Allir skattgreiðendur á Íslandi greiða árlega í Framkvæmdasjóð aldraðra og hafa gert í áraraðir, raunar áratugi. Samt er skortur á bæði íbúðum sem henta öldruðum og hjúkrunarheimilum. Síðari skorturinn truflar reglulega alvarlega rekstur Landspítala Háskólasjúkrahúss og hefur í áraraðir. Sá fyrri er til umræðu í forsíðugrein vikunnar.
Vítavert ábyrgðarleysi getur falist í því að sinna ekki vel eftirliti með einkarekinni þjónustu. Að fela einkaaðilum rekstur leysir hið opinbera ekki undan ábyrgð sinni samanber síðari grein vikunnar, sem er annar hluti af þremur um eftirlitsskyldur.
Vextir Seðlabankans lækkuðu ekki í vikunni, þó komið sé í ljós að hagvöxtur á síðasta ári hafi ekki verið hálf prósenta heldur samdráttur um rúma tvo þriðjunga úr prósentu. Gefið var til kynna á blaðamannafundi Seðlabankans eftir stýrivaxtaákvörðun að vænst væri þess að tölur Hagstofunnar yrðu leiðréttar aftur og þá til hækkunar.
Formaður stærsta verkalýðsfélags landsins, VR, þar sem endurskoðunarheimild er fyrir hendi í kjarasamningum verði verðbólga of mikil, fer yfir átta atriði um vanda hávaxtastefnunnar í grein sem vert er að veita athygli í þessu samhengi.
Hagfræðingunum sem stýra efnahagsmálum landsins, sitt hvoru megin við Kalkofnsveginn uppi á Arnarhól, er viss vandi á höndum bæði sameiginlega og hvorum í sinni stofnun. Mögulega munu þeir komast saman í sögubækurnar fyrir að hafa stýrt þjóðarskútunni í kyrrstöðuverðbólgu (e. stagflation). Verði hagtölur áfram leiðréttar þannig að hagvöxtur raungerist ekki en stýrivextir áfram yfir 7% og helmingurinn raunvextir. En logn kyrrstöðuverðbólgunnar vofir yfir víðar og getur það verið verra en stormur.
Sá þróttur sem fæst úr hagtölum virðist við nánari skoðun helst til kominn af erlendri fjárfestingu, eins og nútímalegum braggabyggingum fyrir þúsundir hermanna á Keflavíkurflugvelli og gagnaversframkvæmdum þar í nágrenninu með innflutningi búnaðar frá miklu herveldi fyrir botni Miðjarðarhafs. Hvorug þessara fjárfestinga tekur þó nokkurt mið af stýrivöxtum verðtryggðustu myntar í heimi.