Á þessum degi fyrir fimmtán árum voru sett lög, stuttu fyrir miðnætti, sem mörkuðu mikil tímamót í íslenskri efnahagssögu og tóku gildi strax daginn eftir, 7. október 2008. Þessi lög eru oft kölluð neyðarlögin í almennri umræðu en heita fullum fetum lög um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. nr. 125/2008. Þá hafa lögin einnig verið kölluð bjargvættur íslensku þjóðarinnar. Þau heimiluðu ríkinu að reiða fram fjármagn til að stofna ný fjármálafyrirtæki eða yfirtaka þrotabú þeirra.
Flestum varð ljóst að um alþjóðlega fjármálakrísu var að ræða þegar gjaldþrot bandaríska Lehman Brother bankans varð óumflýjanlegt við að útibú hans í London fór í þrot þann 15. september 2008. Þá um vorið höfðu samt stórir bankar orðið gjaldþrota bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi en upphafið er oft rakið til undirmálslánavanda sem afhjúpaðist í ágúst 2007.
Það liðu tvær vikur frá Lehman gjaldþrotinu þar til reynt var að bjarga Glitni banka hérlendis. Samkvæmt reglu Walters Bagehots, sem finna má í gömlu handbók seðlabankamanna Lombard
Street frá árinu 1873, skal gjarnan veita þrautavaralán en aðeins til gjaldfærra banka, á háum vöxtum og með góðu veði. Svo leið önnur vika þar til áðurnefnd lög voru sett og bankakerfið á Íslandi féll saman.
Lengi þar á eftir var sú kenning á lofti hérlendis að mögulegt hefði verið fyrir íslenska ofurbankakerfið að lifa af ef Lehman hefði ekki fallið. Lærdómurinn af því sem komið hefur í ljós með rannsóknarskýrslum bæði bandaríska, breska og íslenska þingsins, sýnir þó annað.
Í upphafi þessa árs fór minni gjaldþrotaskjálfti um bankamarkaði bæði í Bandaríkjunum og Sviss en ekki eru enn allar afleiðingarnar orðnar ljósar t.d. í hinum óstöðuga heimi sýndareigna sem kallaðar eru rafmyntir, en það er önnur saga.
Að skilja hvað gerist í fjármálahruni er mikilvægt hópverkefni, sem líklega er ekki lokið. Svarið liggur örugglega ekki í þeirri einföldun að kenna útlendingum um eða einum banka eins og Lehman eða lántakendum undirmálslánanna.