Í ár er haldið upp á 30 ára afmæli samningsins um evrópska efnahagssvæðið (EES) sem reynst hefur mikilvægasti alþjóðasamningurinn sem Ísland hefur gert. Megin tilgangur samningsins var að koma á sameiginlegum innri markaði Evrópu sem grundvallast á fjórfrelsinu um frjálst flæði á vörum og þjónustu, fólki og fjármunum. En með EES samningnum var einnig opnað á fimmta frelsið sem er frjálst flæði hugvitsins þar sem samstarfsáætlanir Evrópusambandsins (ESB) hafa verið í lykilhlutverki. Þátttaka Íslands í þessum þætti Evrópusamstarfsins hefur skilað miklum ávinningi fyrir Ísland.
Ísland hefur frá upphafi verið virkur þátttakandi í helstu samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar og menningar. Rannís hefur séð um þátttöku í rannsókna- og nýsköpunaráætlunum frá upphafi, en frá 2013 fékk Rannís aukið hlutverk með fleiri áætlunum og frá 2021 sér stofnunin um þjónustu við nær allar áætlanir sem úthluta styrkjum. Á grundvelli góðs árangurs var þátttaka Íslands víkkuð út með nýrri kynslóð samstarfsáætlana sem hófst árið 2021 og tekur nú einnig þátt í samstarfi á sviði stafrænnar innleiðingar og umhverfis og loftslagmála. Þátttaka íslenskra aðila hefur vaxið að umfangi með hverri nýrri kynslóð áætlana og árangur íslenskra þátttakenda hefur verið mjög góður. Ávinningur af þátttöku Íslands er bæði mikill og margþættur og má horfa á hann frá sjónarhóli einstaklinga, stofnana samfélagsins, efnahagslífsins og síðan samfélagsins alls.
Fyrir einstaklinga og stofnanir
Ef við byrjum á sjónarhorni einstaklingsins þá er bein þátttaka í evrópsku samstarfi yfirleitt jákvæð …