Til baka

Aðrir sálmar

Fegurð fjallanna og fjarlægðarregla

Samhengið milli atvinnuveganna, bæði innbyrðis og gagnvart hinu opinbera skipta miklu máli fyrir hagstjórn og skuldastöðu ríkissjóðs sem tengist hallarekstri sem stafar af of litlum tekjum.

Ferðalangar koma hingað til lands til að njóta náttúrunnar og bera með sér gjaldeyri sem birtist sem útflutningstekjur. Sem skila ríkissjóði um 50 milljörðum króna í virðisaukaskatt samkvæmt fyrri grein af tveimur um hagrænt mat á ferðaþjónustu. Vöxtur hennar hefur verið mikill, sérstaklega mældur í fjölda ferðalanga – en í raun eru hagræn áhrif af hverjum þeirra minnkandi. Hagtölur og mælingar þeirra skipta miklu og auka þarf gæði þeirra enn frekar til að forsendur hagstjórnar batni.

Önnur grundvallar útflutningsgrein kvartar nú sáran og hefur nánast í hótunum við stjórnvöld og landsmenn alla eftir að leiðrétting með réttara fiskverði í forsendum útreikninga á veiðigjaldi hefur verið sett í samráðsgátt. Þær tekjur sem ríkissjóður fær af auðlindinni í hafinu standa þó varla undir beinni þjónustu við sjávarútveg umhverfis landið.

Fjarlægðarreglan sem sett var á í faraldrinum, og fjallað er um í seinni grein vikunnar, hefur notið mikils skilnings almennings. En sú nálægð sem verið hefur á milli sjávarútvegs og stjórnvalda hingað til hefur hugsanlega verið óheilsusamlega mikil, fyrir ríkissjóð. Óhætt er að mæla með áhorfi á hinn nýja ráðherra atvinnuveganna í Kastljósinu í vikunni.

Þriðji stofninn í íslensku atvinnulífi, sem nefndur hefur verið hinar skapandi greinar, var til víðtækrar umfjöllunar í stóru þemablaði Vísbendingar sem kom út á vorjafndægri í síðustu viku. Efnisyfirlit allra 22 greina blaðsins og tveggja viðtala er að finna í lok leiðarans.

Fjármálastefna nýrrar ríkisstjórnar var kynnt á miðvikudaginn og hefur verið lögð fram á Alþingi sem þingsályktunartillaga. Þó verður enn áhugaverðara að lesa fimm ára fjármálaáætlun sem birtast skal á mánudaginn, og byggja mun á stefnunni. Báðar tillögurnar móta forsendur fjárlaga haustsins, og kjörtímabilsins. Loks má benda á áhugavert myndband Financial Times sem dregur fram hve ríkissjóðir heimsins séu orðnir háðir aukningu skulda.

Næsta grein