„Loftslagsbreytingar hafa haft umtalsverð áhrif á náttúru Íslands, s.s. afkomu jökla, vatnafar, lífríki á landi og aðstæður í sjó. Veðurfar og náttúruaðstæður á landinu og í hafinu umhverfis það verða í lok aldarinnar án fordæma frá upphafi byggðar á Íslandi. Súrnun sjávar og hlýnun munu breyta umhverfisaðstæðum og útbreiðslusvæðum tegunda í hafi. Umtalsverð áhrif loftslagsbreytinga á atvinnuvegi, byggða innviði og efnahag skapa verulegar áskoranir, jafnvel í geirum þar sem viðbrögð við hlýnun geta haft jákvæð áhrif í för með sér. Sjávarstöðubreytingar og aukin náttúruvá geta aukið samfélagslegt tjón og áhrif loftslagsbreytinga erlendis skapað umtalsverða kerfisáhættu hérlendis, t.d. með áhrifum á aðfangakeðjur, fæðuöryggi og lýðheilsu. Loftslagsbreytingar eru stærsta heilsufarsógn sem mannkynið stendur frammi fyrir. Loftslagsvandinn er efnahagsmál sem mun hafa áhrif á verðlag, fjármálastöðugleika og öryggi fjármálakerfisins. Aðlögun að og viðbrögð við loftslagsbreytingum hafa í för með sér áskoranir sem krefjast umbyltingar í neyslu, iðnaði og tækni. Áhrif loftslagsbreytinga ná meðal annars til félagslegra innviða, menningar, sjálfsmyndar þjóðar og vekja upp siðferðilegar spurningar gagnvart öðrum þjóðum, komandi kynslóðum og vistkerfum.”
Textinn hér að ofan er útdráttur úr skýrslu Vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem kom út 18. október síðastliðinn. Skýrslan er afrakstur 2 ára vinnu nefndar sem umhverfisráðherra skipaði á vordögum 2021 og var nefndinni falið að gera úttekt á því sem vitað er um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrfar og samfélag á Íslandi. Tímasetningin tók m.a. mið af því að um sumarið 2021 hóf Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) að gefa út samantektarskýrslur sem notaðar voru til viðmiðunar. Vísindanefndin vann að skýrslunni …