Til baka

Aðrir sálmar

Bestu vinir að eilífu

Hagsmunir þjóða skulu varðir af stjórnvöldum. Óvíst er hve lengi vinskapur úr vestri varir. Hugsanlega er hagsmunum Íslendinga alls ekki best borgið utan Evrópusambandsins.

musk
Eins konar hægri hönd forseta Bandaríkjanna í efnahagsmálum og sérlegur bílasali hans einnig.
Mynd: AFP

Óbeina tilvitnunin – um að þjóðir eigi sér ekki vini, heldur aðeins hagsmuni – er oft eignuð Charles de Gaulle, fyrrverandi forseta Frakklands. Sögnin endurspeglar raunsæissjónarmið í alþjóðasamskiptum sem leggur áherslu á að lönd starfi út frá mótaðri stefnu og þjóðarhagsmunum miklu frekar heldur en einhverjum varanlegum samböndum eða vináttu. Svipuð hugsun var sett fram af Palmerston lávarði og fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands á 19. öld, sem mun hafa sagt: „Við eigum enga eilífa bandamenn og enga varanlega óvini. Hagsmunir okkar eru eilífir og varanlegir, og það er skylda okkar að verja þá.“ Nútímasögu þjóðarhagsmuna má lesa um í viðtali við Stephen Kotkin í New Yorker eða hlusta á.

Niðurbrot Atlantshafsbandalagsins sem afhjúpast hefur síðustu sjö vikur birtir þetta skýrt. Fjallað var um það í þremur greinum mínum í Heimildinni í síðustu viku og síðasta mánuði. Það ætti þó ekki að koma á óvart miðað við brestina í stoðum bandalagsins árið 2018 sem fyrsta greinin kom inná.

Tollar eru annað baráttutæki Trumps og Gylfi Magnússon fjallar ítarlega um þá hér í vikuritinu en Þorvaldur Gylfason kom einnig inn á tollana í niðurlagi greinar sinnar nýlega. Þá er forsíðugrein vikunnar eftir Rósu Magnúsdóttur mjög upplýsandi – um þær greiningarvillur og breytingar sem orðnar eru á (ó)vinum, ásamt forsíðugrein Erlings Erlingssonar í síðustu viku um varnarmálavendipunkt.

Þróist mál til verri vegar, má telja mögulegt að svört sviðsmynd verði eitthvað í líkingu við eftirfarandi. Bandaríkin gætu myndað fóstbræðralag með Rússum og Danmörk þá gefið eftir Grænland en í framhaldinu yrði óskynsamlegt fyrir Evrópulönd að eyða sínu púðri, eða réttara sagt herþotueldsneyti, til að verja botnlangann á klettinum lengst í vestri sem við hér búum á. Líklega gæti varnarlínan legið við Svalbarða. Enda þarf áherslan í varnarviðbragðinu að beinast að austurlandamærum álfunnar. Þá er sjálfgefið að leyfa Íslandi sem telur hagsmuni sína best tryggða með því að vera ekki aðili að Evrópusambandinu – að standa alveg utan við það.