Rannsóknin sem hér er greint frá var hluti af rannsóknaverkefninu Crisis Management in a Polycentric Nordic Local Democracy: Different Governance Structures – Different Results? (POLYGOV). Um er að ræða norrænt rannsóknarverkefni sem er styrkt að fullu af Rannsóknarráði Noregs (n. Norges Forskningsråd). Meginmarkmiðið var að greina og bera saman viðbrögð á Norðurlöndunum við COVID-19 faraldrinum og afleiðingum hans og tengja þennan mun við stefnu, stjórnarhætti, skipulag og stjórnun. Rannsóknin tók því til Norðurlandanna fimm, Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmörku en sjálfstjórnarsvæðin þrjú Færeyjar, Grænland og Álandseyjar voru líka með í rannsókninni en þó ekki í þeim könnunum meðal almennings sem hér verður greint frá. Að verkefninu komu háskólar og rannsóknastofnanir í öllum löndunum en Oslo Metropolitan University (OsloMet) var leiðandi aðilinn. Bók með helstu niðurstöðum úr verkefninu er komin út og er í opnum aðgangi.
Umfjöllunarefnið, gögn og aðferðir
Hér verður fjallað um þá kafla bókarinnar sem snúa að mati Norðurlandabúa á sanngirni sóttvarnaraðgerða, hafta og takmarkana sem gripið var til í faraldrinum. Einnig er fjallað um traust fólks til þeirra yfirvalda sem viðbrögð við faraldrinum snéru að. Um er að ræða bókarkafla 20 um sanngirni aðgerða (Haug, Baldersheim og Sefton, 2024) og bókarkafla 21 um traust (Baldersheim, Haug og Eyþórsson, 2024). Þessir kaflar byggja á gögnum úr samræmdri spurningakönnun sem send var á úrtak almennra borgara á öllum Norðurlöndunum fimm. Um 1200 svör bárust frá hverju landi fyrir sig, þó nokkuð færri frá Íslandi. Allar kannanirnar voru gerðar á tungumáli viðkomandi lands. Framkvæmdatími …