Fátt kom á óvart í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2024. Flest allt hafði komið fram, með einhverjum hætti, í fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár eða á blaðamannafundum sem haldnir hafa verið reglulega til að greina frá því að afkoma ríkisins sé betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Þrátt fyrir allar nýju virðisaukaskattstekjurnar sem tvær milljónir ferðamanna koma með inn í landið, og þrátt fyrir alla nýju tekjuskattsgreiðendurna sem flutt hafa til Íslands til að þjónusta þá ferðamenn, er enn halli á rekstri ríkissjóðs. Í ár verður hann 41 milljarður króna á næsta ári er stefnt að því að hann verði 46 milljarðar króna.
Frumvarpið inniheldur nokkrar nýjar leiðir til að innheimta tekjur, meðal annars af bifreiðareigendum, auk þess sem fiskeldisiðnaðurinn þarf að borga lítillega hærri sértæka skatta og gistináttaskattur verður loks endurvakinn, nú þannig að hann nái líka til skemmtiferðaskipa. Lítið er um aðhald í ríkisrekstrinum og einu skrefin sem stíga á til að greiða niður skuldir sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Skuldirnar hafa aukist hratt á síðustu árum. Fyrst vegna þess að ríkið brást við efnahagslegum afleiðingum kórónuveirunnar og svo vegna þess að það er erfitt fyrir ríkisstjórn þvert yfir hið pólitíska litróf að hætta eyðslu sem er hafin. Þegar verðbólgan fór á flug, og reyndist þrálát, varð ljóst að þessi aukna skuldasöfnun myndi reynast dýrt spaug.
Á næsta ári er áætlað að 111 milljarðar króna verði greiddir í vaxtagjöld á árinu 2024, um 14 milljörðum krónum meira en reiknað var með þegar fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var …