USD 127,8 0,2%
EUR 147,2 0,3%
GBP 167,2 0,4%
DKK 19,7 0,3%
SEK 13,3
NOK 12,5 -0,2%
CHF 158,5 0,3%
CAD 90,7 0,1%
JPY 0,8 0,8%
Stýrivextir 7,2%
Verðbólga 4,3%
Mannfjöldi 393.160
USD 127,8 0,2%
EUR 147,2 0,3%
GBP 167,2 0,4%
DKK 19,7 0,3%
SEK 13,3
NOK 12,5 -0,2%
CHF 158,5 0,3%
CAD 90,7 0,1%
JPY 0,8 0,8%
Stýrivextir 7,2%
Verðbólga 4,3%
Mannfjöldi 393.160
Til baka

Grein

Auk­in at­vinnu­þátt­taka fólks með skerta starfs­getu

Grundvallarbreyting sem verður með nýjum lögum um almannatryggingar kallar eftir auknum fjölda hlutastarfa frá atvinnulífinu, strax á næsta ári!

Í kjölfar gildistöku endurskoðaðra laga um almannatryggingar sem samþykkt voru á Alþingi síðasta sumar, má vænta mikillar aukningar fólks með skerta starfsgetu í atvinnuleit og vonandi í framhaldinu á vinnumarkaði. Eitt af meginmarkmiðum endurskoðunar laganna var að skapa hvata fyrir einstaklinga með skerta starfgetu til að vera virk á vinnumarkaði. Fyrir atvinnurekendur getur falist mikill ávinningur í að ráða fólk með skerta starfsgetu í vinnu. Rannsóknir hafa sýnt að ávinningurinn getur falist í fjölbreyttari þekkingu innan vinnustaða, aukinni nýsköpun og samkeppnishæfni, meiri hollustu starfsmanna, betra orðspori fyrirtækis og að lokum fjárhagslegum og samfélagslegum ábata.

Með breyttum lögum, sem munu taka gildi 1. september 2025, verður örorkulífeyriskerfið einfaldað til muna, t.a.m. verður einn greiðsluflokkur örorkulífeyris í stað nokkurra í dag og nýtt fyrirkomulag, samræmt sérfræðimat verður innleitt til að meta örorku og endurhæfingu.

Niðurstöður úr samræmdu sérfræðimati geta verið þrenns konar. Í fyrsta lagi getur virkni einstaklings á vinnumarkaði verið metin 25% eða minni til langframa vegna langvarandi alvarlegs heilsubrests eða fötlunar sem myndi tryggja honum rétt til fulls örorkulífeyris.

Í öðru lagi getur virkni einstaklings til vinnu verið metin 26–50% vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests eða fötlunar. Það þýðir að viðkomandi myndi fara á hlutaörorkulífeyri sem er 82% af örorkulífeyri. Hlutaörorka á að gera fólki kleift að auka tekjur sínar með atvinnu eftir því sem fólk getur til þess að ná lágmarksframfærslu. Hlutaörorkulífeyristakar eiga rétt á sérstökum virknisstyrk meðan á virkri atvinnuleit stendur. Fjárhæð virknisstyrks verður 68.400 kr. og verður hægt að fá styrkinn í allt að 24 mánuði, meðan á atvinnuleit stendur.

Í þriðja lagi getur virkni einstaklings á vinnumarkaði verið metin meiri en 50%, sem þýðir að hann á ekki rétt á stuðningi úr almannatryggingakerfinu.

Í nýja örorkulífeyriskerfinu mun samþætt sérfræðimat leysa núverandi örorkumat af hólmi. Samþætt sérfræðimat er heildrænt mat á getu einstaklinga til virkni á vinnumarkaði og verður framkvæmt af Tryggingastofnum ríkisins (TR). Samþætt sérfræðimat er staðlað mat og byggir á ICF, alþjóðlegu flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu. Í núverandi kerfi er örorka eingöngu metin af TR út frá líkamlegri og andlegri færnisskerðingu.

Hér er um grundvallarbreytingu að ræða, hvað varðar atvinnuþátttöku fatlaðs fólks

Hvað er hlutaöorkulífeyrir?

Hlutaörorkulífeyrir er nýr greiðsluflokkur og nemur upphæð hans 82% af fullum örorkulífeyri, sem verður 311.600 kr. á mánuði (fyrir skatt). Eins og fram hefur komið þarf sá sem metinn er á hlutaörorku að fara á vinnumarkaðinn og afla sér tekna til að ná lágmarksframfærslu. Þau sem fá greiddan hlutaörorkulífeyri hafa sérstakt frítekjumark upp að 250.000 kr. auk hins almenna frítekjumarks sem er 100.000 kr. og samanlagt verður því frítekjumarkið 350.000 kr. á mánuði.

Hér er um grundvallarbreytingu að ræða, hvað varðar atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Því er mjög mikilvægt að átta sig á því að þau sem verða metin með hlutaörorku þurfa að finna sér vinnu við hæfi til langs tíma því hlutaörorka er ótímabundið mat, þangað til annað er ákveðið.

graf1

Vinnumarkaðsaðgerðir

Eftir að lögin um endurskoðun almannatrygginga taka gildi mun fleira fatlað fólk þurfa að leita sér vinnu til að framfleyta sér.

Fram til þessa hefur fatlað fólk ekki verið virkt á vinnumarkaði vegna lágra skerðingamarka atvinnutekna og slæms aðgengis að atvinnu. Árið 2022 voru frítekjumörk hækkuð úr 109.600 kr. á mánuði í 200.000 kr. og dregið úr skerðingum örorkulífeyris vegna atvinnutekna. Við þá breytingu varð aukning í atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Í janúar 2024 voru um 4.800 öryrkjar með atvinnutekjur, samhliða örorkulífeyri frá TR, samanborið við 4.200 árið 2022. Í janúar 2024 fengu um 23.000 einstaklingar lífeyri frá TR, þar af um 19.400 örorkulífeyri og 3.600 endurhæfingalífeyri.

Á árunum 2021-2023 bættust að meðaltali við um 1.200 manns árlega á örorkulífeyri. Samkvæmt nýju lögunum er áætlað að helmingur þeirra muni vera metinn með örorkulífeyri, en hinn helmingurinn metinn með hlutaörorkulífeyri. Það leiðir af sér að árlega munu 600-700 fatlaðir einstaklingar með skerta starfsgetu þurfa að leita sér að vinnu til að viðhalda framfærslu. Í ljósi þess að hlutaörorkulífeyrir verður 82% af fullum örorkulífeyri, er líklegt að flestir hlutaörorkulífeyristaka muni leita að hlutastörfum.

Það er mikilvægt að benda á að starf hefur mikilvæga félagslega þýðingu fyrir fólk, líka fólk með skerta starfsgetu, þar sem það gefur tækifæri til að takast á við verkefni, tilheyra stærri félagsheild og eiga relgulega félagsleg samskipti við aðra.

Hér er því rétt að spyrja: Er vinnumarkaðurinn á Íslandi reiðubúinn að taka á móti þessum fjölda einstaklinga með skerta starfsgetu í hlutastörf?

Eins og sést í mynd 1 er stígandi í fjölda starfa á íslenskum vinnumarkaði frá árinu 2010 til ársins 2023 ef COVID áhrifin árin 2020-2021 eru undanskilin. Frá árinu 2007 til ársins 2023 fjölgaði störfum um 48.000 eða um 2.800 á ári. Eins og fram kom að ofan, er áætlað að fjöldi lífeyristaka sem fá metna hlutaörorku og myndu leita sér að vinnu verði um 600-700 talsins á ári. Í ljósi þess hve mörg störf verða til að meðaltali á hverju ári á íslenskum vinnumarkaði, ætti hann að geta tekist á við þá áskorun að skapa viðeigandi fjölda starfa fyrir fólk með skerta starfsgetu.

... markmiðum endurskoðunar almannatryggingalaga var að skapa hvata fyrir einstaklinga með skerta starfgetu til að vera virk á vinnumarkaði

Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Á vinnumarkaði eru nú 232.000 manns eða 81% fólks á vinnualdri (16-74 ára) virk á vinnumarkaði sem er hæsta hlutfall í Evrópu. Ef skoðað er atvinnuleysi þá er íslenskur vinnumarkaður frábrugðinn þeim löndum sem við berum okkur hvað oftast saman við, Norðurlöndin og N-Evrópa (Þýskaland, Holland, Belgía, Írland og Bretland). Atvinnuleysi hér á landi er töluvert lægra en í öllum þeim löndum. Í júní sl. var það 3,1% á Íslandi, en 5,4% að meðaltali í fyrrnefndum löndum.

Lágt atvinnuleysi einkennir kröftugan og lifandi vinnumarkað hér á landi og því ætti ekki að vera hindrun í að fjölga störfum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Tíminn þangað til að lögin taka gildi 1. september á næsta ári, nægir vonandi til að vinnumarkaðurinn verði tilbúinn til að takast á við áskorunina um að fjölga starfstækifærum með hlutastörfum fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Á komandi misserum munu ÖBÍ réttindasamtök og Vinnumálastofnun standa fyrir upplýsingafundum um aukna atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu fyrir fulltrúa fyrirtækja á almennum vinnumarkaði og fyrir sveitarfélög og opinberar stofnanir. Á þessum fundum verður m.a. kynnt aðferðafræði Sameinuðu þjóðanna (UNDIS), sem hefur verið innleidd hjá undirstofnunum þeirra til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu. UNDIS aðferðafræðin byggir á tveimur lykilþáttum: Annars vegar innleiðingu á 15 árangursvísum með áherslu á fjögur svið: Forystu, stefnumótun, stjórnun og menningu stofnana – og hins vegar ábyrgðarskorkorti sem fylgist með inngildingu viðeigandi aðlögunar.

Til að auðvelda atvinnurekendum að ráða fatlað fólk til vinnu, hefur ÖBÍ réttindasamtök sett upp upplýsingasíðu á heimasíðu samtakanna þar sem ýmsar upplýsingar eru að finna varðandi það að ráða fatlað fólk til vinnu.

Aukin starfstækifæri

Til að auka möguleika á starfstækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu, hefur ÖBÍ lagt til að stofnaður verði Aðgengis- og aðlögunarsjóður þar sem atvinnurekendur (bæði á opinberum og almennum markaði) geta sótt styrki til s.s. til að aðlaga húsnæði og vinnuaðstöðu fyrir fatlað fólk. Vísi að slíkum sjóði er að finna í reglugerð um styrki vegna hjálpartækja, nr. 760/2021 sem kveður á um skyldur sveitarfélaga til að styrkja kaup á hjálpartækjum sem fatlað fólk 18 ára og eldri þarf vegna atvinnu. Þetta ákvæði er vísir að opinberum stuðningi vegna atvinnuþátttöku fatlaðs fólks en betur má ef duga skal.

Mikilvægt er að leggja áherslu á að við gildistöku nýju breytinganna er engum hlutaörorkulífeyristaka skylt að fara út á vinnumarkaðinn. Eitt af markmiðum endurskoðunar almannatryggingalaga var að skapa hvata fyrir einstaklinga með skerta starfgetu til að vera virk á vinnumarkaði.

Okkur er tíðrætt um jafnrétti og opinberlega státum við okkur af því hvert sem við förum. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um mikilvægi fjölbreytileika á vinnumarkaði er nú nánast útilokað fyrir fatlað fólk og fólk með skert starfsgetu að fá vinnu við hæfi og getu. Því er jafnan borið við að kostnaðurinn sé meiri en ávinningurinn. Því fer fjarri. Þátttaka fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu á vinnumarkaði á ekki að vera fjarlægur draumur heldur raunveruleiki sem felur í sér tækifæri og framþróun fyrir fatlað fólk, atvinnulífið og samfélagið allt. Þegar inngilding fatlaðs fólks á vinnumarkaði hefur náð fótfestu er fyrst hægt að tala um jafnrétti. ÖBÍ hefur þegar lagt af stað í samstarf um að auka vitund fyrirtækja og atvinnurekenda á mikilvægi þess að fatlað fólk fái vinnu við hæfi og getu.

Næsta grein