Á mánudagsmorgun var tilkynnt að Claudia Goldin hefði hlotið verðlaun sænska Seðlabankans til minningar um Alfred Nobel fyrir árið 2023. Þessi ákvörðun er merkileg fyrir margra hluta sakir. Annars vegar er það verðlaunahafinn. Claudia Goldin er einungis þriðja konan til að hljóta nóbelsverðlaun í hagfræði og fyrsta konan til að fá þau án þess að deila verðlaununum með öðrum. Á hinn bóginn er það fyrir hvað verðlaunin eru veitt. Verðlaunin eru veitt Claudiu Goldin fyrir „að hafa bætt skilning okkar á afkomu kvenna á vinnumarkaði“. Claudia Goldin er fædd árið 1946 í New York borg í Bandaríkjunum. Hún útskrifaðist með BA gráðu í hagfræði frá Cornell háskóla 1967 og doktorsgráðu frá Chicago háskóla 1972. Í dag er hún prófessor við Harvard háskóla í Boston. Verðlaunin eru viðurkenning á því hversu mikilvægt er að rannsaka vinnumarkaðinn og skilja mismunandi stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði.
Atvinnuþátttaka kvenna hefur þrefaldast í mörgum hinna efnaðri ríkja síðustu hundrað árin sem er gríðarleg samfélagsbreyting. Claudia Goldin hefur á sínum ferli leitast við að skoða og skýra þróun í atvinnuþátttöku kvenna og þróun á launamun karla og kvenna í gegnum aldir. Í rannsóknum sínum hefur Goldin farið óhefðbundnar leiðir við að nálgast upplýsingar og nýtt söguleg gögn til að lengja tímaraðir aftur í tímann.
Á árinu 1990 gaf Claudia Golden út bókina Understanding the Gender Gap: An Economic History of American Women sem varpaði nýju ljósi á hugmyndir fólks um þátttöku kvenna á vinnumarkaði. Opinber gögn í Bandaríkjunum sýndu að alla tuttugustu öldina fór atvinnuþátttaka …