan er á að þróa inntak og skipulag menntunar í takt við þær miklu umbreytingar sem eru að eiga sér stað í heiminum. Í þessari grein rýni ég í þessa skýrslu og staldra sérstaklega við þá þætti sem varða fullorðinsfræðslu (e. adult education) þar sem ég fékk það verkefni í upphafi árs að stýra mótun nýrrar menntastefnu um framhaldsfræðslu fyrir hönd félags- og vinnumarkaðsráðherra. Skrif grænbókar[1] eru nú í fullum gangi og tekist verður á við mótun nýs frumvarps á vormánuðum. Í íslenskum lögum frá 2010[2] þýðir framhaldsfræðsla einfaldlega fullorðinsfræðsla sem markast einvörðungu við þann hóp fullorðinna einstaklinga sem hafa stutta skólagöngu að baki. Fram að því hafði fullorðinsfræðsla náð til breiðari hóps. Með síðustu lagasetningu urðu lögin einnig gráðudrifin eins og annað í menntakerfinu. Eitt af meginmarkmiðunum laganna var að koma fólki með stutta skólagöngu í áframhaldandi formlegt nám en lægra hlutfall Íslendinga hafði lokið framhalds- og háskólaprófum miðað við samanburðarlönd. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að vel hefur gengið að hækka menntunarstig á Íslandi og mæta þörfum atvinnulífs fyrir betur menntað fólk. Hins vegar er ljóst samkvæmt íslenskum rannsóknum að innflytjendur og hópar fullorðinna sem ekki eru á vinnumarkaði hafa ekki náð að nýta sér kerfið nægilega vel (Hróbjartur Árnason, 2023).
Skýrsluhöfundar UNESCO skýrslunnar leggja mikla áherslu á umbreytandi menntun. Þar er efst á blaði menntun til sjálfbærni, inngilding jaðarhópa og lýðræði með áherslu á þátttöku í samfélagi samborgara. Ljóst er að áherslur í stjórnarsáttmála[3] eru í þessum anda en þar segir: „Sí- og endurmenntun verður efld og löggjöf um framhaldsfræðslu endurskoðuð í breiðu samráði til að tryggja að framhaldsfræðslukerfið sé í stakk búið til að takast á við samfélagsþróun, m.a. vegna loftslagsbreytinga og tæknivæðingar á vinnumarkaði“ (bls. 45).
Samtal milli kerfa og auknar fjárheimildir samfara fjölgun í markhópi
Í áðurnefndri UNESCO skýrslu segir að nálgast verði fullorðinsmenntun með heildrænum hætti; tryggja þurfi aukið samstarf milli geira, stofnana og margra hagsmunaaðila og mikilvægt er að geta treyst á stöðuga og reglubundna fjármögnun fremur en fyrst og fremst átaksverkefni eða óreglulega fjármögnun. Í skýrslu Ásgeirs Brynjars Torfasonar (2023) kemur fram að fjármögnun framhaldsfræðslukerfisins sé of takmörkuð miðað við fjölgun í þeim hópi fólks sem það á að þjóna.
Umbreytandi menntun sem byggi ekki á skortshugsun eða stéttahyggju
Skýrsluhöfundar (UNESCO, 2021) telja mikilvægt að fullorðinsfræðsla komist út úr skortshugsun (e. deficit) og byggi fremur á eflandi (e. emancipatory) tilgangi menntunar (bls. 152-153). Með öðrum orðum þá þurfum við að breyta orðræðu um fullfrískt vinnandi fólk sem hefur ákveðið að skilja snemma á lífsleiðinni við formlega skólakerfið. Slík ákvörðun getur átt sér margs konar skýringar, yfirleitt aðrar en þær að fólkið sjálft sé illa á vegi statt. Margir vilja síðar taka upp menntaþráðinn og þá þarf að vera til aðgengilegt kerfi þar sem þau eru sjálf gerendur í uppbyggingu og mótun menntaleiða. Annað flokkast undir stéttahyggju (e. classism) þar sem gengið er út frá gildum, þörfum og menningu háskólamenntaðrar sérfræðingastéttar, að nám þurfi og geti helst bara átt sér stað á tilteknum tíma í lífi fólks og þurfi helst alltaf að leiða til langskólamenntunar. Að ganga lengi í skóla í samfelldan tíma er hin óskráða regla um hið rétta líf. Á Íslandi hefur stéttahyggja orðið meira áberandi á síðustu áratugum, m.a. í gegnum aukna samþjöppun fjölskyldna með mikinn menntunar- og efnahagsauð (Berglind Rós Magnúsdóttir o.fl., 2020) og þyrpingar háskólamenntaðra á höfuðborgarsvæðinu (Þorlákur Axel Jónsson, 2019). Því þarf að vera sérstaklega vakandi fyrir því að efla blöndun ólíkra stétta, tryggja aðgengi að menntun alla ævi óháð búsetu og skapa aukna virðingu fyrir fimmtu menntastoðinni sem framhaldsfræðslan er.
Skólinn áfram lykilmenntastofnun en aðrar menntaleiðir efldar
Um leið og við þurfum að verja formlegar menntastofnanir framhaldsfræðslunnar (s.s. símenntunarmiðstöðvar) verðum við jafnframt að víkka út sýn okkar til annarra staðsetninga. Skólar og símenntunarmiðstöðvar ættu að vera rými fyrir nemendur til að takast á við áskoranir og möguleika sem eru ekki aðgengilegir annars staðar, t.d. á vinnustöðunum sjálfum, og stafræn tækni ætti að styðja við menntastofnanir en getur aldrei alfarið komið í staðinn fyrir þær (UNESCO 2021, bls. 103).
Fullorðinsfræðsla þarf að ná til samfélagsáskorana auk vinnumarkaðar
Í öllum fjölþjóðaskýrslum er lögð áhersla á mikilvægi þess að huga að bæði félagslegum þáttum námsins sem og starfshæfni og það megi alls ekki einskorðast við þarfir vinnumarkaðar. Eins er alls staðar talað fyrir breytingum á störfum og endurmenntun inn í aðrar starfsgreinar (e. re-skilling) eða annars konar atvinnulíf. Hið sama má segja um breytingar á fjölskyldulífi og einkalífi. Í því sambandi má nefna leysingu hjónabandsins, helstu stofnunarinnar innan einkalífsins, breyttar leikreglur í samskiptum kynjanna í kjölfar byltinga á borð við #metoo eða æ flóknara hlutverk foreldra í nútímasamfélagi. Þetta eru allt þættir sem varða ekki færni í atvinnulífi en eru engu að síður gríðarlega mikilvægir til að tryggja farsæld í samfélögum.
Inngilding jaðarsettra hópa sem svo oft eru útilokaðir frá formlegum menntunartækifærum er eitt af lykilatriðum í framtíðarskýrslu UNESCO. Hér er sérstaklega staldrað við innflytjendur. Á Íslandi er einna hæst hlutfall innflytjenda innan OECD sem eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Mikilvægt er að skilgreina innflytjendur sem markhóp í lögum, þar sem tekið er tillit til sérstöðu og þarfa þeirra. Sýnt hefur verið fram á að markviss aðgangur innflytjenda að fullorðinsfræðslu styður við tungumálahæfni, uppfærslu færni (e. up-skilling) og samfélagsfræðslu. Í skýrslum um íslenskukennslu fyrir innflytjendur (Lara Wilhelmine Hoffmann o.fl., 2023; Ólöf Júlíusdóttir og Guðbjört Guðjónsdóttir, 2023) kemur skýrt ákall frá bæði innflytjendum og fræðsluaðilum um betri gæði náms og námsgagna. Fleiri hópar þurfa skýrari stöðu í nýjum lögum, svo sem fólk með fötlun eða örorku eða ungt fólk sem hvorki er í vinnu né námi (NEET).
Námskrá þarf að fela í sér umbreytandi menntun fyrir framtíðina
Iveta Silova, prófessor við Arizona háskóla, hefur bent á að þar sem einstaklingshyggja sé ríkjandi (einnig í menntun, þ.e. allt snýst um einstaklingsárangur út frá þröngum mælikvörðum) sé menntun fjærst því að vera umbreytandi (Komatsu o.fl., 2021). Hún hélt fyrirlestur[4] á vegum Fulbright og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands á dögunum um mikilvægi þess að endurhugsa inntak náms í öllu menntakerfinu. Hið margþætta eðli loftslagskrísunnar og hversu djúp hún er kallar á alþjóðlegt og þverfræðilegt viðbragð þar sem fólk vinnur saman að því að umbreyta menntun og skapa nýja menningu sem miðar að sjálfbærari framtíð fyrir jörðina. Þessari áskorun verður ekki mætt með einberum tæknilegum lausnum, heldur krefst hún gagnrýninnar endurskoðunar á forsendum þekkingar, menntunar og félagslegra breytinga. Hún rakti m.a. hvernig vísindamenn út um allan heim mótmæla tregðu stjórnvalda til umbreytinga sem gera lítið úr vísindalegum niðurstöðum. Hún ásamt kollegum sínum teflir fram sláandi tölum um neikvæð tengsl milli góðs árangurs í PISA og því að takast á við kolefnisútblástur og vistfræðilegar áskoranir, þ.e. þjóðir sem menga mest, standa sig að jafnaði betur í gamla menntakerfinu sem PISA mælir (sjá nánar: Komatsu o.fl., 2021). Þetta er umhugsunarvert og ljóst að íslensk stjórnvöld með áherslum sínum á grunnþætti menntunar í formlega menntakerfinu og áherslum á að framhaldsfræðslan takist á við loftslagsbreytingar ætla að taka þau mál alvarlega. Fyrirhuguð lagasetning og aðgerðir í framhaldi hennar verða síðan að raungera þessi fyrirheit.