Í grein sem birtist í Vísbendingu 6. desember sl. ræddi ég mögulegar niðurstöður úr líkani í viðauka E í skýrslu sem Birgir Þór Runólfsson og Ragnar Árnason unnu fyrir SFS. Þar fá þeir út að hækkun skatta á fyrirtæki minnki landsframleiðslu. Ég sýndi m.a. að ef skattar í líkani þeirra eru ytri breytur sem stjórnvöld ákvarða, en það er algengasta forsendan í svona líkönum, fæst að hækkun skatta á fyrirtæki eykur landsframleiðslu. Þessi niðurstaða er oft kennd við Tryggve Haavelmo. Í svari Birgis og Ragnars sem birtist í Vísbendingu 17. janúar sl. eru engar athugasemdir við mína útreikninga en sagt að þeirra líkan sé „ekki gamaldags Keynesískt líkan af þeirri gerð sem Haavelmo fjallaði um árið 1945 í árdaga Keynesískrar hagfræði.“ Ekki veit ég af hverju þeir telja þetta rök gegn niðurstöðum úr þeirra líkani. Og ef út í það er farið segir aldur líkans oft lítið um gæðin. Keynesískt líkan Johns R. Hicks frá árinu 1937, IS-LM líkanið, er kennt í virtum háskólum og umfjöllunarefni í kennslubók Roberts Barros sem vísað er til í skýrslu Birgis og Ragnars.
Heildarskattar
Birgir og Ragnar gera ráð fyrir að skattar á heimili sé innri breyta sem ákvarðast af jöfnum líkansins, en skattar á fyrirtæki ytri breyta. Þess vegna hefur hækkun skatta á fyrirtæki áhrif á skatta á heimili í líkani þeirra. Þeir segja jöfnu (E.13) sýna áhrifin á heildarskatta, en sú jafna er röng. Rétta formúlan er í jöfnu (10) í minni grein. Með réttri formúlu gefur líkan þeirra að hækkun skatta á fyrirtæki veldur því að stjórnvöld þurfa að lækka skatta á heimili það mikið að heildarskattar (og ríkisútgjöld sem fylgja heildarsköttum) þurfa að lækka til að tryggja jafnvægi í hagkerfinu. Og öfugt, lækkun skatta á fyrirtæki leiðir til hækkunar heildarskatta og meiri landsframleiðslu, niðurstaða sem óneitanlega ber keim af niðurstöðum Haavelmos. Birgir og Ragnar nefna ekki þessar ábendingar í svari sínu.
Leysanleg líkön
Vandi Birgis og Ragnars er að ef vinnuafl ( ) er fest sem ytri breyta ásamt sköttum á heimili og fyrirtæki eru jöfnur í líkani þeirra fleiri en innri (óþekktu) breyturnar og engin lausn. Til að gera líkanið leysanlegt ákveða þeir að skattar á heimili sé innri breyta. Í svarinu segjast þeir hafa prófað að setja inn að skattar …








