
Í ár er haldið upp á 30 ára afmæli samningsins um evrópska efnahagssvæðið (EES) sem reynst hefur mikilvægasti alþjóðasamningurinn sem Ísland hefur gert. Megin tilgangur samningsins var að koma á sameiginlegum innri markaði Evrópu sem grundvallast á fjórfrelsinu um frjálst flæði á vörum og þjónustu, fólki og fjármunum. En með EES samningnum var einnig opnað á fimmta frelsið sem er frjálst flæði hugvitsins þar sem samstarfsáætlanir Evrópusambandsins (ESB) hafa verið í lykilhlutverki. Þátttaka Íslands í þessum þætti Evrópusamstarfsins hefur skilað miklum ávinningi fyrir Ísland.
Ísland hefur frá upphafi verið virkur þátttakandi í helstu samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar og menningar. Rannís hefur séð um þátttöku í rannsókna- og nýsköpunaráætlunum frá upphafi, en frá 2013 fékk Rannís aukið hlutverk með fleiri áætlunum og frá 2021 sér stofnunin um þjónustu við nær allar áætlanir sem úthluta styrkjum. Á grundvelli góðs árangurs var þátttaka Íslands víkkuð út með nýrri kynslóð samstarfsáætlana sem hófst árið 2021 og tekur nú einnig þátt í samstarfi á sviði stafrænnar innleiðingar og umhverfis og loftslagmála. Þátttaka íslenskra aðila hefur vaxið að umfangi með hverri nýrri kynslóð áætlana og árangur íslenskra þátttakenda hefur verið mjög góður. Ávinningur af þátttöku Íslands er bæði mikill og margþættur og má horfa á hann frá sjónarhóli einstaklinga, stofnana samfélagsins, efnahagslífsins og síðan samfélagsins alls.
Fyrir einstaklinga og stofnanir
Ef við byrjum á sjónarhorni einstaklingsins þá er bein þátttaka í evrópsku samstarfi yfirleitt jákvæð upplifun, veitir nýja innsýn og þroska og eykur víðsýni og menningarlæsi. Alþjóðleg reynsla nýtist einstaklingum vel bæði í námi og starfi og hefur jákvæð áhrif á náms- eða starfsferil viðkomandi með því að efla hæfileika sem eru mikils metnir á alþjóðlegum vinnumarkaði. Þetta er ekki bundið við fáa útvalda, heldur hafa vel yfir fjörutíu þúsund Íslendingar tekið beinan þátt í evrópsku samstarfi sem er vel yfir 10% þjóðarinnar. Flestir hafa verið á faraldsfæti með stuðningi frá Erasmus+ sem er líklega ein best þekkta samstarfsáætlunin á Íslandi og nær til menntunar, starfsþjálfunar, ungmenna og íþrótta.
Ef við horfum á þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB frá sjónarhorni stofnana sem taka þátt má kannski sjá ávinninginn skýrast á íslenskum háskólum. Allir íslensku háskólarnir hafa verið virkir í rannsókna- og nýsköpunaráætlun sem nú nefnist Horizon Europe og mennta- og æskulýðsáætluninni Erasmus+ og þetta samstarf hefur haft víðtæk áhrif. Samkvæmt nýlegri matsskýrslu hefur Erasmus+ áætlunin stuðlað að alþjóðavæðingu íslenskra háskóla sem hefur haft jákvæð áhrif á gæði þess náms sem þeir bjóða uppá. Öll skólastig hafa notið góðs af þátttökunni og það er sérstaklega ánægjulegt hversu margir skólar á landsbyggðinni hafa verið virkir í þessu samstarfi.
Efnahagsleg áhrif
Þegar horft er á efnahagslegu hliðina má fullyrða að þátttakan hafi verið hagfelld fyrir Ísland. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Rannís hefur handbærar þá hafa íslenskir aðilar frá árinu 1995 fengið styrki að upphæð a.m.k. 550 milljónir evra sem er yfir 80 milljarðar króna á núverandi gengi. Á sama tíma hafa fjárhagslegar skuldbindingar Íslands vegna þessara áætlana numið rúmlega 300 milljónum evra og því má fullyrða að þetta hafi verið góð fjárfesting fyrir Ísland. Þetta má sjá vel á mynd 1 þar sem árlegar styrkveitingar og skuldbindingar Íslands eru settar fram – en jafnframt er þar birt spá Rannís um hvernig styrkveitingar munu þróast …








