Á undanförnum vikum hafa miklar umræður átt sér stað um ferðaþjónustu á Íslandi, ekki síst í kjölfar yfirgripsmikillar umfjöllunar Heimildarinnar um ferðamannalandið Ísland þann 25. júlí síðastliðinn. Í þeirri umfjöllun var sjónum beint sérstaklega að þeirri þróun sem átt hefur sér stað í Vík í Mýrdal á undanförnum áratugum og þeim vaxtarverkjum sem henni hafa fylgt.
Án þess að fara sérstaklega í saumana á umfjölluninni vakti það hömluleysi sem virðist ríkja á þessum vettvangi marga til umhugsunar – hömluleysi sem er afsprengi veikburða regluverks og þess viðhorfs að ferðaþjónusta sé fyrst og fremst tekju- og gjaldeyrisaflandi atvinnugrein. Til dæmis er haft eftir sveitarstjóra í Vík í Mýrdal í viðtali við Vísi þann 31. júlí, – þar sem hann bregst við umfjöllun Heimildarinnar, að það liggi í eðli ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar að hún sé auðlindadrifin og byggi „á náttúruperlum sem séu ekkert að fara“. Í því samhengi nefnir hann sérstaklega Víkurfjöru, Reynisdranga, Dyrhólaey og Mýrdalsjökul.
Þessi ummæli sveitarstjórans vöktu athygli – ekki vegna þess að hann hafi rangt fyrir sér um aðdráttarafl tiltekinna náttúrufyrirbæra, heldur vegna þess að þau bera vitni um ákveðið skeytingarleysi gagnvart bæði náttúru og samfélagi. Skeytingarleysi sem, oftar en ekki, endurspeglar ríkjandi hugsunarhátt innan atvinnugreinarinnar. Staðreyndin er sú að þær náttúruperlur sem sveitarstjórinn nefnir eru „á förum“, ef svo má segja þvert á það sem hann segir. Vísindamenn hafa ítrekað bent á að við lifum á tímum hraðfara loftslagsbreytinga sem meðal annars valda því að jöklar bráðna og sjávarborð hækkar.
Framlag ferðamálafræða
Fræðafólk innan ferðamálafræðinnar hefur …