Fræg er setning eins bankastjórans sem stýrði einum af stærstu bönkum heims í fjármálakrísunni 2008 um að svo lengi sem músíkin hljómi þá verði dansinn að duna. Það var erfitt að standa á móti straumnum eða hætta auðveldri hagnaðarsókninni þegar allir bankar voru í fullu fjöri.
Jafnfram er annar samhljómur í söng bankamanna, þegar að illa fer, líkt og rifjað var upp í tveggja þátta heimildarmynd í Ríkissjónvarpinu í vikunni. Hann er sá sami hér og heyrðist stuttlega frá bankamönnum í Bandaríkjunum árið 2008 þegar þörf var á opinberri aðstoð til björgunaraðgerða. Þið hefðuð átt að hafa betra eftirlit með okkur sögðu bankamennirnir þar þá.
Sagt er að 12 af 13 stærstu bönkunum í New York hafi verið nokkrum klukkustundum frá falli, eftir að sá í fjórða sæti fór í þrot. Í sumum skandinavískum löndum var bankakerfið einnig nálægt falli, bæði Danske Bank strax haustið 2008 en einnig stærstu bankar Svíþjóðar ári og tveimur síðar. Sænski seðlabankinn þurfti þá að bjarga bankakerfinu í Eistlandi og Lettlandi þar sem sænsku bankarnir höfðu vaxið og voru burðarstoð bankakerfisins.
Eftirlitsmenning er almennt ekki í hávegum höfð hérlendis og hefur jafnvel á sér óorð. Sú fyrirlitning á eftirliti, sérstaklega varðandi samkeppni, að ekki sé minnst á hollustuhætti og öryggi, byggir á vantrú á kapítalískt efnahagslíf. Mögulegt er að skorturinn á samkeppni og eftirliti með henni feli í sér hluta ástæðunnar fyrir því að verðbólga helst talsvert hærri hérlendis en í nágrannalöndunum. Spurningin er þá hver, ef einhver, muni rannsaka það til að finna út hvort satt reynist.
Stjórnsýslulegt eftirlit er ekki síður mikilvægt eins og samkeppnis eftirlit. Nú þegar að þrjár opinberar eftirlitsstofnanir, Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og Umboðsmaður Alþingis hafa allar farið yfir framkvæmd seinni einkavæðingar Íslandsbanka liggur fyrir að stjórn og stjórnendur bankans og bankasýslunnar auk fjármála- og efnahagsráðherra hafa öll þurft að standa reikningsskil gjörða sinna og axlað ábyrgð.