
Ísland er einstakur áfangastaður á heimsvísu sem eftirsótt er að heimsækja. Eitt af forgangsmálum í menningar- og viðskiptaráðuneytinu á undanförnum misserum er að búa ferðaþjónustunni sterkari umgjörð til þess að vaxa, dafna og skapa aukin verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Ný ferðamálastefna til ársins 2030 og aðgerðaáætlun henni tengd liggur nú fyrir þinginu en stefnan mun vísa veginn fram á við. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá marsmánuði 2010 þegar að eldgos hófst í Eyjafjallajökli. Þessi jarðfræðilegi atburður átti eftir að marka straumhvörf fyrir íslenska ferðaþjónustu sem hefur tekið miklum breytingum á þeim rúmu 14 árum sem liðin eru frá gosinu. 14 ár eru ekki sérlega langur tími en það er ánægjulegt að sjá þann árangur sem náðst hefur í uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Það gefur augaleið að það að taka á móti um hálfri milljón ferðamanna árið 2010 og svo 2,2 milljónum ferðamanna árið 2023 er talsverð breyting sem verður ekki án áskorana. Þegar horft er yfir farinn veg er hægt að fullyrða að á ýmsan hátt hafi tekist vel til við að vinna úr þeim vaxtarverkjum sem fylgt hafa auknum umsvifum í ferðaþjónustunni á ekki lengri tíma. Fjárfest hefur verið myndarlega í innviðum og uppbyggingu áfangastaða, má þar nefna að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur veitt styrki til um 900 verkefna fyrir rúma 8,2 milljarða kr. á umliðnum árum. Ferðaþjónustan hefur að sama skapi bætt búsetuskilyrði í landinu öllu, en um er að ræða stærstu sjálfsprottnu byggðaaðgerð Íslandssögunnar. Hærra atvinnustig og stóraukið framboð af þjónustu í afþreyingu, gistingu, mat og drykk auk greiðara aðgengis að náttúruperlum eru gæði sem íbúar landsins jafnt sem erlendir gestir njóta góðs af.
Styrkari staða þjóðarbúsins
Samhliða þessum aukna vexti ferðaþjónustunnar hefur átt sér stað mikil breyting til hins betra á stöðu þjóðarbúsins. Þannig hefur ferðaþjónustan orðið að nýrri stoð í efnahagslífinu en hlutur greinarinnar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur farið úr því að vera 3,4% árið 2010 í að vera 7,8% árið 2022. Algjör umskipti hafa orðið á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins með tilkomu og vexti ferðaþjónustunnar, sem skapar stöðugan straum gjaldeyristekna. Það má meðal annars greina í stöðu gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans og vaxandi eignum lífeyrissjóða á erlendri grundu. Þannig skapaði greinin 448 milljarða kr. í gjaldeyristekjur árið 2022 samanborið við 163 milljarða árið 2010. Heildarneysla innlendra og erlendra ferðamanna hér á landi 2022 nam 635 milljörðum kr., sem gerir um 1,7 milljarða kr. í tekjur á dag. Þessi mikli gjaldeyrisstraumur sem ferðaþjónustan skapar skiptir lítið og opið hagkerfi eins og okkar gríðarlegu máli. Hann styður við gengi krónunnar og stuðlar þannig að lægri verðbólgu en ella ásamt því að þjóna sem öryggissjóður ef stór og óvænt áföll eiga sér stað sem geta haft neikvæð áhrif á gjaldeyrisöflun. Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig hlutur þjónustujafnaðarins hefur vaxið mjög á meðal undirliða viðskiptajafnaðarins sem rekja má til ferðaþjónustunnar ásamt þeim jákvæðu umskiptum sem orðið hafa á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins.
Nýtt þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónstuna
Ferðaþjónustan hefur sýnt að hún getur skapað umtalsverðar gjaldeyristekjur á nokkuð skömmum tíma og þannig hreyft við mikilvægum hagstærðum. Til þess að mæla betur áhrif breytinga í starfsumhverfi ferðaþjónustunnar var ráðist í smíði á sérstöku þjóðhagslíkani fyrir íslenska ferðaþjónustu sem er nú lokið. Um er að ræða fyrsta þjóðhagslíkan fyrir atvinnugrein hérlendis. Ferðamálastofa hefur haldið á framkvæmd verkefnisins fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins en annars vegar er um að ræða sérstakt þjóðhagslíkan fyrir íslenska ferðaþjónustu, eða svokallað geiralíkan, og hins vegar útvíkkun á spálíkani Seðlabanka Íslands/Hagstofu Íslands. Líkanið mun gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum …








